30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4012 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

Umræður utan dagskrár

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég held, að það hafi verið nokkuð fjarri kjarna þessa máls, þegar hæstv. iðnrh. lýsti því yfir, að hann sækti aldrei um umboð til þess að halda ræðu. Það vita allir, að hann þarf á engum slíkum umboðum að halda. En hann sagðist aðeins vera að halda ræðu í ríkisútvarpið til þess að lýsa skoðunum sínum. Það hefði enginn haft neitt við það að athuga. En hann þóttist vera að tala fyrir hönd ríkisstj. allrar og var alveg augljóslega í því hlutverki, sem forsrh. ber að vera í, og það þótti nokkuð nýstárlegt.

Ég get upplýst það, að það er nokkuð síðan ráðh. SF skýrðu frá því, að forsrh. hefði innleitt það mál á ríkisstjórnarfundi, hvað gera skyldi, ef ekki yrði fært að koma fram úrræðum og till. ríkisstj. í efnahagsmálum, og þá hefði forsrh. talið, að það væri tvennt til: Annað hvort þingrof og kosningar eða stjórnin segði af sér án þess. — Þá var þetta mál rætt í þingflokki okkar, enda sögðu ráðh. okkar, að því hefði verið beint til þingflokkanna, sem stæðu að stjórninni, að ræða um þessar tvær leiðir, og það gerðum við. Þegar við höfðum rætt þetta mál allrækilega, komumst við að þeirri niðurstöðu, að það væri ábyrgðarleysi — og því lýsti ég síðar í sjónvarpsviðtali í samræmi við niðurstöðu þingflokksins, — það væri ábyrgðarleysi að hella þjóðinni út í kosningaham, út í eldhríð stjórnmálaátaka núna, þegar vitað væri, að holskefla dýrtíðar skylli yfir þjóðina 1. júní n.k. Þessarar skoðunar voru líka ráðh. Samatkanna. Um þetta var enginn ágreiningur. Síðan hefur engin önnur ákvörðun verið tekin í þingflokki Samtakanna. Og að höfðu viðtali við Björn Jónsson í morgun sagði hann mér í tilefni af ræðu Magnúsar Kjartanssonar, að þetta væri tilhæfulaust, fyrir því væri enginn fótur, sem hann hefði þarna fullyrt. Ég fer fram á það, að ég fái að sjá bókun ríkisstj, um þetta, ef hæstv. forsrh. heldur því fram, að það hafi verið bókað, að ráðh. samtaka okkar hafi samþykkt þar þingrof og kosningar, því að það hafa þeir tjáð þingflokknum og eru fleiri til frásagnar um það en ég, að svo væri ekki.

Það er sannfæring mín heils hugar, að nú sé annað fyrir Alþingi íslendinga og ríkisstj. á Íslandi að gera heldur en efna til kosningaelds og báls um allt land, það eigi að láta hendur standa fram úr ermum að leysa vandamálín fyrir 1. júlí, áður en vandamálið hefur margfaldast, — margfaldast segi ég, — og kannske orðið óviðráðanlegt, þótt allir legðust á eitt. Það er núna, sem á að framkvæma hlutina, en ekki stefna þjóðinni út í kosningaeld. Þeir gera illt, sem það bál kynda.