30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4016 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það verður aðeins örstutt aths. Ég svara auðvitað ekki hv. síðasta ræðu.manni, Bjarna Guðnasyni. Undir svona kringumstæðum eyðir maður ekki stórum skotum á litla fugla.

Erindi mitt í ræðustólinn var að beina örfáum orðum til hæstv. utanrrh., ekki í framhaldi af því, sem sagt hefur verið fram að þessu, heldur í framhaldi af því, sem gerðist í utanrmn. á fundi eftir hádegi í dag. Ég mun að sjálfsögðu ekki skýra frá því, sem þar gerðist, í samræmi við viðteknar starfsvenjur utanrmn., en ég ætla samt að leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh., hvort hann treysti sér ekki til þess að gefa þinginu og þar með þjóðinni yfirlýsingu um, að eftir það, sem gerðist í nótt og morgun varðandi áhafnaskipti í austur-þýsku togurunum, þá megi búast við ákvörðun ríkisstj, um það, að þriðja og ónotaða leyfið verði afturkallað. Það er eindregin skoðun mín og okkar stjórnarandstöðuflokkanna í utanrmn., að slíkt eigi að gera. Og ég skal segja það fyrir fram, að ef hæstv. ráðh, gefur slíka yfirlýsingu, þá fagna ég henni fyrir mitt leyti af alhug, tel hana rétta og tel þá nokkuð vera hætt fyrir mikil mistök, sem því miður hafa átt sér stað og ég skal ekki frekar ræða um.

Enn fremur vildi ég endurtaka þá áskorun mína til hæstv. utanrrh., sem ég bar fram í gærkvöld, að skjöl þessa máls verði birt, að þing og þjóð fái að vita um það bréf, sem barst frá austur-þýsku stjórninni, og svarbréf íslensku ríkisstj., og enn fremur frásagnir af munnlegum viðtölum, sem kunna að hafa farið fram, ef þau skipta máli. Allt þetta mál er þess eðlis, — nú skal ég engar ádeilur hafa í frammi, — en allt þetta mál er þess eðlis, að það er nauðsynlegt, að þing og þjóð viti nákvæmlega, hvað hefur gerst og hvernig stóð á þeim mistökum, sem því miður hafa átt sér stað, en ég vona nú, að hæstv. ríkisstj. sé reiðubúin að leiðrétta, eftir því sem kostur er.