02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4034 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að 2 af stjórnarsinnum í n. hefðu lýst þeim vilja sínum, að því er mér skildist, að frv. færi í gegn óbreytt. N.í tilgreindi hv. þm. að vísu ekki, hverjir þetta væru, en ég kann því illa, ef þetta á við mig a.m.k., og raunar kannast ég ekki við þetta. Ég held, að ég verði að nota það fordæmi, sem þeir sýndu okkur í Sþ. í fyrradag, að vísa í gerðabók n. Þar hygg ég, að þetta sé varla svo skráð þar. Staðreyndin er sú, að ég fyrir mitt leyti hef aldrei orðað nokkurn ágreining við hugmyndir um breyt. á 9. gr., og ég kannast ekki við, að neinn stjórnarsinni í n. hafi gert það. Ég hygg að við höfum allir verið sammála um, að frekari skilyrði væru sjálfsögð, ef þetta mikla framlag ríkisins ætti til að koma.

Ég get getið þess, að ég hef rætt við bæði fulltrúa samvinnumanna og sömuleiðis hringdi til mín einn af mönnum Verslunarráðs, — ég held hann sé í skólanefnd Verslunarskólans, — og ég gat ekki skilið annað en að það væri talið eðlilegt, að bætt væri inn ákvæði um eignaraðild ríkisvaldsins að því, sem fyrir fjármagn þess er byggt.

Um brtt við 10. gr. er það að segja, að við gerðum strax í upphafi þá aths. við þær breyt., sem form. n. setti á blað, að eðlilegra væri að eignaraðilar þarna, sem sagt Verslunarskólinn eða þeir aðilar, sem þar eru eigendur að, og samvinnuhreyfingin, skipuðu form. n. Var strax fallist á að breyta þessu. Á þessu urðu síðar frekari breyt., og ég hygg, að ég hafi átt þar nokkurn hlut að, m.a. eftir fyrrnefnt viðtal mitt við einn af forsvarsmönnum Verslunarskólans, sem sérstaklega lagði áherslu á, að ekki mætti binda með lögum, hvernig skólanefnd þess skóla yrði skipuð, og benti mér á það, sem ég þekkti ekki í smáatriðum, hvernig n. er skipuð. Þar eiga sæti fulltrúar aðila, sem utan við skólann að öðru leyti standa, en hafa þar stórra hagsmuna að gæta. Um þetta ræddum við flm. þessarar brtt., og við urðum á einu máli um, að sjálfsagt væri að ganga til móts við óskir þessara aðila. Er því 10. gr. orðin svo sem hún er nú á þskj. 790 eftir viðræður okkar við þessa aðila og þann ásetning okkar að gera hana þannig úr garði, að allir gætu vel víð unað. Ég verð því satt að segja að lýsa undrun minni á því, að hv. þm. skuli ekki geta unað við 10. gr., eins og hún er nú orðin. Þar segir að vísu, að ráðh. skipi skólanefnd, en þar er ekkert ákvæði um, hvað hún skuli vera fjölmenn, og þar er eingöngu sú heimild til ráðh., að hann skipi einn mann í skólanefnd án tilnefningar. Það er því ljóst, að þarna hafa eignaraðilar öll önnur ráð í sinni hendi. Þeir tilnefna alla aðra menn og ráða, að sjálfsögðu í samráði við ráðh., hve fjölmenn n. skuli vera. Hygg ég, að þar verði ekki nein andstaða.

Ég vildi biðja hv. þm. að skoða þetta betur. Mér fannst hv. þm. í ræðu sinni vísa fyrst og fremst til þessara brtt., eins og þær voru á umræðugrundvelli í n., en ég vil leggja áherslu á það, að þær hafa breyst þarna verulega, fyrst og fremst vegna þeirrar viðleitni okkar að ganga eins langt til móts við eignaraðila þessa skóla og unnt er. En ég vil aftur endurtaka það og leiðrétta það, að ég hef fyrir mitt leyti ávallt verið sammála nauðsynlegri breyt. á 9. gr. og talið eðlilegt að endurskoða 10. gr., og ég minnist þess ekki, að ég hafi sagt, að ég kysi helst, að frv. færi í gegn óbreytt.