02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

177. mál, undirbúningsfélag fiskkassaverksmiðju

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 817, hefur iðnn. fjallað um frv. þetta og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess óbreytts.

Ég ætla ekki að hafa þetta langa framsögu. Hæstv. iðnrh. gerði það við 1. umr. Auk þess hafa hv. þm. fengið ítarlega skýrslu frá n., sem starfar að undirbúningi þessa máls. Þar er greint vandlega frá því, sem hér er um að ræða.

Rétt er, að það komi fram, að þótt fallist sé á að stofna þetta undirbúningsfélag, er framhald þessa máls ekki ljóst. Framleiðsla kassa eins og hér um ræðir er töluvert margslungið verkefni, stofnkostnaður er mikill. Þarf framleiðslan að vera mikil, til þess að arðvænleg geti talist. Undirbúningsnefndin, sem samdi fyrrnefnda skýrslu, telur þó, að líkur séu til þess, að svo megi verða, og er talið rétt, að þetta undirbúningsfélag verði sett á stofn til að ganga endanlega úr skugga um það.

Ég vil einnig geta þess, að til er kjarni að slíkri framleiðslu hér á landi, á Akureyri og er gert ráð fyrir því, að þessi framleiðsla, ef af henni verður, verði í tengslum við þá framleiðslu, sem þar er.

Eins og ég sagði í upphafi, mælir iðnn. með samþykkt frv.