30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4009 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem umr. verða um það hér utan dagskrár, hvort ég hafi haft heimildir eða umboð til að segja eitt og annað, sem ég hef sagt. Um þetta hefur verið fjallað hér margsinnis, hvort ég hafi fengið uppáskrift ríkisstj. til þess að halda ræður hér eða þar, og menn hafa ámælt mér alveg sérstaklega fyrir, að ég skyldi leyfa mér að segja eitt og annað án þess að hafa slíkt umboð.

Ég hef áður lýst því yfir og sú afstaða mín er óbreytt, að ég, þegar ég lýsi mínum skoðunum, geri það í fullkomnu samræmi við hugmyndir mínar um málfrelsi og prentfrelsi, og ég sæki ekki um heimild til eins eða neins til að lýsa slíkum skoðunum mínum. Ég hef ekki gert það og mun ekki gera það. Það getur vel skeð, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hafi orðið að una slíku, meðan hann sat í viðreisnarstjórninni, að mega ekki segja neitt án þess að hafa til þess leyfi Sjálfstfl. En það hefur enginn reynt að leggja slíkar hömlur á mig, og ég hefði aldrei beygt mig undir þær heldur.

Þau orð, sem ég sagði í hljóðvarpi í gærkvöld, voru að sjálfsögðu lýsing á mínum skoðunum. Ég var ekki að tala þar í umboði eins eða neins nema sjálfs mín. En það er ákaflega fróðlegt að heyra hér aftur og aftur þessi ritskoðunarsjónarmið, að ráðh. megi ekki segja neitt án þess að um hverja setningu hafi verið tekin formleg ákvörðun í ríkisstj. Það eru stjórnarhættir, sem ég tel ekki vera til neinnar fyrirmyndar.

Ég greindi frá því í ummælum mínum í hljóðvarpinu, að hæstv. forsrh. hefði nú fengið heimild allra stjórnarflokkanna til þess að rjúfa þing og boða til kosninga í haust. Og þetta er staðreynd, eins og hæstv. forsrh. staðfesti í orðum sínum hér áðan. Hæstv. forsrh. var ekki að lýsa einhverjum formlegum kenningum. Hann var að lýsa staðreyndunum, eins og þær ern. Á ríkisstjórnarfundi nú nýlega var rætt um efnahagsmálin og m.a. um viðræður, sem hæstv. forsrh. ætlaði að eiga við stjórnarandstöðuna. Og hæstv. forsrh. spurði að því, hvort hann mætti geta þess í þeim viðræðum, að hann hefði samþykki stjórnarflokkanna til þess, að hann gæti látið rjúfa þing og boða til kosninga í haust. Við ráðh. Alþb. lýstum því yfir, að þessa heimild hefði hann frá okkur, og ráðh. SF lýstu því sama yfir. (HV: Það er ósatt. — KP: Þetta er rangt.) Ég spyr hæstv. forsrh.: Er þetta ekki rétt? (Forsrh.: Gerðabókin er til.) Gerðabókin er til, segir hæstv. forsrh. Þetta eru staðreyndir. Ég veit hins vegar ekkert um það, hvernig ráðh. SF hafa haft samráð við sinn þingflokk. Um það veit ég ekki neitt. Ég veit hins vegar, hvað gerðist á þessum ríkisstjórnarfundi, og um það segi ég hreinar staðreyndir. Og þetta er ekki staðreynd, sem á að vera neitt leynileg. Ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til þess að halda slíkum staðreyndum leyndum. Það eru staðreyndir, sem ég sagði frá í hljóðvarpinu í gær, og þessar staðreyndir tel ég, að þjóðin eigi rétt á að vita um.

Ég fagnaði þessum tíðindum, vegna þess að ég var þeirrar skoðunar, eins og ég lýsti raunar, án þess að hafa heimild til eins eða neins, þegar í des., að þegar stjórnarandstaðan virtist vera ráðin í því að snúast gegn öllum málum ríkisstj., þá ætti að bregðast við slíkum vinnubrögðum, slíku ofstæki, eins og fram hefur komið hér á þingi að undanförnu, með því að rjúfa þing og boða til kosninga. Þess vegna fagnaði ég þeirri samstöðu, sem tókst um þetta nú fyrir mjög stuttum tíma og er bókað um í fundargerð hæstv. ríkisstj., þannig að það tjóar ekki að vera með neinn orðhengilshátt um þessi atriði. Þetta eru staðreyndir. Að sjálfsögðu liggur það í hlutarins eðli, að þegar hæstv. forsrh. er einu sinni búinn að fá yfirlýsingu af þessu tagi frá samstarfsflokkum sínum, þá hlýtur hún að standa. Það er ekki hægt að segja eitt í dag og annað á morgun um atriði eins og þetta. Það er að sjálfsögðu alveg fráleitt, að forsrh. geti ekki treyst því, sem samstarfsmenn hans segja um jafnmikilvæg atriði í ríkisstj.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson ræddi hér um þátt fréttastofu Ríkisútvarpsins, og væri raunar ástæða til að gera þann þátt að umræðuefni, því að hann hefur vissulega verið dálitið einkennilegur. Upphaf þessara umr. var, að það var haft samband við mig í síma, og ég svaraði í síma fáeinum spurningum, sem til mín var beint, algerlega málefnalega, áreitnislaust, — ég var eingöngu að lýsa afstöðu Alþb., — og þetta var haft eftir mér í fréttatíma hljóðvarpsins um kvöldið. En næsta dag birtast í hljóðvarpinu hv. þm. Geir Hallgrímsson og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sjálfir með pólitískar áróðursræður sínar, annar þeirra, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, með ofstækisfulla árásarræðu á Alþb., og að slíkur málflutningur eigi heima í fréttatíma útvarpsins, er mér algerlega óskiljanlegt. Slíkar umr. eiga rétt á sér undir öðrum dagskrárliðum en fréttatíma útvarpsins. Ég get ekki sagt annað en þessir hv. þm. háðir hafi gersamlega misnotað þann rétt, sem fréttastofan veitti þeim, og sérstaklega hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, sem gerði sig þarna sekan um það að misnota á hinn herfilegasta hátt stofnun, sem eitt sinn heyrði undir hann, og raunar fannst ýmsum, að hann kynni að nota þá stofnun, þegar hann var æðsti ráðh. hennar, og kannske á hann dálítið erfitt með að sætta sig við að geta ekki haldið áfram að nota hana á sama hátt og þess vegna verði viðbrögðin svona.

Fréttastofa hljóðvarpsins greindi mér frá því, að hún hefði af þessum ástæðum talið rétt að leita á nýjan leik til fulltrúa ríkisstj., stjórnarflokkanna, og hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur staðfest, að við hann var haft samband. Ég varð við þessu boði, og ég svaraði í sömu mynt, ekki reyna þess, að ég telji slíkar umr. eiga heima í fréttatímanum, heldur vegna þess, að ég kann því heldur miður að hlusta á jafndólgslegar árásir og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hafði í frammi án þess að svara þeim í einu eða neinu. En þetta er raunar minni háttar atriði miðað við hitt, sem er sú staðreynd, sem ég sagði frá í gær og hefur nú verið staðfest af hæstv. forsrh. og er bókuð í fundargerðarbókum hæstv. ríkisstj.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti áðan mjög ágætan skemmtiþátt úr þessum stól. Ég held, að þessi hv. þm. ætti að gera meira að þessu. Mér hefur fundist, þegar hann hefur komið fram hæði í hljóðvarpi og sjónvarpi nú að undanförnu, að þá hafi honum ekki verið kátína efst í hug. Hann hefur verið óhemjulega vanstilltur, alveg furðulega vanstilltur. Ég held, að honum láti betur að stjórna skemmtiþáttum og vekja hlátur og kátínu, eins og honum tókst hér áðan. Ég veit ekki nema það væri skynsamlegt fyrir þennan hv. þm. að huga nú að því, hvort það væri nú ekki ráðlegt að leggja inn á þá braut frekar en leggja út í þá kosningabaráttu, sem verður í síðasta lagi í haust.

En sem sé, ég hef með þessu svarað og hrakið það, sem hv. þm. Hannibal Valdimarsson sagði, að ég hefði farið með uppspuna. Það gerði ég ekki. Það, sem ég hef sagt, er í samræmi við það, sem hefur gerst á fundi fullskipaðrar ríkisstjórnar.