03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel mig ekki geta látið ómótmælt þeirri skoðun, sem mér fannst koma fram í orðum hv. 6. þm. Reykv., að í meðförum þessa máls hafi þeim skólastofnunum, sem um er að ræða, verði sýnd óbilgirni. Hér er um það að ræða að leggja til þessara skóla fjárhæðir, sem geta numið 65–70 millj. kr. miðað við kostnað á yfirstandandi skólaári, eingöngu til rekstrar skólanna, þar að auki hluta af byggingarframkvæmdum þeim, sem til kann að koma. Ég fæ ekki séð, að það sé stórkostleg óbilgirni, að ríkið eignist einn fulltrúa í skólanefnd þeirra stofnana, sem það leggur til allt rekstrarfé og 4/5 af stofnkostnaði, og skipi skólanefndir þeirra. Ég sé ekki, að þetta skerði innra sjálfstæði skólanna sem skólastofnana, því að eignaraðilarnir velja áfram alla skólanefndarmenn nema þennan eina, og það eru skólanefndirnar, sem marka kennslustefnu og starfsstefnu þessara stofnana ásamt skólastjóra og kennurum.

Ég fæ ekki viðurkennt það, að sjálfstæði þeirra manna, sem valdir eru í skólanefndirnar af eignaraðilunum, allir nema einn, fari forgörðum við það eitt, að þeir fái skipunarbréf frá ráðherra, en ekki eignaraðilum.