02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4027 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi. Efni þessa frv. er að kveða á um viðskiptamenntun að loknu 8 ára skyldunámi og einu skólaári til viðbótar eða hliðstæðri menntun samkvæmt hugsanlegu grunnskólafrv.

Frv. fjallar í fyrsta lagi um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi í skólum, sem reknir eru og settir á stofn á vegum ríkisins, þ. á m., eins og segir í 7. gr., skóla þessarar tegundar á vegum ríkisins, sem fyrirhugað er að stofna á Akureyri.

Í öðru lagi fjallar frv. um Samvinnuskólann og Verslunarskólann, sem báðir hafa veitt menntun af þessu tagi fram að þessu og munu vafalitið gera það áfram enn um sinn.

N. ræddi við form. n. þeirrar, sem undirbjó frv., Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra, og fjallaði um það á nokkrum fundum sínum. N. var sammála um að mæla með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt., og eins og fram kemur í nál. er að till. nm. Ásgeirs Bjarnasonar, Jóns Árm. Héðinssonar, Páls Þorsteinssonar, Ragnars Arnalds og Steingríms Hermannssonar, að frv. verði samþ. með tilteknum breytingum, sem þeir gera till. um á sérstöku þskj.

Þar sem n. að öðru leyti mælir með samþykkt frv. og ber ekki fram sérstakar brtt., sé ég ekki ástæðu til þess að hafa framsöguorð fyrir n. um þetta mál fleiri, en vil að lokum víkja í fáum orðum að brtt. þeim, sem 6 nm. flytja á þskj. 790.

Brtt. þessar snerta tvær gr. frv.: í fyrsta lagi 9. gr. og í öðru lagi 10. gr.

9. gr. frv. fjallar um Samvinnuskólann og Verslunarskólann, og þar segir í 1. málsgr., að þessir skólar hafi „rétt til að halda áfram að rækja það fræðslustarf, sem þeir hingað til hafa annað, og til að auka það og sérhæfa, eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur á hverjum tíma.“

Í till. okkar er þessi setning tekin upp svo til óbreytt og algerlega óbreytt að efni til.

Í frv. er síðan vikið að því, hvern styrk úr ríkissjóði fyrrnefndir skólar eigi að hljóta, og segir í frv., að rekstrarkostnaður skólanna skuli greiddur að fullu, annar en rekstrarkostnaður heimavistar, en til hennar skuli veittur styrkur, er nemur 80% kostnaðar. Framlag ríkissjóðs skuli að hámarki miða við kostnað í ríkisskólum á sama fræðslustigi.

Í öðru lagi segir, að stofnkostnaður þess kennsluhúsnæðis, sem byggt verður eftir gildistöku laga þessara, skuli greiddur úr ríkissjóði að 80%, og skal sama gilda um heimavist, þar sem hennar er talin þörf. Skilyrði nefndra styrkveitinga er, að menntmrn. hafi samþ. árlega áætlun rekstrarkostnaðar skólanna og fé sé veitt í fjárlögum fyrir stofnkostnaði, enda liggi áður fyrir samþykki stjórnvalda fyrir nýjum byggingarframkvæmdum.

Við þessar málsgr. hafa fyrrnefndir nm. gert nokkrar brtt., sem miðast við það, að hér er um að ræða skóla, sem ekki eru í eigu ríkisins, heldur í eigu annarra aðila, og þess vegna var talið óhjákvæmilegt, að orðalag gr. væri með skýrari hætti en í frv. er.

Í fyrsta lagi er í brtt. ekki rætt um, að hér sé um að ræða styrk úr ríkissjóði, heldur er talað um fjárveitingar, en á þessu tvennu er að sjálfsögðu nokkur munur. Gildir þetta fyrst og fremst um stofnkostnaðinn. Þeir hundraðshlutar, sem nefndir eru í frv., hafa ekki tekið breytingum í tillögugerð fyrrnefndra nm., en orðalaginu er breytt, þannig að þar sem rætt er um styrkveitingar, er í till. okkar rætt um fjárveitingar, og síðan er bætt við setningu, sem ekki var í frv.: „Framlag ríkissjóðs til stofnkostnaðar kennslu- og heimavistarhúsnæðis telst áfram eign ríkisins, og getur rn. tekið sinn hluta húsnæðisins til annarra nota, ef það er ekki ha nýtt í þágu viðkomandi skólastofnana.“

Ég býst við, að flestir geti verið sammála um, að þetta sé eðlilegt. Það er ekki um það að ræða og var, að ég held, ekki ætlunin, að svo yrði litið á, að framlög ríkissjóðs yrðu eign þeirra aðila, sem við þeim tækju, heldur er gert ráð fyrir því, að um svipað skipulag yrði að ræða og þegar ríkið tekur þátt í skólabyggingum ásamt einhverjum öðrum aðilum, t.d. sveitarfélögum. Þá heldur framlag ríkissjóðs áfram að vera eign ríkisins. Til þess að taka af allan vafa um þetta atriði eru bornar fram brtt. varðandi þessi ákvæði.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að skýra nánar þessa brtt. Hún skýrir sig sjálf. Hér er fyrst og fremst um orðalagsbreytingar að ræða til þess að gera það alveg ljóst, að fjárveitingar ríkisins halda áfram að vera eign ríkisins.

Varðandi 10. gr. hafa verið gerðar nokkrar brtt., því að í frv. er ekki um að ræða neitt ákvæði um skólanefndir við þessa tvo skóla. Þetta var talið óeðlilegt, vegna þess að þegar ríkisvaldið tekur að sér að kosta rekstur og stofnun þessara skóla að verulegu leyti, er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt, að hið opinbera, og þá fyrst og fremst menntmrn., hafi einnig einhverja aðstöðu til þess að fylgjast með því, hvernig því fé er varið. Og það verður að sjálfsögðu ekki gert öðruvísi en þannig, að rn. eigi fulltrúa í skólanefnd. Þess vegna höfum við borið fram till., svo hljóðandi:

„Ráðherra skipar skólanefndir við Samvinnuskólann og Verslunarskólann. Einn fulltrúa frá menntmrn. skipar ráðh. án tilnefningar, en aðra samkv. tilnefningu eignaraðila. N. kýs sér form. og varaform. Skólanefnd ræður skólastjóra og kennara í samráði við hann og fer með fjárreiður skólans.“

Eins og sjá má af þessari tillögugerð, er öllum möguleikum haldið opnum um það, hversu margir skipi viðkomandi skólanefnd og hvaða aðilar hafi rétt til að tilnefna í þessar n., því gert er ráð fyrir, að um slíkt náist samkomulag milli viðkomandi skóla og menntmrn., en því einu slegið föstu, að í skólanefnd sé a.m.k. einn fulltrúi frá menntmrn.

Önnur mgr. í till. okkar er lítillega breytt í samræmi við það, sem áður er komið, en þar segir: „Um embættisgengi, starfsréttindi, ráðningu, störf, orlof og tölu fastra starfsmanna skóla, er veita menntun samkv. l. þessum, fer að öðru leyti eftir ákvæðum l. og reglugerða, er um slíkt gilda á hverjum tíma fyrir framhaldsskólastigið.“

Eins og frvgr. var áður, var ekki ljóst, hvort 10. gr. ætti við skólastarf Samvinnuskólans og Verslunarskólans, og sá skilningur kom fram hjá form. n., sem undirbjó frv., Birgi Thorlacius, að ekki væri gert ráð fyrir því. En það var talið eðlilegt, að þegar búið væri að ákveða, að skólastjóri og kennarar væru ráðnir af skólanefnd og hún færi með fjárreiður skólans, þá giltu að öðru leyti almennar reglur um ráðningu fastra starfsmanna hans.

Að lokum vil ég benda á, að í 2. mgr. brtt. okkar nm. við 10. gr. frv. höfum við gert lítils háttar breyt., sem er fólgin í setningunni: „Skólastjóri og skólaráð stjórna daglegu starfi sérskóla samkv. 7. og 9. gr.“ En í frv. sagði: „Skólastjóri og skólaráð stjórna starfi sérskóla samkv. 7. gr.“ Það var sem sagt gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði ætti ekki við Samvinnuskólann og Verslunarskólann. Mér er sagt af kunnugum, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að þetta geti jafnt átt við Samvinnuskólann og Verslunarskólann, því að gert er ráð fyrir því, að skólaráð verði starfandi við þessa skóla, og því þykir okkur flm. þessarar till. óeðlilegt að frvgr. nái ekki einnig til þessara skóla.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um brtt. okkar fimmmenninga í menntmn., sem flytjum brtt. á þskj. 790, en minni aðeins á að lokum, að við erum meðmæltir því, að frv. verði samþ., en flytjum þessar brtt. við ákvæðin um Samvinnuskólann og Verslunarskólann.