02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4065 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

Almennar stjórnmálaumræður

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það ríkir hættuástand í íslensku efnahagslífi. Efnahagsveðramótin fram undan eru svo skörp og vandamálin, sem þeim fylgja, svo alvarleg, að varla er of fast að orði kveðið, þótt ástandið fram undan sé nefnt hættuástand. — Síðasti hv. ræðumaður vitnaði til þessara orða. Nú kunna einhverjir áheyrenda minna að hugsa sem svo, að hér tali uppvægir stjórnarandstæðingar, sem hafi í frammí hæpnustu fullyrðingar. Því fer víðs fjarri. Þessi lýsing á ástandinu er ekki samsett af þeim, sem hér tala. Þessa lýsingu á ástandinu gefur fremsti sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, í skýrslu um efnahagshorfur á þessu ári, og er sú skýrsla dagsett fyrir rúmum mánuði, hinn 29. mars s.l. Hagrannsóknastjóri talar þar um knýjandi nauðsyn samræmdra ráðstafana í efnahagsmálum og segir, að það hættuástand, sem hefur skapast í efnahagsmálum, kalli á tafarlausar aðgerðir, sem þoli enga bið.

Það ríkir hættuástand í íslensku fjármála- og atvinnulífi. Hvers vegna? Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum á miðju ári 1971, lýsti hún því yfir eftir úttekt á þjóðarbúinu, að tök væru á að auka kaupmátt launa um 20%, stytta vinnuviku, lengja orlof, flýta greiðslum á tryggingabótum um hundrað millj. og stórauka öll umsvif á öllum sviðum opinherra framkvæmda og þjónustu. Þannig var ástandið gott í þjóðarbúinu að dómi þeirra, sem við stjórnartaumum tóku í júlí 1971, eftir að þeir höfðu gert á því úttekt. Nú, tæpum þremur árum síðar, ríkir hættuástand í íslensku efnahagslífi, og enn er spurt: Hvers vegna? Er hættuástandið illu árferði um að kenna? Það er óvefengjanleg staðreynd, að á næstliðnum þremur árum hafa Íslendingar búið við meiri árgæsku til lands og sjávar en nokkur dæmi eru til um fyrr eða síðar. Verðlag á útflutningsvörum okkar hefur aldrei verið hagstæðara. Nægir í því sambandi að benda á, að verðmæti hraðfrystra sjávarafurða jókst úr 5208 millj. kr. árið 1970 í 10292 millj. kr. árið 1973 eða um 97%. Verðmæti útfluttra loðnuafurða var um 580 millj. kr. 1971, en í ár er gert ráð fyrir, að verðmæti útfluttra loðnuafurða nemi um 5000 millj. og hefur því hækkað um 800–900%. Þannig mætti lengi telja, og allt ber árgæskunni vitni. Vegna árferðis ætti allt hættuástand í íslensku efnahagslífi að vera sem fjarlægast. Hér berast því hönd að öðru segli. Það ríkir hættuástand í íslensku efnahagslífi vegna þess, að hér hefur ríkt ömurlegasta stjórnleysi á öllum sviðum. Efnahagsmálin eru í hættulegum ógöngum vegna þess og þess eins, að ríkisstj. hefur með öllu reynst ófær um að stjórna þeim, og kemur í einn stað niður, þótt við höfum alla hennar stjórnartíð búið við besta árferði, sem sögur fara af. Fyrri vinstri stjórnin gafst upp í árslok 1958 með þeim ósköpum, sem flestum eru í fersku minni. Það ótrúlega hefur skeð, að hin síðustu tæp 3 árin hefur setið að völdum á Íslandi vinstri stjórn, sem jafnvel gerir hana góða.

Mér er ekkert umhendis að játa, að ég hef litið svo til, að hæstv. forsrh. sé vandaður og samviskusamur maður. Fyrir því hefur mér löngum ofboðið, hversu mjög hann hefur látið reka á reiðanum. Þó tekur steininn úr, þegar hæstv. forsrh. er hættur að sjá sóma sinn. Honum ber siðferðileg skylda til að biðjast þegar í stað lausnar fyrir sig og ráðuneyti sítt, þar sem stjórn hans hefur ekki lengur afl til þess í þingi að ná málum fram. Um þetta liggja fyrir alveg skýlausar yfirlýsingar af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Form. SF, hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, lýsti því yfir í sjónvarpi í fyrrakvöld, að hann teldi slíka afstöðu stjórnarandstöðunnar eðlilega. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson lýsti því enn fremur yfir í sama sjónvarpsviðtali, að hann teldi hæstv. ríkisstjórn drýgja stærsta glæpinn, ef hún sæti áfram, eftir að séð er, að hún kemur ekki málum sínum fram. Hann getur einnig úr flokki talað, þar sem hann og hans flokkur ber höfuðábyrgð á því, að þessi hæstv. ríkisstj. var upphaflega mynduð. Það færi sannarlega vel á því, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson veitti ríkisstj. nábjargirnar. Hver veit nema hann geri það? Og þá er ekki líklegt, að hann bíði með það fram í sláturtíð.

Stjórnarandstaðan hefur til þess afl í Nd. Alþ. að stöðva framgang mála hæstv. ríkisstj., og stjórnarandstaðan mun svo gera. Ég þykist vita, að hátt muni láta í stjórnarsinnum um ábyrgðarlausa afstöðu stjórnarandstöðunnar. En mesta ábyrgðarleysi, sem stjórnarandstaðan getur sýnt, er að lengja líf þessarar ríkisstj., þótt ekki væri nema nm einn einasta dag. Það er gjörsamlega þýðingarlaust og ábyrgðarlaust að fá hæstv. ríkisstj. nokkur vopn í hendur til þess að berjast við vandann. Hún hefur ekkert lag á að beita þeim vopnum, hún hefur ekkert afl til þess að beita þeim.

Það hefur verið fróðlegt í meira lagi að fylgjast með ástandinu á stjórnheimilinu að undanförnu. Þar hafa óheilindi Alþb: manna greinilega ekki riðið við einteyming. Meðan hæstv. forsrh. klúkir öðrum megin á klakknum og Samtökin ofan í milli, leika Alþb.-ráðh. listir sínar hinum megin, svo að oftsinnis hefur við borð legið, að allt snaraðist undir kvið.

Skemmst er að minnast aðfara Alþb.-manna í landhelgismálinu. Í því frömdu þeir trúnaðarbrot sem ekkert væri, birtu innihald samningsdraganna við Breta og lýstu þau nauðung og að engu hafandi. Þegar hæstv. forsrh. var skorinn með þeim hætti, sást honum bregða í fyrsta og eina skiptið.

Fyrir skemmstu lýsti hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson því yfir, að hæstv. forsrh. hefði heimild allra ríkisstjórnarflokkanna til þingrofs og kosninga á hausti komanda. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir á hinu háa Alþ., að til þess hafi hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson, ekkert umboð haft. Form. SF, hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, lýsti því yfir, að hæstv. ráðh., Magnús Kjartansson, færi með ósannindi. Það hallast því ekki á um óheilindi og ósannindi hjá hæstv. ráðh. Magnúsi Kjartanssyni. Yfirlýsingar þess hæstv. ráðh. um kosningar er ekkert annað en mannalæti. Enginn er hræddari við dóm þjóðarinnar en hann.

Af hæstv. sjútvrh. er það að segja, að hann lætur nú sem hann hafi fundið upp skuttogarana. En nú þegar hann verður rekinn í land, þá er poki hans troðinn og skekinn með sviknum loforðum, og yfir vofir algjör rekstrarstöðvun útvegsins.

Það hættuástand, sem nú hefur skapast í efnahagsmálum, kallar hins vegar á tafarlausar aðgerðir, — aðgerðir, sem ekki þola bið, segir fremsti efnahagssérfræðingur ríkisstj. Þjóðarútgjöldin stefna langt fram úr framleiðslugetu á þessu ári, og aukning þjóðartekna er áætluð 2% eingöngu, en var 10.5% 1970 og 12.5% 1971. Viðskiptahallinn við útlönd sýnist munu nema að óbreyttu yfir 8000 millj. kr. árinu, en fyrstu 3 mánuði ársins nam hann 2400 millj. kr. Hækkun framfærsluvísitölu 1. maí nemur 17%, og hækkun kaupgjaldsvísitölu 1. júní mun nema allt að 15%. Launataxtar virðast munu hækka um 60% á árinu. Rekstrargrundvöllur allra atvinnuvega okkar er brostinn. Rekstrarstöðvun með ógnþrungnum afleiðingum blasir við. Þegar svona er ástatt á þessari stundu, stendur hæstv. iðnrh. upp í hásæti sínu, talar til þjóðarinnar og segir: Íslenska þjóðin lifir á hátindi velmegunar. Við eigum við engin vandamál að glíma nema smávegis velmegunarvandamál. Var einhver að tala um, að það væri ábyrgðarleysi af stjórnarandstöðunni að fá ekki slíkum mönnum ný vopn í hendur, svo að þeir geti haldið áfram að deila og drottna?

Hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn hafa þrástagast á því, að verðbólgan sé innflutt vegna erlendra verðhækkana. Hvað segja staðreyndirnar? Í riti Framkvæmdastofnunar ríkisins, Þjóðarbúskapurinn, sem gefið var út í des. s.l. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 35:

„Af rúmlega 28% heildarverðhækkunar vöru, þjónustu og húsnæðis á árinu 1973 öll erlend verðhækkun á innfluttum neysluvörum beint um 4%. Árið 1972 1–2%.“

Í till. ríkisstj. nú er gert ráð fyrir að ógilda samninga alþýðusamtakanna frá því í febr. s.l. Að vísu voru þeir samningar og aðrir, sem í kjölfarið fylgdu, hin hrapallegustu mistök, þar sem hinir lægst launuðu báru skarðari hlut frá borði en þeir, sem hærra eru launaðir. En hver á aðalheiðurinn af þeirri samningsgerð allri? Ríkisstj. beint og óbeint, — beint með því, að 3 af ráðh. hennar tóku þátt í sjálfri samningsgerðinni vikum saman, og óbeint með efnahagsóstjórn sinni.

Það er ljóst, að hin vandasömu verk til viðreisnar þarf að vinna strax, þótt eigi verði unnin af núv. hæstv. ríkisstj. Sjálfstfl. er reiðubúinn að leggja sitt af mörkum, og hann skorast ekki undan að axla þá ábyrgð, sem því fylgir. En Sjálfstfl. telur sjálfsagt og nauðsynlegt, að þjóðin fái sjálf hið allra fyrsta að kveða upp úrskurð sinn í þingkosningum.

Á hinn bóginn virðist ekki leika vafi á, að ráðstafanir verði að gera þegar í stað til að forða frá bráðum voða og jafnvel óbætanlegu tjóni. Til þess er Sjálfstfl. einnig albúinn, þegar núv. hæstv. ríkisstj. hefur sleppt þeim stjórnartaumum, sem hún ræður ekkert við, en fyrr ekki. Sjálfstfl. er ljóst, að það verður ekki tekið út með sitjandi sældinni að bægja hættuástandinu frá dyrum þjóðarinnar. Honum er ljóst, að það mun kosta mikið erfiði og ef til vill óvinsælar aðgerðir, en hann treystir dómgreind fólksins, að það sé reiðubúið að axla byrðar um hríð, þar til úr rætist, og háskanum er afstýrt. Lífsnauðsynlegt er að forða frá atvinnuleysi og enn fremur að þeim sé mest hlíft, sem örðugast eiga, hinum lægra launuðu, ungu fólki, sem er að hefja lífsbaráttuna, og hinum öldruðu, sem skilað hafa dagsverki sínu, og eins öllum þeim, sem minna mega sín.

Ömurlegasta skipbrot, sem nokkur ríkisstj. hefur beðið, blasir við allri þjóðinni. Það þarf að hreinsa til á strandstaðnum strax. Ef eitthvað reynist nýtilegt í brakinu, má athuga að nota það í nýjan farkost.