03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4150 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

168. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um lífeyrissjóð sjómanna. Frv. þetta er samið af Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að beiðni félmrn, og í samráði við stjórn þess sjóðs, sem hinn nýi sjóður kemur í staðinn fyrir, en það er Lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum.

Í frv. þessu eru ýmis nýmæli, sem ekki er ástæða til að gera hér sérstaklega grein fyrir í framsögu, enda gerð skýr grein fyrir þeim í grg. frv. En n. taldi rétt, um leið og hún mælti með samþykkt frv., að gerð yrði breyt. á 2. gr. frv., sem fjallar um það, hverjir geti orðið sjóðfélagar.

Í 1. mgr. 2. gr. segir: „Sjóðfélagar eru allir þeir sjómenn og beitingamenn, sem lögskráðir farskip, sem notuð eru til farþegaflutninga eða vöruflutninga, og á íslensk varðskip“ Þetta er aðalregla frv.

Í öðru lagi segir í 2. mgr., að sjóðfélagar séu þeir sjómenn og beitingarmenn, sem lögskráðir eru á íslensk vélskip, 12 lesta eða stærri, er stunda veiðar með línu, netum, botnvörpu, dragnót, humarvörpu, þorskveiðar með hringnót, lúðuveiðar með línu, síld- og loðnuveiðar, svo og aðrar veiðar, ef í samningum á milli félaga sjómanna og útvegsmanna eru ákveðin lífeyrissjóðsréttindi frá 1. jan. 1970 eða síðar.“

Í 4. mgr. er svo aftur á móti til viðbótar þessu heimild til stjórnar sjóðsins að taka í tölu sjóðfélagamenn, sem lögskráðir eru á íslensk skip, en eiga ekki aðild að lífeyrissjóðnum samkv. 1, og 2. mgr., sem hér voru nefndar.

Hér er einkum átt við menn, sem eru á trillubátum, sem eru minni en 12 lestir, en í því tilviki er ekki um skyldu að ræða fyrir sjóðsstjórn að skrá slíka menn, sem sjóðfélaga, heldur aðeins heimild, ef eftir því er leitað. Það er því gengið út frá því, að þeir, sem kjósa, fái aðild að sjóðnum, þeir geti sótt um það til sjóðsstjórnarinnar og hún taki þá ákvörðun um, hvort menn geti gerst aðilar að sjóðnum.

Eftir nokkrar umr. í n. varð það einróma niðurstaða n., að óeðlilegt væri, að hér væri einungis um heimildarákvæði að ræða. Eðlilegast væri, ef um væri að ræða á annað borð lögskráða sjómenn, sem óskuðu eftir því að gerast aðilar að sjóðnum, að þeir ættu þá rétt til þess. Og með þessari breytingu, eins og fram kemur í nál. fjh: og viðskn., leggur n. til, að frv. verði samþ.

Ég vil aðeins láta þess getið að lokum, að n. taldi rétt að breyta því ákvæði frv. í 10. gr., sem segir, að iðgjöld sjóðfélaga skuli ákveðin í desembermánuði ár hvert fyrir fram fyrir eitt ár í senn. N, taldi rétt að miða hér við janúarmánuð ár hvert. En eftir að nefndarfundi lauk, kom á daginn, að þessu atriði hafði verið breytt í Ed. og þar er ekki miðað við neinn sérstakan mánuð, heldur er þetta allt haft óbundnara en áður hafði verið reiknað með og aðeins sagt, að iðgjöld vegna sjóðfélaga skuli reiknast af launum, eftir því sem kveðið er á um í kjarasamningum hlutaðeigandi stéttarfélaga á hverjum tíma. Með hliðsjón af því, að þessu hefur verið breytt, féll af sjálfu sér niður áður fyrirhuguð brtt. n., sem hafði verið lögð fram, en reyndist á misskilningi byggð.