03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4131 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

291. mál, almannatryggingar

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Við getum sjálfsagt öll verið sammála um það, að hér er verið að stiga spor í þeim áfanga að efla almannatryggingar á Íslandi. Jafnan hafa allir flokkar lýst sig því fylgjandi að taka það í áföngum, en jafnan kemur þá upp, hvað hver áfangi kostar, og oft verða menn að staðnæmast við styttra skref en hugur stefnir til að taka hverju sinni. Ég get tekið undir orð allra ræðumanna um það, að þetta frv. er spor fram á við, en vil þó leyfa mér að gera athugasemdir við vissar gr. þess.

Ég sé að strax í 3. gr. hafa nm. fundið, að viðmiðunartalan, sem er í frv., 30 þús., er orðin óraunhæf. Þeir leggja til, að það verði rúmlega fimmtungs hækkun. Þetta leiðir auðvitað hugann að því, hvort það sé raunhæft að hafa hér fasta krónutölu öðruvísi en um leið að binda hana einhverju öðru viðmiðunarefni, vegna þess að ef verðþróun heldur áfram svo ört sem raun ber vitni um s.l. 3 ár, þá verða þessar tölur strax ónothæfar raunverulega, gjörsamlega ónot,hæfar.

Það er ekkert lítið atriði fyrir heilbrigði aldraðs fólks, — ég vil undirstrika það alveg sérstaklega og bið dm. að athuga það, að það er ekkert lítið atriði fyrir heilbrigði þessa fólks, að það geti haft einhverja vinnu og skapað sér einhverjar tekjur án þess að missa meginið af því til baka. Ég hugsa, að það sé ekki síður heilsubótaratriði en margt annað, og löggjöfin á ekki að draga úr því umfram brýnustu nauðsyn. Þess vegna varpa ég fram þeirri hugmynd til n. og nm., hvort möguleiki sé á því að hafa þessa tölu bundna einhverri annarri verðlagshreyfingu í landinu, eins og svo margt annað er gert. Það getur vel verið, að það sé erfitt í framkvæmd, en ég varpa nú þessu fram, bæði þar sem í þessari d. eru tveir hv. þm., sem hafa unnið mikið í þessu máli, Geir Gunnarsson, hv. 10. landsk., og Oddur Ólafsson, hv. 3. þm. Reykn., og þessir menn eru gagnvel kunnugir þessu máli og gætu e.t.v. upplýst okkur aðra hv. dm. nánar um möguleika í þessu sambandi.

Svo er það 4, gr., sem brýtur blað í framkvæmd í sambandi við barnalífeyri, sem ég felli mig ekki við, eins og hún er. Ég hefði viljað fá það nákvæmlega fram, hvernig barneign skiptist á aldursskeið. Fyrir 3 eða 4 árum fékk ég um þetta yfirlit, og ef ég man rétt, þá var langstærsti hópurinn þannig, að fyrsta barnið kom innan 19 ára, ef ég man það rétt, — ég fullyrði a.m.k. innan tvítugs, — og þegar giftingaraldurinn er orðinn lágur og tekjur þessa fólks eru lágar og þetta er í mörgum tilfellum skólafólk, þá vil ég, að það sé haft opið, eins og segir í seinni hluta gr., að þetta fólk eigi kost á því að sækja um lífeyri með fyrsta barni sínu, ef aðstæður þess eru þannig. Hvaða sanngirni er í því að tala um, að þetta hafi ekki í sig og ráðstafa stóru fjármagni á öðrum sviðum — eða reyna það — til þessa fólks og gefa því ekki möguleika, ef aðstæður eru þannig, að fá hjálp með fyrsta barni. Hér er talað um, að það þurfi fimm börn til eða fleiri og umsókn, þá bundið við ákveðna krónutölu. Ég felli mig alls ekki við svona afturför. Ég kalla þetta hreina afturför í frv., sem annars er skref í áttina að betri almannatryggingum. Þetta er nú einu sinni staðreyndin, að fólk eignast börn ungt í dag, það er orðið gjörbreytt frá því, sem var, og ég held að við eigum ekki að þrengja löggjöfina svo, að við lokum fyrir möguleika þessa fólks að fá styrk með börnunum, þó að menn sameinist um það, þegar efnahagur er góður og aldursskeið er hærra, að greiða ekki með fyrsta barni. Það má deila um það, hvort framlag með barni sé heppilegra í skattakerfinu eða ekki. Sjálfsagt getur komið að því, að slíkt fyrirkomulag eigi sér stað, og þá er það allt í lagi. En á meðan svo er ekki, tel ég, að við eigum ekki að taka þetta skref, sem síðari málsgr. 4. gr. gefur til kynna að eigi að fara hér að lögfesta, — alls ekki. Ég vil beina því til hv. u., hvort hún teldi sér fært milli 2. og 3. umr. að hugleiða þessa ábendingu, svo að við stæðum þá öll að því, að 4. gr. færi óbreytt í gegn með þessari hugmynd. Þetta fólk verður auðvitað að sanna, að það, hafi þarfir fyrir styrkinn, þó að það eigi eitt barn. Þetta getur verið fólk úr borg og sveit, þetta getur verið skólafólk, þetta fólk getur verið í iðanámi, þetta fólk getur verið í sveit og við sjó og átt erfið kjör. Sumir þm. geta talað frá eigin reynslu. Ég get sagt frá minni reynslu sjálfur, að það var erfiðast að framfleyta sér með fyrstu tvö börnin, léttara, þegar hin komu. Ég hef því það sinni, að við eigum ekki fortakslaust að strika yfir þann möguleika að þurfa að hjálpa hjónum með eitt eða tvö börn, — alls ekki.

Síðan eru tannlækningarnar. Það er merkileg mótstaða hjá vissum aðilum í þjóðfélaginu að taka upp þetta skref. Sjálfsagt verður það ekki tekið nema í áföngum að auka tannlæknaþjónustu á vegum hins opinbera. En hér er gengið varlega af stað og kannske ekki hægt að gera annað. En þó tel ég, að það væri grundvöllur fyrir því að fara hér lengra. En þar sem mér hefur ekki tekist að fá nægilegar upplýsingar í því efni, er erfitt um till. og kannske ekki annað að gera en að sætta sig við þetta skref að sinni og endurskoða það svo eftir eitt eða tvö ár að fenginni nokkurri reynslu.

Síðan er 11. gr., og það ákvæði, sem þar í felst, er þess eðlis, að ég get ekki staðið að því, eins og atvik liggja til í dag. Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að óeðlilegt væri, að við værum að beita þessu við ríkjandi aðstæður á hv. Alþ., þegar í Nd. væri verið að fjalla um hið gagnstæða varðandi hækkun almannabóta og einnig mikla röskun á vísitölunni. Meðan við vitum ekki, hvernig því frv. reiðir af öllu saman, held ég, að við eigum ekki að fikta í þessu ákvæði. Þetta er viðkvæmara mál en svo.

Ef þess væri nokkur kostur, annaðhvort hjá þeim tveim hv. þm., sem hafa starfað mikið við undirbúning að nýrri löggjöf um almannatryggingar, vildi ég fá upplýsingar um þessi mál, sérstaklega varðandi aldursskiptingu hjóna með eitt og tvö börn, og einnig hitt, hvort hljómgrunnur væri fyrir hjá n. að hafa 4. gr. þess efnis að opna hana fyrir umsókn frá því fólki, sem á eitt barn, en býr þó við mjög þröngan efnahag, og hinda þetta ekki við fimm börn og fleiri, heldur greiða fjölskyldubætur með öllum börnum, sé um það sótt. Ég get fallist á, að fólk þurfi að sækja um þetta, en vil, að ekki sé bundið við þessa tölu, og einnig, að við ákvörðum tekjumark, sem verður að teljast skynsamlegt og nauðsynlegt eftir hverjum tíma, en ekki fasta krónutölu, sem rýrnar miðað við verðþróun undanfarinna ára.