30.04.1974
Sameinað þing: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4023 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

25. mál, bygging skips til Vestmannaeyjaferða

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. þessa, sem er á þskj. 28, og er n. sammála um þá meðferð málsins, .eins og fram kemur í nál. á þskj. 852, að þáltill. verði vísað til ríkisstj. Þessi afstaða fjvn. um að vísa till. til ríkisstj. er byggð á því, að með l. frá Alþ. 14. febr. s.l., um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir og til kaupa á tveimur ferjuskipum, er svo fyrir mælt í 3. gr., að ríkisstj. sé heimilt gegn tryggingum, sem hún metur gildar, að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði skips til flutninga fyrir Vestmannaeyjar, enda gangist bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir stofnun félags, er eigi skipið og annist rekstur þess.

Þar sem Alþingi hefur með þessum hætti lýst vilja sínum í því nauðsynjamáli, að keypt verði eða smíðað skip til siglinga milli lands og Eyja og á þann hátt, sem vitað er, að íbúum Vestmannaeyja er vel að skapi, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir sjálfir eigi og reki skipið, þá þykir fjvn. eðlilegt, að ríkisstj. fái till. þessa til meðferðar, og er með því lögð áhersla á, að stjórnin flýti fyrir því, að gott skip verði fengið til að þjóna þörfum Vestmanneyinga til góðra samgangna við Suðurland með föstum og tíðum ferðum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og Reykjavíkur, á meðan ekki er um aðra höfn á suðurströndinni að ræða. Nál. fjvn. er prentað á þskj. 652.