30.04.1974
Efri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4018 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

335. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. til l. á þskj. 815 er til breyt. á l. nr. 45 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að seint í gær komu til mín formaður og framkvæmdastjóri BSRB og óskuðu eftir því, að ég flytti þetta frv., þar sem nokkuð miklar líkur væru fyrir því, að í aðalatriðum mundu samningar takast á milli ríkisins annars vegar og ríkisstarfsmanna hins vegar í röðun um launaflokka. Hins vegar væri ljóst, að þessu verki mundi ekki verða lokið fyrir kvöldið í kvöld, en samkv. lögunum átti málíð þá að ganga til Kjaradóms. Ég óskaði eftir því, að þeir semdu þá ásamt ráðuneytisstjóranum í fjmrn., sem er formaður samninganefndar ríkisins, breyt. á l., sem fæli í sér heimild til þess að fresta málinu til 15. maí, ef annar hvor aðilinn óskaði, þannig í að það gengi ekki til Kjaradóms fyrr, og jafnframt eftir ábendingu frá öðrum stjórnarandstöðuflokknum, sem ég náði að hafa samband við á flokksfundartíma í gær, að stytta tímann, sem málið yrði hjá Kjaradómi, en ekki var talið, að fært væri að gera það nema mjög takmarkað. En það var gert þannig, að það er fært niður í 10. júlí, og með því móti mundi greiðsla á launum ríkisstarfsmanna koma til jafnsnemma og hún hefði komið að öðrum kosti, þó að lögunum yrði ekki breytt. Þess vegna vona ég, að þeirri beiðni hafi verið fullnægt, sem hafi legið til grundvallar því, sem þingflokksform. Sjálfstfl. sagði mér, að væri ósk þeirra.

Ég hafði, eins og ég sagði, samband við form. þingflokks Sjálfstfl. og einnig varaform. þingflokks Alþfl. og hef einnig haft samband við form. þingflokks Alþfl. núna og hv. 3. landsk., Bjarna Guðnason, og svo samþykki ríkisstj. fyrir því að bera þessa breyt. fram. Til þess að hún megi að gagni koma, verð ég að leyfa mér að fara fram á það við hv. d., að hún afgreiði málið nú þegar, því að kl. 12 í kvöld á það að öðrum kosti að ganga til Kjaradóms, en að dómi þessara samningsaðila eru miklar líkur til, að verulega mikill hluti af þeim félögum, sem eru í samningum, muni ná samningum við ríkið án dóms og er ósk þeirra, að það geti orðið.

Ég leyfi mér því að fara fram á það við hv. d., að þetta mál megi ná fram að ganga án þess að fara til n., enda er hér aðeins um það eitt að ræða að skjóta inn orðunum: „Við gerð kjarasamninga 1974 skal heimilt eftir ósk aðila, að fresta málsskoti til Kjaradóms til 16. maí 1974. Jafnframt framlengist frestur Kjaradóms til dómsuppkvaðningar til 10. júlí 1974.“

Leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr., og biðja hv. d. að afgreiða málið nú þegar.