03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4120 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir Alþ. óbreytt eins og sú n. gekk frá því, sem undirbjó málið. En ljóst var í meðförum málsins í ríkisstj., að einstakir stjórnarflokkar höfðu aths. við tiltekin fyrirkomulagsatriði. Ég held, að ég hafi getið um þetta í framsöguræðu. En hvað um það, þau atriði, sem aths. voru gerðar við, þegar ákveðið var að flytja þetta frv. sem stjfrv., eru einmitt þau, sem nú hefur verið breytt að till. nm. í menntmn.

Meginefni þessa frv. hvað varðar verslunar skólana tvo, sem þegar starfa, Samvinnuskólann og Verslunarskólann, er, að nú er skipað með lögum fjárstuðningi af ríkisfé víð þessa skóla. Ríkið tekur að sér að greiða rekstrarkostnað þeirra að fullu, kostnað við heimavist að og stofnkostnað kennsluhúsnæðis, sem byggt verður hér eftir, einnig að 4/5. Þarna er leystur vandi þessara stofnana, sem hefur farið vaxandi hin síðari ár, og þær hafa átt undir högg að sækja á ári hverju um ríkisframlög til rekstrar síns til þessa. En með þessu fyrirkomulagi er í eitt skipti fyrir öll ákveðið, að rekstrarkostnaður skólanna greiðist að fullu af ríkisfé. Þarna er auðvitað um geysimikla réttarbót að ræða fyrir þessar skólastofnanir, og þá kemur að sjálfsögðu til álita, hver verður staða ríkisins gagnvart þeim, eftir að þarna er búið að skipa með lögum verulegri hlutdeild ríkisins í rekstri skólanna og einnig þátttöku í byggingarframkvæmdum við stækkun þeirra og frekari þróun. Miðað við það, sem annars staðar í skólakerfi gerist, t.d. þegar ríki og sveitarfélög byggja skóla í sameiningu, þá verð ég að telja eðlilegast, að sá hluti, sem ríkið kostar af byggingum, verði ríkiseign. Ég tel það eðlilegra en hér sé um styrkveitingu að ræða, sem sé endurkræf í reiðufé, komi til þess, að byggingarnar séu teknar til annarra þarfa en þeim eru ætlaðar, þegar þær eru reistar.

Varðandi hitt atriðið, skólanefndina, þá er hið breytta ákvæði þannig, að ráðh. skuli skipa skólanefndir og einn fulltrúa í hvora án tilnefningar, en hina nm., sem ekki er tiltekið tal á, skal ráðh. skipa samkv. tilnefningu eignaraðila. Þetta get ég ekki séð, að sé óaðgengileg skipan fyrir eignaraðila þessara skóla. Þeim er frjálst að tilnefna alla fulltrúa í skólanefndum nema einn, þeir ráða tölu þessara fulltrúa, og að sjálfsögðu mun ráðh. skipa þá, sem tilnefndir eru að eignaraðilunum, og enga aðra. En spurning hv. 6. þm. Reykv. til mín skildist mér, að væri sú, hvort það yrði látið kyrrt liggja, ef skólanefndir yrðu skipaðar af eignaraðilum eins og hingað til, en ákvæði 10. gr., ef að lögum verður, að engu haft. Ég get ekki svarað fyrir aðra, en ég verð að segja fyrir mig, að ég mundi ekki láta slíkt kyrrt liggja.