02.05.1974
Sameinað þing: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fátt eitt hefur komið fram í þessum umr. af hendi stjórnarandstöðunnar, sem ástæða er til að svara. Hv. 5. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, taldi mestu máli skipta að hreyta skætingi í hæstv. menntmrh. í sambandi við landhelgismálið. En rökstuddi hann þann skæting sinn? Nei, hann lét það vera. Slík rök heyrði enginn af hans munni, enda mundi erfið leit að þeim rökum. Þannig féll sú árásin dauð og ómerk niður og höfundinum einum til minnkunar.

Þá var hv. þm. eitthvað skapillur og úrillur út af kosningasigri mínum á Vestfjörðum í síðustu kosningum. Það er kannske skiljanlegt, ef það hefði verið skammt liðið síðan, því að það lá við sjálft, að Vestfirðingar höfnuðu þessum hv. þm. algerlega, þó að hann slampaðist að lokum inn sem 5. þm. Vestf. Öll var ræða hans á svo lágu plani, að til einskis sóma var fyrir stærsta stjórnmálaflokk landsins.

Þessu næst aðeins örfá orð um ræðu hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasonar. Hann hafði í upphafi máls síns uppí átakanlega kveinstafi um illa og rangláta meðferð á sér, en kom litt að landsmálum, minnti þó á brotthlaup sitt úr SF, þegar hann við brottförina mótaði afstöðu sina til aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum með yfirlýsingu um, að hann aðhylltist helst til lausnar vandanum einhvers konar millifærsluleið. Það var snjöll úrlausn hjá prófessornum. Það er líka hið einasta framlag hans fyrr og síðar til lausnar á vanda efnahagsmála.

Það verður að játa, að mjög alvarlegt ástand hefur á skömmum tíma skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar, og sannleikur er sagna bestur um það rétt eins og annað. Hvað veldur? spyrja menn að sjálfsögðu. Þetta m.a. að mínu áliti: í árslok 1973 dundi yfir stórkostleg hækkun olíuverðs á heimsmarkaði, en fátt segir fljótar til sin eða með meiri þunga í öllum atvinnurekstri Íslendinga en verðlag þessara vara. Þegar verkalýðsfélögin á s.l. hausti voru að undirbúa kröfugerð sina, var ástandið þannig utanlands og innan, að ekki þótti ástæða til svartsýni. En strax um seinustu áramót var augljóst orðið, að jafnvel án grunnkaupshækkana yrðu miklar verðhækkanir, bæði af erlendum og innlendum toga, óhjákvæmilegar strax á fyrri hluta ársins 1974. Þá hefði verið hyggilegt að spyrna strax við fótum, gera ráðstafanir til að draga úr innlendri eftirspurn og spennu og jafnframt og ekki síður að fara með fyllstu gát við kaupgjaldsákvarðanir, sem þá stóðu fyrir dyrum í allsherjarlaunauppgjöri. Hvorugt var gert. En nú er komið í ljós, að öldur verðbólgu og hraðvaxandi dýrtíðar, sem sjá mátti, að væru að rísa undir síðustu áramót, hafa orðið hærri og geisað hraðar en búist var við.

Og svo er það hin hlið málsins. Einnig þar hefur bjartsýni manna orðið fyrir nokkru áfalli. Fiskverð hafði farið síhækkandi árum saman, og auðvitað mátti búast við, að sú þróun tæki enda, fyrr eða síðar. En ekki virðist það hafa verið tekið með í reikninginn. Nú er komin fram fiskverðshækkun á okkar stærsta og besta fiskmarkaði í Bandaríkjunum, og enn meira er verðfallið á fiskmjölinu. En því miður lítur út fyrir, að hið svimháa olíuverð haldist a.m.k. fram eftir árinu, og enn er það, að allar aðrar rekstrarvörur fara einnig hríðhækkandi í verði. Við allt þetta hefur stórlega dregið úr getu framleiðsluatvinnuveganna til að rísa undir þeim miklu launahækkunum, sem orðið hafa, og er það hin alvarlegasta hlið málsins, að undirstöðuatvinnuvegir landsins eru nú reknir með miklu tapi, sem stefnir til stöðvunar, ef ekki er að gert í tíma.

Í rammasamningi ASÍ fólst nálega 20% meðalhækkun grunnlauna að viðbættri 3% hækkun í des. 1974 og enn 3% 1. júní 1975, hækkunin þannig alls á 15 mánuðum um það bil 27–28%. Með þessu var boginn spenntur til hins ítrasta, ef ekki ofspenntur, jafnvel þótt ekkert verðfall afurða hefði orðið. Auk þess var samið um vísitölukerfi óbreytt að kalla og skattkerfisbreytingu, sem óneitanlega var kjarabót fyrir hina lægra launuðu. Hækkun kaupgreiðsluvísitölu 1. mars var svo 7 stig. Þar með var kauphækkun frá áramótum orðin 27–28% og búvöruverðshækkun um 18%, þar af launaliður 27%. Munu flestir játa, að slíkt launastökk var óhóflegt. En þó tók steininn úr, þegar einstök stéttarfélög virtu þá skynsamlegu grundvallarstefnu Alþýðusambandsins, að láglaunafólkið skyldi fá mesta lagfæringu launa, algerlega að vettugi, hrifsuðu til sín með samningum eftir á miklu meiri kauphækkanir en rammasamningurinn nokkurn tíma gerði ráð fyrir, með þeim árangri, að ýmsir þeir, sem hæst voru launaðir fyrir, náðu til sín miklu meiri kauphækkun en þeir, sem fyrr sömdu og lægri launin höfðu. Þannig hefur launakerfi verkalýðssamtakanna raskast, orðið ranglátara en það var, í stað þess að ætlunin og hin yfirlýsta stefna var að gera það jafnara og réttlátara. Þetta ber mjög að harma.

Eftir þetta blinda launakapphlaup einstakra hálaunahópa, sem enn sér þó ekki fyrir endann á, er launahækkun frá áramótum í vissum tilfellum orðin 33–38% eða fast að 40%. Og nú hefur Hagstofa Íslands áætlað, að 1. júní muni framfærsluvísitala hækka um 17% og kaupgreiðsluvísitala a.m.k. um 13–15%, og yrði þá meðaltalslaunahækkun frá áramótum a.m.k. orðin um 35%. Hafi menn svo í huga á hinn bóginn, að á sama tíma hefur fiskverð lækkað um 6–7% og fiskmjöl stórum meira, þá blasir þessi mynd við varðandi atvinnulífið: Stórfelldur hallarekstur blasir við frystiiðnaðinum. Saltfisk- og skreiðarframleiðsla stendur nokkru betur, en stefnir þó til taps. Rekstur togaranna í ársbyrjun þrátt fyrir góð aflabrögð var næsta tæpur, en versnar þó mjög á seinni hluta ársins. Óhætt er að segja, að sjávarútvegurinn yfirleitt stendur frammi fyrir stórkostlegum rekstrarerfiðleikum, sem torvelt er að leysa í skyndi. Iðnaður, verslun og flestir þættir þjónustustarfsemi eiga í erfiðleikum og útflutningsiðnaðurinn má heita vonlaus við óbreytt ástand. Þetta er sannarlega ljót lýsing, og kynnu einhverjir að halda, að þetta væri svartagallsraus bölsýnismanns, og vildi ég helst óska, að svo væri. En því miður er þetta sannleikurinn og þó vafalaust ekki allur sannleikurinn.

Þá er auðvitað spurningin: Hvernig skal nú bregðast við vandanum? Um það eru menn því miður ekki á eitt sáttir fremur nú en fyrri daginn, en enginn neitar því samt, að róttækra og skjótra aðgerða sé þörf, því að vandinn vaxi enn stórkostlega, ef ekki finnist úrræði til að afstýra ófarnaði fyrir 1. júní n.k., þegar búast má við, að kaupgreiðsluvísitalan hækki í einu stökki um 13–15% í viðbót við það, sem þegar er orðið.

Eins og fram hefur komið í umr., hefur í dag verið lagt á borð þm. frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Frv. þetta er lagt fram af hæstv. forsrh. sem stjfrv., en fram er tekið, að stjórnarflokkarnir hafi óbundnar hendur um ýmis atriði frv. Fylgi allra ráðh. við frv. er þannig með fyrirvara, og það tel ég nauðsynlegt nú að taka fram, að hæstv. félmrh., Björn Jónsson, á ekki aðild að flutningi þess.

Valdboðsleið ríkisstj. inn á svið frjálsra kjarasamninga hefur ávallt verið illa séð, þó að slíkt hafi að vísu átt sér stað áður. En með þessu frv. er seilst öllu lengra inn á svið aðilanna á vinnumarkaðnum en nokkru sinni áður hefur verið gert í gjörvallri stjórnmálasögunni. Þá hefur jafnan verið reynt allnáið samráð við aðila vinnumarkaðarins, áður en slík lagafrv. væru lögð fram á Alþ. En nú hefur hvort tveggja gerst, að framlagðar brtt. samstarfsflokka forsrh. hafa ekki fengist teknar inn í frv., og það, sem öllu harðleiknara er, er þetta, að samráðum við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda hefur verið hafnað. Það telja SF mjög óskynsamleg vinnubrögð.

Vegna gerbreyttra aðstæðna, síðan samningar voru gerðir, er eðlilegt, að réttir aðilar, þ.e.a.s. launþegasamtök og atvinnurekendasamtök, endurskoði launakerfið upp á nýtt, og færi vel á því, að velviljuð ríkisstj. hefði þar hönd í bagga og nauðsynlega meðalgöngu. Hér er um svo flókin og viðkvæm mál að ræða, að litlar, ef nokkrar líkur eru til, að ríkisvaldið geti með nokkru móti fært hið margbrotna samningsbundna launakerfi til hófsamlegra horfs, án þess að úr skorðum fari og af hljótist meira eða minna ranglæti, sem ekki yrði þolað. Aðilar vinnumarkaðarins eru hins vegar þaulkunnugir öllum blæbrigðum þessa kerfis. Þess vegna bar að þrautreyna, hvað þeir sjálfir gætu náð samkomulagi um að leiðrétta, þegar svo mikið lægi við sem augljós stöðvun atvinnulífs og víðtækt atvinnuleysi. Með slíkum vinnubrögðum væri svo allt önnur aðstaða fyrir ríkisstj. til að grípa til hverra þeirra úrræða og ráðstafana sem hún teldi nauðsynlegar.

Ég hygg, að það sé ekki torskilið neinum í verkalýðshreyfingunni, að hæstv. félmrh., Björn Jónsson, sem jafnframt er forseti ASÍ, geti ekki gerst meðflm. frv., sem sprettir upp grundvallaratriðum nýgerðra kjarasamninga og það án þess að verkalýðshreyfingunni sjálfri væri áður gefið rækilegt tækifæri til að leysa vandann sjálf eða þá a.m.k. að láta í ljós, hvaða ráðstöfunum hún eftir atvikum gæti unað. Ef hann gerði það, væri auðveldur eftirleikurinn fyrir hvaða íhaldsstjórn sem væri að hafa frjálsan samningsrétt verkalýðshreyfingar að engu. Slíkt fordæmi vill Björn Jónsson ekki gefa. því er þetta atriði, þótt um vinnubrögð sé, þýðingarmeira en mörg efnisatriði frv., sem orkað geta þó tvímælis sum hver. Galla tel ég það t.d. á frv., að alls staðar leynast smugur varðandi viðnámsákvæði þess, nema hvað launafólkið áhrærir. Þannig er frv. að sumu leyti opið í báða enda. Og megingalli þess er sá að mínum dómi, að mjög er vafasamt, að ákvæði þess dugi til þess að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna, en færi svo, kæmi allt fyrir ekki.

Hitt skal fúslega játað, að mörg atriði frv. eru þess eðlis, að hvaða ríkisstj. sem væri og stæði frammi fyrir þeim vanda, sem nú blasir við, yrði að beita þeim mörgum hverjum og það án tafar og án nokkurrar linkindar. Skal ég og skýrt taka það fram, að SF eru fús til að taka á sig fulla ábyrgð að sínum hluta til lausnar vandamálunum, aðeins ef þannig er að málum staðið, að líklegt sé, að aðgerðirnar fái staðist og geti borið tilætlaðan árangur. Það er og von mín, að fljótt fáist úr því skorið, hvort frv. með eða án breytinga nýtur meirihlutafylgis á þingi eða ekki.

Reynist svo, að frv. verði fellt, er það skoðun mín, að stjórnin eigi að biðjast lausnar og verði að biðjast lausnar og það án tafar, eyða ekki dýrmætum tíma í aðgerðaleysi og ráðleysi. En hvað svo? Þingrof og kosningar segja sumir. En þótt allir frestir væru styttir til hins ítrasta, gætu kosningar samt ekki farið fram fyrr en í júnílok eða júlíbyrjun og starfhæf stjórn tæpast tekið á lausn vandamálanna fyrr en um allt að mánuði síðar. En þá væri ný flóðalda verðhækkana skollin yfir og málið allt orðið torleystara en það nú er, svo sem öllum er þegar orðið kunnugt. Þeir, sem hrópa: Kosningar strax — og þykjast hetjur, skjóta sér því undan ábyrgð og loka augum fyrir því, hversu bráðaðkallandi það er að fá aðgerðir í efnahagsmálum afgreiddar á Alþ. ekki síðar en fyrir næstu mánaðamót. Auðnist núv. stjórn ekki að leysa vanda efnahagsmálanna, verður því þegar í stað að sannprófa alla möguleika til stjórnarmyndunar og freista þess að koma fram a.m.k. bráðabirgðaaðgerðum í efnahagsmálum fyrir næstu mánaðamót. Takist það hins vegar ekki, hefur Alþ. brugðist skyldu sinni.

Annað stórmál er á dagskrá hjá þjóðinni um þessar mundir. Það er herstöðvamálið. Ég skal um það aðeins segja örfá orð. Við eigum nú í viðræðum við Bandaríki Norður-Ameríku um endurskoðun varnarsamningsins frá 1951. Við höfum lagt fram okkar fyrstu till. Þær eru til skoðunar hjá gagnaðila, og sjálfsagt getum við vænst þess, að gagntill. komi aftur. Þær tökum við að sjálfsögðu til skoðunar, þegar þær berast. Uppsögn samningsins virðist ekki eiga meirihlutafylgi að fagna á Alþingi Íslendinga, og því er það niðurstaða mín í þessu máli, að okkar besti kostur sé að reyna samningaleiðina til þrautar og freista þess þannig að treysta samstöðu okkar með Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku og tryggja jafnframt svo sem best má verða og kostur er öryggi lands og þjóðar.

Seinni part þessa mánaðar fara kosningar fram til sveitarstjórna víðs vegar um land. Í undirbúningi þessara kosninga hefur það tekist furðuviða, að SF og Alþfl. hafa tekið höndum saman um sameiginleg framboð. Ég segi: furðuviða, af því að skilyrðin eru erfið, þar sem annar flokkurinn er í stjórnaraðstöðu og hinn í stjórnarandstöðu. En það hefur tekist þrátt fyrir það. Þetta gerir okkur sigurviss í sameiningarmálinu. Sú sjálfsagða hugsun, að allir jafnaðarmenn á Íslandi eigi og skuli vera í einum flokki, hefur gripið um sig og yfirstigur alla örðugleika. Þessi sameining verður alger í næstu alþingiskosningum. SF voru umfram allt annað til þess stofnuð að koma sameiningu jafnaðarmanna, hvar sem þeir hefðu annars í flokki talist, í framkvæmd. Vinnið nú af alhug, einbeitni og þrótti að sigri sameiningarmanna um land allt. Þá verður farsæll tímamótasigur unninn í næstu alþingiskosningum. Ísland þarf sterkan, sameinaðan flokk jafnaðarmanna alveg eins og lýðræðislönd Vestur-Evrópu, og stjórnmálaástandið hér á landi nú sýnir einmitt betur en allt annað, að þjóðin þarf á umbótastefnu og þrótti mikils og sameinaðs jafnaðarmannaflokks að halda.

Herra forseti. Ég hef nálega eingöngu varið ræðutíma mínum að þessu sinni til að ræða vanda efnahagsmálanna. Úr þeim vanda, sem við blasir, geri ég síður en svo minna en aðrir, sem málið hafa rætt hér í kvöld. Ég tel mig hafa gefið rétta mynd af ástandinu, enda stuðst þar við niðurstöður efnahagssérfræðings ríkisstj. Ég legg hins vegar á það þyngri áherslu en margir aðrir, að engan tíma megi missa, svo að ekki fari enn þá verr. Kyndingu kosningaelda nú tel ég ganga glæpi næst, því að þá væri vandamálunum augljóslega ýtt til hliðar, þótt allri þjóðinni sé ljóst, að þau þola enga bið.

Ég þakka þeim, sem hlýddu, og bið öllum hlustendum nær og fjær góða nótt.