03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4119 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv., Auður Auðuns, hefur borið hér fram brtt. við 9. gr. frv., sem virðist miða að því að færa orðalag hennar í fyrra horf, þó með þeirri breytingu, að séu viðkomandi skólar lagðir niður, þá skuli styrkveitingar til stofnkostnaðar þessara skóla endurgreiðslukræfir. Till. hennar er í öllum höfuðatriðum að öðru leyti eins og tillgr. hljóðaði upphaflega, þannig að þar er talað um styrkveitingar í staðinn fyrir fjárveitingar og framlög, eins og nú er gert eftir þær breytingar, sem gerðar hafa verið.

Ég verð að segja eins og satt er, að ég skil eiginlega ekki, hvers vegna hv. þm. heldur svo stíft við þessa tillögugerð, eftir að atkvgr. hefur farið hér fram við 2. umr. og þessi till. verði samþ. með miklum meiri hl. atkv. Er ekki nokkuð ljóst, að það skipulag, að um styrkveitingar er að ræða, sé miklu óeðlilegra og í miklu meira ósamræmi við það, sem er í öðru skipulagi skólamála, heldur en það, sem frv. gerir ráð fyrir, eins og því hefur nú verið breytti Ef við hugsum okkur, að þetta ákvæði yrði einhvern tíma raunhæft, þannig að til slíkrar endurgreiðslu gæti hugsanlega komið, er þá ekki ljóst að það mundu vakna ýmsar spurningar og koma upp ýmis vandamál varðandi það, hvernig þessari endurgreiðslu skyldi háttað ? Ólíklegt er, að eignaraðilar að þessum skólabyggingum hefðu undir höndum fjármagn til að endurgreiða það, sem búið væri að festa í þessum skólabyggingum, öðruvísi en þær væru þá fyrst seldar á frjálsum markaði, nema menn geri ráð fyrir því, að hinar öru verðbreytingar í þjóðfélaginu hafi gert fjárveitingar ríkisins svo smávaxnar í millitíðinni, að þarna verði um mjög óverulegar endurgreiðslur að ræða, og sýnist það svo sem ekki vera neitt eðlilegra heldur. Ég held, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að það eðlilega er, að um framlög af hálfu ríkisins sé að ræða og þar með um leið eignarhald ríkisins á því framlagi, sem þar hefur verið látið af hendi.

Ég vil að lokum undirstrika það, að setning þessarar löggjafar er mikil hagsbót fyrir viðkomandi skóla. Það er verið að gera, eins og ég sagði hér í umr. í gær, eðlisbreytingu á fjárhagslegri stöðu þessara skóla, og ég fæ þess vegna ekki skilið, hvers vegna menn geta ekki þakkað fyrir það og látið það duga, heldur gera kröfu til þess, að þessir skólar hafi alger forréttindi umfram alla aðra skóla í landinu, þeir fái framlög til stofnkostnaðar sem styrki, en ekki sem allir aðrir aðilar í landinu, sem verði að lúta því, að það sé um að ræða framlag ríkisins og þar af leiðandi að ríkið haldi sinni eignaraðild af viðkomandi framlagi. Ef þetta væri samþykkt eins og hv. þm. óskar eftir, væri verið að skapa í fyrsta lagi óvenjuleg forréttindi og mjög hæpin fordæmi. því vil ég sérstaklega vara við.

Varðandi 10. gr., sem ekki er gerð nein brtt. við, vil ég aðeins taka það fram, vegna þess að það má vera, að það hafi ekki komið skýrt fram í umr. í gær, að í 10. gr., eins og hún nú hljóðar, er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi skólanefndir við Samvinnuskólann og Verslunarskólann, en tala nm. er ekki tiltekin, og þetta er gert með sérstöku tilliti til aðstæðna við þessa tvo skóla, að þeir geti haft hönd í bagga um það og komið með ábendingar um það, hvað þeir óska eftir, að n. séu fjölmennar, og hverjir ættu hugsanlega von í tilnefningu til þessara skólanefnda. Ég hef orðið var við, að uppi eru óskir um það frá þessum aðilum, til að mynda að það sé tryggt, að nemendaráð þessara skóla geti haft möguleika á að tilnefna fulltrúa, og þess vegna varð það að samkomulagi meðal þeirra, sem fluttu þessa till., að hafa þetta óbundið og slá því einu föstu, að einn fulltrúi væri skipaður af ráðh. án tilnefningar, það væri fulltrúi menntmrn., en þetta væri að öðru leyti óbundið. Þá var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að náð yrði samkomulagi milli viðkomandi skóla og menntmrn. um skipan n. að öðru leyti, áður en skipunin færi fram.