03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4136 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 48 frá 26. maí 1972, um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins. Hér er nánast um að ræða að festa í lögum það, sem samist hefur um á milli Fiskveiðasjóðs Íslands og Iðnlánasjóðs. Gert er ráð fyrir því, að þessi atvinnugrein fái stofnlán úr Iðnlánasjóði, og eru því þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, sjálfsagðar og eðlilegar. N. hefur komist að þessari niðurstöðu og mælir með samþykkt frv. óbreytts.

Ég vil aðeins, þar sem ég er staðinn upp, geta þess, að ég er jafnframt einn af flm. brtt., sem kemur fram á þskj. 783. N. fjallaði ekki um það, enda ekki til hennar vísað. Ég geri ráð fyrir því, að 1. flm. mæli fyrir þessari brtt., en hann er fjarverandi úr d. því vil ég geta þess, að þessi brtt. er flutt fyrst og fremst til þess að skera úr um það, að starfslið þessarar stofnunar eigi ekki að vera ríkisstarfsfólk, en um það virðist ríkja nokkur vafi. Ég var þátttakandi í þeirri n., sem undirbjó frv., og ég fyrir mitt leyti taldi engan vafa á þessu leika, taldi ljóst, að hér væri um sjálfstætt fyrirtæki að ræða með þátttöku ríkisvaldsins og samtaka þessarar atvinnugreinar. En við nánari athugun á þessu máli hafa skoðanir verið skiptar á milli ráðuneyta þar um, og teljum við, sem að þessari brtt. stöndum, nauðsynlegt að fá úr þessu skorið.

En ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Ég sé, að 1. flm. er mættur og mun að sjálfsögðu mæla fyrir þessari tillögu.