07.11.1973
Neðri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

52. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 55 höfum við þrír þm. leyft okkur að flytja frv. Meðflm. mínir eru þeir hv. þm. Jónas Jónsson og Ágúst Þorvaldsson. 1. gr. frv. er þannig:

29. gr. laganna orðist svo:

Íbúðir, sem byggðar eru í því skyni að útrýma heilsuspillandi íbúðum, skulu geta notið lána samkv. l. um Stofalánadeild landbúnaðarins og II. kafla þessara laga.“

Ástæðan fyrir því, að þetta frv., er nú flutt, er úrskurður, sem félmrn. gaf hinn 8. maí s. l., en úrskurðurinn er þannig, með leyfi forseta:

„Með bréfi, dags. 16. þ. m., hefur stofnunin leitað umsagnar rn. um það, hvort unnt sé að veita C-lán til útrýmingar heilsuspillandi íbúða í sveitum, samkv. V. kafla l. nr. 30 frá 12. maí 1970. Rn. er ekki kunnugt um, að fé, sem varið hefur verið til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, hafi nokkurn tíma verið veitt til íbúðabygginga í sveitum. Í raun og veru sýnist það heldur ekki samrýmanlegt sumum ákvæðum laganna. Í 29. gr. 1. segir t. d., að íbúðir, sem byggðar eru í því skyni að útrýma heilsuspillandi íbúðum, skuli geta notið lána samkv. II. kafla l. Í upphafi þess kafla segir hins vegar, að hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins skuli vera að annast lánveitingar til íbúðabygginga annarra en þeirra, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins lánar fé til, sbr. 4. gr. l. Samkv. þessu virðist skorta lagaheimild til þess að verja fé samkv. V. kafla l. nr. 30 frá 1970 til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum í sveitum.“

Ég held, að þessi lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða séu frá árinu 1955, og munu hafa liðið um 15 ár, þangað til fyrst var farið að spyrja um það frá hreppsnefnd sveitahrepps, hvort kæmi til greina að fá fé til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum í sveitum. Og það mun ekki hafa verið lögð fram formleg umsókn um þetta fyrr en á síðasta ári. Þess vegna hefur ekki reynt á það fyrr en nú, hvort þetta yrði veitt. En samkv. þessum úrskurði, eins og ég hef þegar lesið, er það álit þeirra, sem hafa gefið hann út, að það samrýmist ekki lögum að veita slík lán til útrýmingar heilsuspillandi íbúða í sveitum. Það er auðvitað fráleitt, að menn eigi að gjalda búsetu sinnar á þennan hátt. Af þeim ástæðum er þetta frv. flutt. Ég tel, eins og kemur fram í grg., að það sé alls ekki í anda laganna að mismuna mönnum á þennan hátt, hvernig sem stendur á því, að t. d. 29. gr. er orðuð þannig, að félmrn. telur sig til knúið að gefa út slíkan úrskurð.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði neinar deilur um þetta mál hér í hv. d., vegna þess að þetta er réttlætismál og sjálfsagt mál. Ég orðlengi þetta því ekki, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.