30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3628)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Aðeins fyrst nokkur orð varðandi ræðu þá, er hæstv. iðnrh. hélt hér áðan. Hann taldi sig hafa heimild eða umboð til að lýsa sínum eigin skoðunum, og það dregur enginn í efa. Það, sem menn draga í efa, er, hvaða heimild og hvaða umboð hann hefur til þess að lýsa annarra skoðun. Hæstv. iðnrh. er með eftirfarandi orðum: „því er mér það mikið ánægjuefni, að allir stjórnarflokkarnir hafa nú samþykkt heimild til forsrh. um að rjúfa þing og boða til þingkosninga í haust“ — að lýsa ekki eingöngu skoðunum sínum, ekki eingöngu skoðunum síns eigin flokks, heldur og samstarfsflokkanna í ríkisstj., og til þess hafði hann ekki umboð. Það hefur hæstv. forsrh. staðfest úr þessum ræðustóli áðan.

Þá nefndi hæstv. iðnrh., að hæstv. forsrh. hefði fengið yfirlýsingar frá samstarfsflokkum sínum í ríkisstj. um það, að honum væri heimilt að rjúfa þing og efna til kosninga í haust. Hæstv. forsrh. sagði í sínu svari, að hann teldi, að forsrh. hefði heimild til þingrofs í haust, en hvenær hann mundi nota þá heimild, skyldi hann ekkert um segja. Nú er rétt að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann eigi hér við þá heimild, sem forsrh. hefur lögum samkv., eða hvort hann eigi við þá heimild, sem byggist á samþykki samstarfsflokka hans í ríkisstj. um notkun þessa valds forsrh. til þingrofs. Notkun á þingrofsvaldi í samsteypustjórn hefur almennt verið því skilyrði bundin, eins og hér hefur komið fram í umr., að allir samstarfsflokkar hefðu samþykkt þá notkun. Nú er spurningin sú, og því getur hæstv. forsrh. tæpast vikist undan að svara, vegna þess að þá greinir hér á, hæstv. iðnrh. og hæstv. þm. Hannibal Valdimarsson, formann SF: Hafa samstarfsflokkarnir þrír í ríkisstj. veitt forsrh. heimild til þingrofs og nýrra kosninga í haust?

Á hvorn veginn sem hæstv. forsrh. svarar þessari fsp., gerir hann annað hvort hæstv. iðnrh. eða hv. þm. Hannibal Valdimarsson, formann Samtakanna, að ómerkingi orða sinna, og skal ég ekki hafa fleiri orð um það. En hér er um að ræða spegilmynd af því ástandi, sem ríkir innan stjórnarbúðanna, og vitnar um, að stjórn, sem situr í slíku andrúmslofti, er ekki líkleg til þess að leysa úr alvarlegum vandamálum, eins og við þjóðinni blasa nú.