03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4149 í B-deild Alþingistíðinda. (3755)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir heldur leitt að vera lentur í rökræðum við hv. þm. Halldór Blöndal um vegamál og rafmagnsmál á Norðurlandi mér algjörlega að óvörum í umr. um allt annað mál, þ.e.a.s. Djúpveg. Ég átti sannarlega ekki von á þessu, ekki hvað síst vegna þess, að ég minntist ekki á mitt ágæta kjördæmi einu einasta orði í orðum mínum hér áðan. En svona er það nú, maður getur alltaf lent í þessu að sjálfsögðu, og þar sem ég á að sjálfsögðu nokkra sök á því að hafa kveikti hv. þm., þá er ég neyddur til að svara honum með örfáum setningum, þó að ég vilji að sjálfsögðu ekki tefja afgreiðslu þessa máls neitt frekar.

Ég held, að við hv. þm. Halldór Blöndal séum ekki á nokkurn hátt ósammála um, að það þurfi miklar vegaframkvæmdir að eiga sér stað á Norðurlandi á næstu árum og að næsta stórverkefnið í vegamálum hér á landi virðist liggja nokkuð beint við, þ.e.a.s. góður vegur á milli Reykjavíkur og Akureyrar, og til þessa stórverkefnis verður að sjálfsögðu að útvega nauðsynlegt fjármagn. Þá legg ég áherslu á, að það verði fjármagn, sem þjóðin leggur til hliðar á hverjum tíma. Ég neita því ekki, að nauðsynlegt kunni að vera að gera bráðabirgðaráðstafanir með lántöku, en legg hins vegar á það áherslu, að hvorki í því máli né öðru dugir að stinga höfðinu í sandinn eins og strúturinn og ætla sér að gera stóra hluti fyrir lánsfé, mjög dýrt lánsfé, sem verður að greiða að skömmum tíma liðnum og kemur þá niður á framkvæmdagetu Vegasjóðs. Ég tel það ekki réttu leiðina. Þó að það megi kannske gripa til hennar til að hjálpa til, má það síður en svo verða aðalaðferðin til fjármagnsmyndunar.

Um þær fullyrðingar hv. þm., að fjárveitingar til vegamála á Norðurlandi séu á þessu ári í algjöru lágmarki og að þær hafi tæpast verið lægri í annan tíma, þá verð ég að leyfa mér að benda á, að þetta er hin mesta fjarstæða. Ég held, að það væri tiltölulega auðvelt að sýna fram á það, að á þessu ári og hinu síðasta er fjármagn til vegaframkvæmda á Norðurlandi 200–300% meira, miðað við framkvæmdagetu, heldur en var á árunum 1970 og 1971, seinustu ár viðreisnarstjórnarinnar sálugu. Eins og ég segi, þá hef ég ekki tölur í höndunum til þess að sanna mitt mál, vegna þess að ég var óviðbúinn þessum umr., en legg nú áherslu á það, að fullyrðingar af þessu tagi stafa að sjálfsögðu af ókunnugleika hv. þm.