02.05.1974
Neðri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

274. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Lagafrv. þetta hefur hegningalaganefnd samið í samráði við dóms- og kirkjumrn. og heilbr.- og trmrn., og stendur það í nánum tengslum við og er raunar fylgifiskur frv. til l. um ávana- og fíkniefni, sem er flutt samhliða þessu frv. og er held ég 11. eða 12. mál á dagskránni.

Með frv. þessu er stefnt að því, að lögfest verði í almennum hegningarlögum refsiákvæði, sem feli í sér, að meiri háttar brot á ákvæðum l. um ávana- og fíkniefni varði við almenn hegningarlög. Með því er það viðhorf áréttað, að a.m.k. sérstaklega saknæm brot af þessu tagi séu mjög alvarleg. Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til aths., sem fylgja frv., en þetta er mjög einfalt frv. í sniðum og að efni til. Það hefur gengið í gegnum 3 umr. í Ed. og samþ. þar shlj., og leyfi ég mér að leggja til. að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. allshn.