03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég skal ekki blanda mér í deilur þeirra hv. þm. Norðurlandskjördæmanna að þessu sinni. Ég er út af fyrir sig ekkert hrifinn af þeirri fjáröflunaraðferð, sem hér er höfð, enda þótt ég sé sama sinnis og hv. þm. Ragnar Arnalds um, að fara megi þessa leið, þegar um sérstöðu er að ræða. Það er nú komið á annan áratug síðan byrjað var á Djúpvegi. Fjárveitingar hafa ekki verið stórar, hafa verið smáar fram til síðustu ára, og margir hafa talað um þetta sem hálfgert eilífðarmál þarna vestra. Það er því ekki nema eðlilegt, að þessi sérstaða leiði til þess, að farin verði fjáröflunarleið, sem ekki er almennt farin. Hér er verið að leggja veg um byggðir, þar sem enginn vegur hefur verið áður, og hér er verið að leysa lokaáfanga í vegagerð um veglaus héruð, — áfanga, sem við vitum, að verður öllum íbúum til mikils ávinnings á öllum sviðum. Þessi vegur hefur meginþýðingu fyrir allar byggðir við Djúp og fyrir kauptún og kaupstaði á Vestfjörðum, — byggðir, sem hafa verið afskiptar um ýmsa hluti, en byggðir, þar sem búa menn, sem ekki hafa verið eftirbátar annarra um að afla tekna í sameiginlega sjóði landsmanna, en búið við skarðan hlut, mjög skarðan hlut í samgöngum.