30.04.1974
Efri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4019 í B-deild Alþingistíðinda. (3638)

335. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég féllst á það í gær að leggjast ekki gegn því, að þetta frv. fengi svo skjóta afgreiðslu hér í þessari d. eins og farið var fram á, og ástæðurnar til þess voru fyrst og fremst þær, að ég hef sannfærst um það af viðræðum við ýmsa af forustumönnum samtakanna, sem eru innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að í sumum tilvikum hafa raunverulegar samningaviðræður um launaflokka varla hafist. Það er nú svo í sumum dæmum, jafnvel hjá stærstu launþegahópunum, að ekkert samband var haft við þá um röðun í launaflokka fyrr en að liðnum tveim mánuðum. Mér er sagt, að í sumum tilvikum hafi engar viðræður hafist fyrr en eftir páska, og mér er einnig kunnugt um það, að í einu stærsta launþegafélaginu hófust raunverulegar viðræður ekki fyrr en fyrir eitthvað 10–15 dögum eða þar um bil. Þar við bætist svo, að engar viðræður gátu farið fram um síðustu helgi, m.a. vegna flokksráðsfundar Framsfl. Allt þetta veldur því eðlilega, að þetta mál er komið í algjöran hnút.

Það hefði að sjálfsögðu ekki þurft að koma til þess að fresta þessu máli, ef viðræður hefðu farið fram með eðlilegum hætti milli opinberra starfsmanna og samninganefndar ríkisins þann tíma, sem ætlaður var til slíkra viðræðna. En hér endurtekur sig sama sagan og s.l. haust. Þá var ekki byrjað að tala við opinbera starfsmenn fyrr en í óefni var komið, og ef ég man rétt, var tilboði þeirra ekki svarað — ég man ekki, hvort það var síðasta daginn í septembermánuði eða ekki fyrr en í októbermánuði, og af eðlilegum ástæðum eru þeir frestir, sem gert er ráð fyrir í l., of stuttir af þessum sökum.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að ég verð að segja það því miður, að ég er ekki jafnbjartsýnn á það og framkvæmdastjóri og forseti BSRB, að það takist samningar milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins nú um röðun í launaflokka, enda er sannast sagna ekki á þeirra valdi að fjalla um þau mál, heldur er fjallað um þau hjá hinum einstöku aðildarfélögum. En ég hef sannfæringu fyrir því, sem raunar er staðfest einnig í þeim viðbrögðum 200 manna hjá Pósti og síma að leggja nú niður vinnu til þess að leggja áherslu á kröfur sínar um hækkun í launaflokkum, að það heri töluvert á milli ríkisstarfsmanna innan BSRB og ríkisstj. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst tvær. Annars vegar sú, að bilið milli opinberra starfsmanna og hins frjálsa vinnumarkaðar hefur breikkað mjög mikið, þannig að opinberir starfsmenn hafa alls ekki sambærileg kjör við það„ sem tíðkast á hinum almenna launamarkaði. Þar við bætist svo það, að samkv. þeim kjaradómi, sem fjallar um kjör háskólamanna hjá ríkinu, á að bæta við 3–4 launaflokkum fyrir ofan almennu flokkana 9, þannig að með þeim hætti gefst svigrúm til þess að hækka háskólamenntuðu mennina meira en hina, sem ekki eru háskólamenntaðir. Afstaða hæstv. ríkisstj. er að vilja hafa öðruvísi launastiga fyrir háskólamenntaða menn en hina, sem óháskólamenntaðir eru. Sem sagt, nú hefur verið fallið frá kenningunni um sömu laun fyrir sömu vinnu, sem er m.a. staðfest í því, að í viðræðum ríkisstj. við aðildarfélög BSRB er reiknað með því að halda þeim launastigum, sem samið var um, en hins vegar ekki fjölgað til samræmis við niðurstöður Kjaradóms. Ég viðurkenni, að í þessu efni ber mér ekki að áfellast hæstv. fjmrh., sem hefur haldið mjög vel á ríkisfjármálunum að þessu leyti, en þetta snýr fyrst og fremst að þeim forustumönnum, sem eru í BSRB og að mínu mati hafa ekki haldið nógu fast á þessu stefnumáli.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Það varð samkomulag um að láta þetta mál fara í gegn hér án mikilla umr., og ég skal ekki teygja lopann um það. Ég vil aðeins undirstrika það, að þetta frv. er fram komið vegna þess, að sá tími, sem ætlaður er lögum samkv. til viðræðna milli samningsaðila um röðun í launaflokka, var ekki notaður sem skyldi, og einnig hitt, að ástæðan til þess, hversu illa gengur að semja um launaflokkana, er annars vegar sú, að á hinum frjálsa vinnumarkaði eru laun nú miklu hærri en hjá opinberum starfsmönnum, og eins hitt, að með úrskurði Kjaradóms hefur háskólamenntuðum mönnum verið gert hærra undir höfði en öðrum innan ríkiskerfisins.