07.11.1973
Neðri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs til þess að fullgera Djúpveg og opna þannig hringveg um Vestfirði. Meðflm. mínir að þessu frv. eru hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmason, og hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, en málið er flutt í fullu samráði við aðra þm. Vestf., sem sæti eiga í hv. Ed., og má því raunar segja, að þeir standi einnig að flutningi frv., þ. e. a. s. um það standa allir Vestfjarðaþm.

Það er sennilega komið á annan áratug síðan farið var að vinna að svokölluðum Djúpvegi, þ. e. a. s. að tengja saman akvegi um sunnanvert Ísafjarðardjúp, um byggðirnar þar. En fjárveitingar hafa verið smáar og verkið hefur sóst seint, svo að sumir Vestfirðingar hafa verið að tala um þessa vegagerð eins og Reykvíkingar um Miklubrautarframkvæmdirnar, að þetta mundi verða í tölu eilífðarmálanna. En á seinustu tveimur árum hafa fjárveitingar verið nokkru meiri en áður, 25 millj. kr. hvort árið um sig, og standa framkvæmdir þannig, — þær hafa sóst vel tvö s. l. ár með fullkomnum tækjum og nokkru hærri fjárveitingum en áður, — núna í haust, þegar vinnu var lokið við Djúpveg, var talið, að um 105 millj. kr. þyrfti til þess að ljúka þessari vegagerð og tengja saman enda Djúpvegar, en þar er nú unnið í Skötufirði og Hestfirði. Á vegáætluninni er hins vegar á tveimur árum varið 50 millj. kr. til verksins, og má því segja, að miðað við verðlag í ár vanti 55 millj. kr. til þess að geta lokið þessari vegagerð. Má því búast við, að við notkun framkvæmdafjárins á næsta ári sé fjárvöntunin ekki minni en 60 millj. kr. Og við þá upphæð miðum við í frv. Við viljum sem sé, að rekinn sé endahnútur á þessa vegagerð með því móti, að ríkissjóður gefi út til sölu innanlands happdrættisskuldabréf, sem nemi samtals 60 millj. kr., og verði þessi happdrættisskuldabréf gefin út fyrir marslok á næsta ári, 1974.

Öll lánskjör eru nákvæmlega shlj. ákvæðum í l. um vega- og brúagerð á Skeiðarársandi, og þarf ég ekki að fara nánar út í það. En við gerum ekki kröfu til þess, að þessi fjáröflunaraðferð sé talin frumleg. Hins vegar má segja, að þegar Jónas Pétursson, fyrrv. alþm., kom fyrst fram með hugmynd á þessa lund, um fjáröflun til þess að ljúka hringvegi um landið, þá var það snjöll hugmynd, og hún var gripin á lofti og þingið lögfesti hana, og það fé, sem heimilað var að afla með þessum hætti, sölu slíkra skuldabréfa, hefur gefist vel og þokað þeirri framkvæmd langt fram á við. Er nú sýnilegt, að hringveginum um landið verður lokið á næsta sumri, næsta vori sennilega.

En við Vestfirðingar teljum ekki lokið hringvegi um landið, ef sá hringur liggur á hak við Vestfjarðakjálkann, en hann er þó hluti af Íslandi, því má ekki gleyma. Við teljum, að hringvegurinn um landið sé ekki kominn að fullu, fyrr en lykkjan hefur verið lögð um byggðir Vestfjarða og þar sé kominn hringvegur í tengslum við hinu hringinn um meginhluta landsins. Það voru lengi vonir Vestfirðinga, að gerð þessara vega lyki samtímis, það sæi fyrir endann á vegagerð í Djúpvegi um líkt leyti og lokið væri hringveginum. En þær vonir eru nú nálega brostnar, jafnvel þó að fjár sé aflað til rösklegrar framkvæmdar á lokasprettinum. Samt sem áður er ekki útilokað, að hægt verði að taka þennan veg í notkun á næsta ári, síðsumars, ef fjár væri aflað. Að öðrum kosti kæmi til með að vanta a. m. k. 60 millj. kr. til þess að fullgera hringveginn um Vestfirði, Djúpveginn.

Það er vitanlega erfitt við að búa í öllum byggðarlögum að vera ekki í akvegasambandi. En þannig standa sakir með hluta Ögurhrepps og Reykjarfjarðarhrepps, að enn þá getur ekki heitið, að þeir séu í sambandi við akvegakerfi landsins, fyrr en endar Djúpvegar hafa náð saman. En meginþýðingu hefur þessi vegur að sjálfsögðu fyrir Ísafjarðarkaupstað annars vegar, sem þarf að vera í beinu akvegasambandi við sitt viðskiptasvæði, byggðirnar við Ísafjarðardjúp, og á sama hátt þurfa Djúpmenn að vera í beinu akvegasambandi við aðalviðskiptamiðstöð sina, Ísafjarðarkaupstað. Auk þess hefur þessi vegagerð mjög mikla almenna þýðingu þannig að tengja saman Vestfjarðahringveg og hringveginn um landið að öðru leyti.

Ég tel það ekki draumórakennt að hugsa sér þessa fjáröflunarleið, þegar um það er að ræða að ljúka merkum áfanga í vegagerð og þegar um það er einnig að ræða, að ekki er farið fram á hærri upphæð en svo, að hugsanlegt er, að brennandi áhugi Vestfirðinga fyrir þessu máli endist til þess að afla þessara tuga millj., sem þarna er farið fram á. Ef farið er fram á mörg hundruð millj. fjáröflun með slíkum hætti, fer ég að efast um, að það sé raunhæft, en ég tel þetta innan marka hins raunhæfa. Að vísu vona ég, að það verði margir fleiri en Vestfirðingar, sem hafi áhuga á því, að Djúpvegi ljúki og hringvegur myndist þannig um Vestfirði, og styðji þannig að málinu, a. m. k. út frá því, að þarna er um að ræða góða ávöxtun fjár, sem hefur vakið almennan áhuga landsmanna varðandi sölu bréfanna um brúagerð og vegagerð á Skeiðarársandi.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um málið. Frv. er að efni til byggt upp á nákvæmlega sama hátt og lög um happdrættislán vegna vegagerðar og brúagerðar á Skeiðarársandi og gefur sömu möguleika þeim, sem fjármunum verja til að kaupa þessi bréf. Og það er verið að leysa lokaáfanga í merkum þætti samgöngumála Vestfirðinga. Fyrst og fremst vænti ég þess, að áhugi Vestfirðinga segi til sín um það að afla fjár með þessum hætti, svo að hinn langþráði draumur þeirra um Djúpveg nái fram að ganga, jafnvel á næsta ári.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.