02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4040 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

Varamaður tekur þingsæti

Forseti (Gils Guðmundsson):

Mér hefur borist svo hljóðandi bréf:

„Alþingi, 1. maí 1974.

Til forseta Nd.

Þar sem ég undirritaður er á förum til útlanda í opinberum erindum og get ekki sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að æskja þess, að 1. varamaður Framsfl. í Norðurl. e., Ingi Tryggvason bóndi á Kárhóli, taki sæti á Alþingi í minn stað nú um sinn.

Virðingarfyllst,

Ingvar Gíslason, 1. þm. Norðurl. e.“

Ingi Tryggvason bóndi á Kárhóli hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili, og hefur rannsókn á kjörbréfi hans farið fram. Býð ég hann velkominn til starfa og vil jafnframt biðja hann að gegna fyrir mig skrifarastörfum um sinn í fjarveru skrifara, ef hann vildi gera svo vel.