03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3732)

291. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil svo sannarlega taka undir með hv. síðasta ræðumanni. Ég hef rætt þetta mál við a.m.k. tvo af þeim nm., sem sæti áttu í þessari n., og farið þess meira að segja sérstaklega á leit við þá, að þeir könnuðu alveg sérstaklega, hvort ekki væri hægt á einhvern hátt að koma til móts við þetta fólk. Þeir hafa bent á sömu atriðin og hv. síðasti ræðumaður minntist á í sambandi við þessa misnotkun. En ég er honum alveg sammála um, að þarna hlýtur að vera hægt að finna leið, einhvern meðalveg, og ég treysti því, að endurskoðunarnefnd almannatrygginganna taki þetta alvarlega til athugunar og það verði a.m.k. ekki mörg skref tekin önnur á undan því að jafna eitthvað aðstöðu þessa fólks.

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þær ræður, sem hér hafa verið haldnar. Við erum svo sammála, að það er ekki mikil ástæða til neinna deilna, enda er það ekki erindi mitt hingað að efna til þeirra. Ég vildi aðeins árétta skoðun mína í sambandi við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um 700 þús. kr. viðmiðunina. Ég er alveg á því, að um hana eigi að gilda nákvæmlega það sama og um aðrar tölur í þeim lögum, sem hér um gilda, almannatryggingalögunum, að þær tölur eigi að breytast í samræmi við verðlag og kaupgjald á hverjum tíma. Ég hef þess vegna ekki reiknað með þessari tölu sem einhverri fastri tölu þarna, heldur hlýtur hún að breytast á svipaðan hátt og aðrar tölur hafa breyst.

Ég vil líka taka það fram, ef ég hef gleymt því í framsögu í sambandi við lyfjakostnaðinn, að bæði tryggingaráðið og ráðuneytið viðurkenndu, að þarna yrði greinilega um aukakostnað að ræða og að það, sem segði í grg. um þetta mál, stæðist þess vegna ekki.

Sú leiðrétting, sem gerð er á tekjutryggingunni og hv. þm. var að fagna, þó að hún kosti eitthvað meira en þarna er ráð fyrir gert, þá er hún auðvitað slík réttarbót, að við eigum að líta fram hjá þeirri óvissu eða þeim hækkunum, sem gætu verið umfram það, sem þarna er gert ráð fyrir. Þetta verður að ganga fram sem réttlætismál. og við erum þess vegna um það öll sammála. Það hefði vel mátt segja, að fyrir hefði þurft að liggja enn nákvæmari upplýsingar, um hvað mikinn kostnaðarauka væri að ræða. Ég álít sem sagt, að meginatriðið með þessu frv. sé tilfærsla innan tryggingakerfisins, sem sé rétt, og um það erum við öll sammála einnig.

Út af brtt. hv. þm. Odds Ólafssonar vil ég aðeins taka það fram, sem ég gleymdi víst að gera í framsögu. Við fengum þær upplýsingar, að sú þingkjörna n., sem fjallar um þessi mál, hefur verið á þeirri skoðun, að allt þetta ætti áfram að vera sem heimild. Hún telur rétt að meta þessa þörf í hverju tilfelli. Í raun og veru er það þannig, að á þessu er einnig fyrirvari í till. hv. þm., þ.e.a.s. stofnunin á í raun og veru í þessari brtt. hans að meta þetta, þ.e.a.s. hún getur út af fyrir sig einnig stöðvað þetta, og má vel vera, að það sé rétt. Ég efast ekki um það, af því að hann er manna kunnugastur í þessum efnum, að þarna geti verið meira öryggi en áður var fyrir þetta fólk að fá þessa breytingu. En engu að síður töldum við í n. rétt vegna þeirra upplýsinga, sem við fengum, að hafa þetta áfram sem heimildarákvæði fyrir tryggingaráð.

Út af því, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði, get ég ekki gefið neinar upplýsingar hér, hvorki um þessa frjósemiprósentu né neitt annað því um líkt. En ég vil aðeins taka það fram varðandi þá breytingu, sem við gerðum á tölunum í 3. gr., að sú breyting var vitanlega gerð í beinu framhaldi af almennri hækkun tryggingabótanna 1. apríl. Það var bara bein afleiðing af því og var auðvitað sjálfsagt. Ég held, að hv. þm. misskilji örlítið gr. Ég er ekki með hana hér, ég tók hana ekki með mér, en ég held, að það sé alveg ljóst í frv., að þetta unga fólk, sem hann var að tala um og vissulega var réttmætt að þyrfti e.t.v. að fá hjálp með sínu fyrsta barni, á fullan möguleika á því, frv. gefur á því fullan möguleika, ef þetta fólk er með tekjur innan við 700 þús. Tekjumarkið 700 þús. segir þarna til um. Sé þetta unga fólk innan við það, fær það einnig greitt með sínu fyrsta barni. Það er fimm börn eða fleiri og 700 þús. kr. viðmiðunin, þannig að ég held, að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu fólki, því sem verður undir þessu marki, undir 700 þús. Ég bið þá, sem vita um betri skilning á þessu, að leiðrétta mig, ef það er ekki réttur skilningur hjá mér, að þetta fólk, ef það er undir þessu marki, fái fjölskyldubætur með fyrsta barni.