02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4106 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fannst ykkur ekki landhelgishetjunni okkar brugðið hér rétt áðan? Lúðvík Jósepsson hefur eytt tæplega hálfri ræðu sinni hér á Alþ. í almennum stjórnmálaumr. til þess að verja stórfelldar veiðar Austur-Þjóðverja í kanti íslenska landgrunnsins. Fannst ykkur ekki merkilegt að heyra, að sjútvrh. okkar Íslendinga skuli telja sjálfsagt, að við eigum að leyfa erlendri þjóð að skipta um mörg hundruð manna áhafnir á verksmiðjutogurum og verksmiðjuskipum hér á landi? Fannst ykkur ekki athyglisvert að heyra nú, þegar við höfum staðið í nokkur ár í harðri baráttu við að hrekja Breta og Þjóðverja burt héðan með fiskveiðar þeirra, bæði af landi og sjó, og svipta þá allri aðstöðu, að það komi þá í ljós, að sjútvrh. okkar telur sjálfsagt, að Austur-Þjóðverjar komi í staðinn og fái hér aðstöðu, sem með sama áframhaldi mundi jaðra við fiskveiðibækistöð, a.m.k. vera jafnmikils virði? Fannst ykkur það ekki einkennilegur hugsunarháttur hjá ráðh. íslenskra sjómanna, að hann skuli telja sjálfsagt, að íslenskir flugvellir og íslenskt land verði notað til þess að aðstoða austur-þýska veiðiflota við veiðar við strendur Kanada? Eru ekki sjómenn þar líka, og ætli þeir séu ekki fátækari, sjómennirnir á Nýfundnalandi, heldur en þeir, sem eru hér? En þeir, sem stunda rányrkjuna upp að ströndum Nýfundnalands, eiga hauk í horni hér uppi á Íslandi, þar sem er þessi heilagi sjútvrh. okkar. Þessi hugsunarháttur hans er siðleysi. Ég þekki engin dæmi þess, að íslenskur ráðh. hafi staðið upp á Alþ. eða notað ráðherraembætti sitt til þess að gegna hagsmunum erlendra aðila á slíkan hátt sem orðið hefur í þessu máli.

Það er ekki að ástæðulausu, að við höfum hér á Alþ. kallað Lúðvík Jósepsson sendiherra austurþýskra togara. Og það er ekki að ástæðulausu, að Gylfi Þ. Gíslason varpaði síðdegis í dag fram þeirri spurningu í þessum ræðustól, hvort Lúðvík Jósepsson ætlaði í næstu kosningum að bjóða sig fram á Austurlandi eða í Austur-Þýskalandi.

Það er enginn vafi á því, að það er rétt, að í öllum nágrannalöndum okkar, sem hafa lýðræðislegt þjóðskipulag og heiðarlegar ríkisstjórnir og heiðarlega pólitík, þar mundi ráðh. verða neyddur til þess að segja af sér eftir slíkt hneyksli. Það er búið að benda á bað. Svarið var reiðilestur Lúðvíks hér áðan.

Enda þótt Alþ. sé forn stofnun, er þingræðið ekki gamalt, heldur til komið hér á landi á síðustu öld. Um það eru fá og óljós ákvæði í stjórnarskránni, og hefur oft, þegar vandræði hafa risið með þjóðinni, orðið að treysta meir á viturlega túlkun ráðamanna. Þess vegna getur verið rétt fyrir okkur að skoða fordæmi, þegar ádeilur ógna sjálfu stjórnarfari og afkomu okkar, eins og nú gerist, og reyna að læra af þeim fordæmum.

Fyrir fjórum áratugum, veturinn 1931–1932, var stjórnmálaástand um margt líkt því, sem nú er. Framsfl. hafði þá einn meiri hl. á Alþ., og Tryggvi Þórhallsson myndaði stjórn. Heimskreppan var þá skollin á og þrengdi mjög að efnahag landsmanna, en innanlands voru heiftarlegar deilur um kjördæmamál. Alþfl. og Sjálfstfl. voru þá stjórnarandstöðu eins og nú og höfðu stöðvunarvald í Ed. Þegar stjórnin fékkst ekki til viðunandi lausnar á kjördæmamálinu, stöðvaði stjórnarandstaðan fjárlagafrv. Landið mátti heita stjórnlaust á hættutímum, líkt og það hefur verið nú síðustu mánuði. Þá vildu sumir framsóknarmenn tefla í tvísýnu og átök. En Tryggvi Þórhallsson varð þeim vitrari maður. Hann sá, að þessi alvarlega stjórnarkreppa var þjóðinni háskaleg og við svo búið mátti ekki standa. Hann sagði því af sér og beitti sér fyrir því, að ný ríkisstj. yrði mynduð.

Síðan á jólaföstu í vetur hefur verið alvarleg og samfelld stjórnar- og stjórnlagakreppa í landi okkar. Efnahagsvandamál hrúgast upp, og verðbólgu er líkt við holskeflu. Varnarmálin eru eldheitt deilumál, er skiptir þjóðinni í tvær fylkingar, þar sem síst skyldi. Ríkisstj. hefur að vísu meiri hl. á Alþ., en stjórnarandstaðan hefur stöðvunarvald í Nd. Ríkisstj. getur ekki stjórnað landinu á viðunandi hátt. En sökum valdadrambs og valdagleði vill hún ekki fara frá. Leiðtogar stjórnarflokkanna sýna ekki þá visku, sem Tryggvi Þórhallsson hafði til að bera. Þeir hugsa of margir um flokkshag, en hann hugsaði um þjóðarhag. Þetta er mikil ógæfa, sem þegar hefur reynst þjóðinni dýr. Ef hér hefði verið sterk og starfhæf ríkisstj. síðustu 5 mánuði, að ekki sé litið lengra, hefði öflugt og raunhæft viðnám gegn verðbólgunni getað hafist í des. og engin holskefla vofað yfir í dag. Það má að nokkru leyti kenna stjórnkerfi okkar um, deildaskiptingu Alþingis og öðrum augljósum göllum. Og það er þjóðinni til vansæmdar, að fullkomin lýðveldisstjórnarskrá hefur ekki séð dagsins ljós enn þá, 30 árum eftir að lýðveldið var stofnað.

En reynslan sannar, að vitrir og ábyrgir stjórnendur eiga að geta siglt fram hjá skerjum stjórnarskrárinnar. Til þess hefur núv. ríkisstj. því miður ekki borið gæfu. því er skipbrot fram undan,ef ekki verður snögg stefnubreyting og betur stýrt á næstu dögum og vikum. Má segja þessa dagana, að blind sé feigrar stjórnar för. Upplausnin og stjórnleysið í þjóðmálum okkar er alls ekki kerfinu eða stjórnarandstöðunni að kenna fyrst og fremst. Þar kemur til skjalanna hið ótrúlega sundurlyndi stjórnarflokkanna innbyrðis, sem nú síðustu daga hefur keyrt svo um þverbak, að þess eru engin dæmi fyrr í sögu íslenskra stjórnmála. Þjóðin horfir höggdofa á það sjónarspil, er ráðh. bera lygar hver á annan, sitja á svikráðum hver við annan og andmæla hver öðrum endalaust opinberlega. Þjóðinni er farið að skiljast, þeim sem ekki hafa skilið það alla tíð, að þetta gengur ekki. Hún getur ekki sætt sig við slíka ríkisstj.

Stjarnan í þessu sjónarspili sundrungarinnar er án efa hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson, sem í hásæti sínu kemur nú í seinni tíð fram sem einhvers konar sambland af félaga Brésnév og guði almáttugum. Magnús hneykslaðist í ræðu sinni á stjórnarandstöðunni og sagði, að hún vildi fella allt fyrir stjórninni. Sannleikurinn er sá, að stjórnarandstaðan hefur ekki fellt eitt einasta frv. fyrir ríkisstj., þótt hún hafi knúið fram breyt. til bóta á sumum þeirra. Þvert á móti hafa stjórnarandstæðingar greitt fyrir mörgum góðum málum, þegar sjálft stjórnarliðið hefur verið í upplausn og hver höndin upp á móti annarri, eins og t.d. í skólamálunum. Þrátt fyrir þessa ábyrgu afstöðu í fjölda mála er það skylda stjórnarandstöðuflokks við þjóðina að veita ríkisstj. aðhald og andstöðu, og þan hefur Alþfl. gert að sínu leyti. Þegar augljóst er, að ríkisstj. ræður ekki við verkefni sitt, stjórnar ekki landinu og veldur stórfelldu tjóni með því að láta viðnámslausa verðbólgu flæða yfir, ber stjórnarandstæðingum siðferðileg skylda til að fella stjórnina með öllum tiltækum og löglegum ráðum, til þess að myndað verði hið fyrsta starfhæft rn., er veldur verkefnum sínum og þjóðin getur treyst, þar til kosningar geta farið fram. Að þessu virðist nú komið, hvert sem framhaldið kann að verða næstu sólarbringa.

Í dag gerðust þau tíðindi, að lagt var fram hér á Alþ. stjfrv. um ráðstafanir til að hamla gegn verðbólgunni. Sú skýring fylgir, að stjórnarflokkarnir séu óbundnir um einstök atriði málsins, en það þýðir í raun og veru, að málið er allt í lausu lofti. Slík yfirlýsing með efnahagsfrv. er algert einsdæmi og jafngildir yfirlýsingu um gjaldþrot stjórnarinnar. Með þetta mál verður því fyrst að fara eins og trausts- eða vantrauststill., og verður við fyrsta tækifæri að ganga úr skugga um, hvort til sé ríkisstj., sem geti staðið saman og haft forustu fyrir þjóðinni í baráttunni gegn verðbólgunni fram yfir kosningar.

Þegar franska byltingin var gerð á sínum tíma, var sagt, að borgarastéttin væri auðug og velmegandi, en ríkið væri á barmi gjaldþrots. Ástandið á Íslandi er í dag dálítið svipað þessu. Atvinna er yfirleitt mikil. Tekjur eru háar oft mjög háar. En þjóðarbúið sem heild á í alvarlegum vandræðum. Tekjur einstaklinga og annarra aðila eru á þann veg, að skammtað hefur verið meira en til er og framleiðsla þjóðarinnar stendur undir. Þetta veldur verðbólgu. Framkvæmdir eru miklar, og það er gott að vissu marki. En nú er ráðist í meira en mannafli, tæki og fé duga til. Þetta veldur verðbólgu. Einstaklingar framkvæma og kaupa eins mikið og þeir geta fengið að láni fyrir, og allar lánastofnanir eru spenntar til hins ítrasta. Þetta veldur verðbólgu. Gerðir hafa verið kjarasamningar, sem eru óhagstæðir fyrir láglaunafólk, en spilla launajafnvægi og íþyngja atvinnuvegum oft um of. Þetta veldur verðbólgu. Fjármálastjórn ríkisins hefur sleppt fram af sér beislinu, og ríkisútgjöld hafa nálega þrefaldast á tveim árum. Þetta veldur líka verðbólgu. Öll þessi heimabakaða verðbólga bætist svo við innflutta verðbólgu, sem við fáum í stórum skömmtum í verði á olíu og raunar öllu því, sem við kaupum inn. Á sama tíma eru afurðir okkar byrjaðar að lækka í verði.

Við höfum langa reynslu af verðbólgu og þolum hana bærilega að vissu marki. Hún hefur meira að segja gert mikinn hluta Íslendinga að litlum eða stórum verðbólguspekúlöntum, svo að við getum varla verið stolt af því. En 30–50% verðbólga, eins og nú er um að ræða, er geigvænleg hætta fyrir okkur öll. Hún getur leitt til þess á nokkrum vikum, að fjöldi fyrirtækja og jafnvel heilar framleiðslugreinar stöðvist, svo að atvinnuleysi breiðist óðfluga út. Þess vegna lifum við nú á hættutímum, þótt velmegunarmerkin blasi hvarvetna við okkur, og þess vegna megum við í rauninni engan tíma missa í bræðravíg innan bráðfeigrar ríkisstj. eða annað pólitískt þras.

Það má segja, að hæstv. forsrh. hafi í dag lagt spilin á borðið með því að leggja fram frv. um viðnám gegn verðbólgunni. Þetta á að heita stjfrv., en er í raun réttri stjórnleysisfrv. Allir flokkar ríkisstj. hafa frjálsar hendur um öll atriði málsins. Þjóðin fær enn ekki að vita, hvað hver þeirra hefur við það að athuga, um hvað er deilt innan stjórnarinnar, nema hvað hæstv. ráðh. Magnús T. Ólafsson, sagði okkur í kvöld, að stjórnin væri ekki sammála um, hvernig haga hæri samráðum við verkalýðshreyfinguna. Þá vitum við það. Stjórn hinna vinnandi stétta getur sem sagt ekki einu sinni orðið sammála um að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna, hinar vinnandi stéttir. Við skulum vona, að fleira komi skjótlega fram, helst strax á morgun, svo að þessi mál skýrist.

Tvö verkefni blasa nú við. Fyrst verður að komast til botns í stjórnleysinu, ráða bót á því og tryggja þjóðinni starfhæfa ríkisstj. fyrir það tímabil fram til kosninga, sem að sjálfsögðu verða eins fljótt og hægt er með ábyrgu móti að efna til þeirra. Enginn virðist á þessari stundu hafa hugmynd um, hvernig á að greiða úr stjórnleysinu eða hvað geti tekið við, enda þótt margar og venjulega tilhæfulausar sögusagnir gangi um það mál. En þegar því er lokið, verður að snúast með festu og samheldni að vandanum og bjarga þjóðinni úr háska óðaverðbólgunnar og efna síðan til kosninga. Þetta eru mikil verkefni, sem verður að leysa á nokkrum næstu dögum. Ég vona, að Alþ. beri gæfu til þess að standast þessa prófraun og það með þeirri sæmd, að traust þjóðarinnar á þingi og þjóð verði endurvakið, og hún taki af fúsum vilja á sig þær fórnir, sem nú eru sýnilega fram undan fyrir alla landsmenn. — Góða nótt.