02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil í upphafi lýsa yfir ánægju yfir því, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að loksins skuli að því komið, að ríkisvaldið sýni einhvern lit á því að veita fólkinu í strjálbýlinu aðstöðu til þess að öðlast viðskiptamenntun. Hér er gert ráð fyrir því í 7. gr., að fyrsti skóli af þessu tagi skuli koma á Akureyri, og er það vissulega góðra gjalda vert, þó að það verði að segjast eins og er, að það er búið að kosta langa baráttu að fá þessu framgengt, og hefði verið skemmtilegra að fá að vita eitthvað nánar um þá uppbyggingu, sem þarna á að fara fram.

Um þær umr., sem hér hafa farið fram, þá get ég ekki séð annað en hér snúist deilan um það, hvort rétt sé, að ríkisvaldið setji puttann í rekstur Verslunarskólans og Samvinnuskólans. Það hefur ekki komið fram, hvorki í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. né heldur í ræðu hv. 1, þm. Vestf., að þeim aðilum, sem hafa farið með stjórn þessara skóla, sé ekki fullkomlega treystandi til að rækja það áfram. Það er ekki dregið í efa, að þessir skólar hafi verið vel reknir, og það er ekki sýnt fram á, að það sé nein brýn þörf á því að breyta þarna um. Það er ekki það, sem veldur sinnaskiptum þessara tveggja hv. alþm., og ég vísa því algjörlega á bug, að það sé eitthvað óeðlilegt við að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, óbreytt, eins og frá því er gengið. Ég bendi á í því sambandi, að einn af þeim mönnum, sem sömdu þetta frv., er fyrrv. form. Framsfl., hv. 1. þm. Austf., en það er skýrt tekið fram í aths. við lagafrv., að n. hafi orðið sammála um öll atriði þess. — Ég bið ykkur afsökunar, ég hef mismælt mig. Það, sem ég átti við, er það, að það kemur mér ekki á óvart, þótt það komi úr þessari átt till. um að auka ríkisáhrifin og ríkisvaldið hvar sem er. Það er stefna hv. þm. og þess flokks, sem hann fylgir, að stjórna öllu ofan frá. Ríkið á að hafa puttann alls staðar, og það á helst enginn að fá að gera neitt í þessu þjóðfélagi, án þess að það leggi sinn stimpil á. Nú er ég þeirrar skoðunar, og það hefur oft komið fram, þegar ég hef rætt hér um fræðslu- og skólamál almennt, að ég tel ákaflega gott og hollt fyrir þjóðfélagið, að skólarnir fái að þróast nokkuð með mismunandi hætti. Ég er t.d. algjörlega andvígur þeim hugmyndum, sem nú eru uppi um að setja alla menntaskólana, steypa þá alla í sama formið og með þeim hætti að reyna að koma í veg fyrir, að þessir skólar þróist nokkuð með mismunandi hætti á hinum ýmsu stöðum á landinu. En eins og við vitum, hefur verið pressað á það frá ríkisvaldinu að reyna að steypa þá alla í sama mótið.

Það, sem verið er að gera hér með breyt. á 10. gr., er, að það er verið að lauma þarna inn einum fulltrúa frá menntmrn. og með því að gera það er í raun og veru verið annars vegar að lýsa vissri vantrú á, að þessir aðilar geti stjórnað þessum skólum áfram, eins og þeir hafa gert hingað til, og hins vegar er þarna náttúrlega verið að gefa ríkisvaldinu aðgang að skólunum til þess með þeim hætti að hafa áhrif á rekstur þeirra í sambandi við þá menntun og þá fræðslu, sem þar á að fara fram. Eins og frv. liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að rekstur skólanna sé undir eftirliti menntmrn. Það er þess vegna ekki um það að ræða að fylgjast með því, hvernig þessu fjármagni er ráðstafað. Það er ekki það, sem þarna er að baki.

Þetta eru þær ástæður, sem valda því, að ég get ekki fallist á þá brtt., sem þarna er gert ráð fyrir við 10. gr. Ég geri mér reyndar vonir um, að hv. 1. þm. Vestf. fari eftir samvisku sinni í því efni og láti ekki hræra í sér. En ég skildi orð hans svo hér áðan, að hann langaði til þess að samþykkja frv. óbreytt að þessu leyti, ef allir aðrir mundu gera það líka. En það er hægt að greiða atkv. á móti þessari brtt. og fella hana eftir samvisku sinni. Ég vil benda á til rökstuðnings þessu, að ég sé ekki, að ríkisvaldið sé í raun og veru að gefa Verslunarskólanum eða Samvinnuskólanum ákaflega mikið. Það er beinlínis viðurkennt í grg. með þessu frv., að ríkissjóður hafi raunverulega sparað sér stórfé á undanförnum árum með því að veita Verslunarskólanum styrk í fjárlögum í stað þess að taka verslunarmenntunina í sama mæli á sina arma og aðra sérmenntun í landinu. Verslunarskólarnir hafa algjörlega séð um þessa menntun. Þeim hefur farið hún vel úr hendi. Ég álít, að miðað við þá reynslu, sem við höfum af þessum skólum, og miðað við það, að ekkert liggur fyrir um það, að neinar raunverulegar ástæður liggi að baki þeim brtt., sem hér eru lagðar til víð 10. gr., þá sé fullkomin ástæða til þess að hafa þetta óbreytt áfram. Ég get ekki séð, að nein heilbrigð skynsemi mæli með breytingu á ríkjandi ástandi, sem hefur reynst vel nema því fylgi einhver rökstuðningur.

Það er líka algjör misskilningur hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., að hér sé um að ræða einhverja algjöra eðlisbreytingu. Hér er ekki um að ræða neina algjöra eðlisbreytingu. Hér er einungis um það að ræða að létta skólagjöldum af þeim nemendum, sem hafa menntað sig í þessum skólum. Og ég tek undir það með hv. 6. þm. Reykv., að eins og skólanefnd Verslunarskólans hefur verið valin, þá hafa þeir menn staðið þar að, sem best og gerst eiga að þekkja til þarfarinnar í þessum efnum í þjóðfélaginu. Skólanefndin er í tengslum við atvinnulífið og hefur eins góða möguleika til þess að fylgjast með breyttum þörfum og nokkur kostur er. Það hefur einmitt lengi verið sérstakt áhugamál mitt og ýmissa annarra manna, sem hafa fengist við skólamál, að stuðla að auknum tengslum skólanna við atvinnulífið og þannig gera þá menntun, sem þar fer fram, lífrænni og meira í samræmi við nauðsynlegar þarfir en raunin hefur orðið á í ríkisskólunum. Það er líka ástæðan fyrir því, að þessir skólar hafa dafnað eins og raun ber vitni. Þeir hafa verið jafneftirsóttir og raun ber vitni vegna þess, að þannig hefur verið haldið á málum. Ég hef ekki þá trú á ríkisvaldinu í þessu efni, að ég sjái neina ástæðu til þess að það eigi þarna fulltrúa. Ríkisvaldið hefur með frammistöðu sinni í skólamálum síður en svo skapað sér einhvern rétt eða einhvern sérstakan trúnað, svo að rétt sé að auka áhrif þess á þá fáu skóla, sem enn eru ómengaðir af áhrifum, sem þar hafa komið víða fram.