03.05.1974
Neðri deild: 119. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4168 í B-deild Alþingistíðinda. (3765)

337. mál, jafnvægi í efnahagsmálum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Efnahagsástandið er svo alvarlegt, að áhrifamiklar aðgerðir af hálfu þings og stjórnar eru óhjákvæmilegar nú á næstunni. Árangur þeirra veltur ekki síður á framkvæmd en lagasetningu. Núv. stjórnarsamsteypa er með öllu óhæf til að leysa þennan vanda og verður að fara frá. Þegar svo er komið, mun Sjálfstfl. tilbúinn að takast á við efnahagsvandann og skorast ekki undan ábyrgð á ráðstöfunum, sem reynast nauðsynlegar.

Það var frá upphafi vega ljóst, að verulegur veikleiki var gagnvart efnahagsmálum með núv. ríkisstj. og stjórnarflokkum. Þessi veikleiki hefur hvað eftir annað komið fram. Í áramótagrein hæstv. forsrh. minntist hann á efnahagsvandann, sem fram undan væri, og taldi æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, að sterk stjórn tækist á við þann vanda. Öllum er ljóst, að núv. stjórn hvorki var né er sterk stjórn. En þessi veikleiki kemur nú m.a. fram í því, hvernig þetta frv. ber að. Í grg. er tekið fram, að einstakir ráðherrar hafi óbundnar hendur um einstök efnisatriði, og nú hefur hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, lýst því yfir fyrir hönd félmrh., að ráðh. eigi ekki aðild að flutningi frv.

Varðandi afstöðu ráðh. Alþb. er það að segja, að hún virðist nokkuð óljós. Þeir standa að flutningi frv., að vísu með fyrirvara. Í eldhúsumr. í gærkvöld minntist hæstv. iðnrh. á frv., en tók fram, að hæstv. sjútvrh., flokksbróðir hans, mundi gera því nánari skil. Menn biðu með óþreyju ræðu hæstv. sjútvrh., en honum vannst ekki tími til að skýra frá afstöðu sinni. Mikið af tíma hans fór í að ræða um austur-þýska togara og ýmis önnur vandamál, sem að honum steðja, en um afstöðu til frv. varð maður engu nær eftir ræðuna. Það hefur hins vegar komið fram, t.d. 1. maí í sjónvarpsviðtölum við suma forustumenn Alþb. í verkalýðsfélögum, að þeir lýstu sig andvíga þessu. T.d. lýsti einn áhrifamaður þar yfir, að hann segðist ekki trúa því, að núv. ríkisstj. færi að kippa vísitölunni úr sambandi og banna þau 14–15 stig, sem ættu að koma til framkvæmda 1. júní. Það er ljóst, að þetta mál er allt saman fullt af gátum, sem ekki hafa verið ráðnar enn.

Nú hefur það verið svo, síðan ríkisstj. tók til starfa, að sjálfstæðismenn og aðrir í stjórnarandstöðu hafa hvað eftir annað varað við þróun efnahagsmálanna, varað við efnahagsstefnu eða réttara sagt stefnuleysi ríkisstj. í þeim efnum. Nú þarf ekki lengur þessara vitna við. Það er ekki hægt að halda því fram, að þetta sé bara svartsýni og öfgar úr stjórnarandstöðu, heldur liggja nú fyrir yfirlýsingar og viðurkenningar á þessu í rauninni öllu saman frá hæstv. ríkisstj. sjálfri í grg. frv., sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ.

Það vekur athygli, að í innganginum um efnahagshorfur 1974, á bls. 9 í frv., er þess fyrst getið, að óvænt stórhækkun útflutningsverðlags og miklar lántökur erlendis á árinu 1973 hafi forðað um sinn frá halla á greiðslujöfnuði við útlönd. En síðan segir, að þegar á árið leið ást viðskiptakjarabatinn upp vegna víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, mikillar eftirspurnar, peningaþenslu innanlands og vaxandi verðhækkunar innflutnings. M.ö.o.: þessi bati, sem fékkst vegna stórhækkunar á útflutningsverðlagi og studdist þá við miklar lántökur til að forða greiðsluhalla, ást upp. — Nú er það athugandi þarna á bls. 9, að það virðist eins og nýsamþykkt þál. hér á Alþ. sé farin að hafa áhrif, því að þetta orð, „ást“, er skrifað með setu í grg., og er það athyglisvert, þar sem hæstv. menntmrh. hefur sérstaklega lýst stuðningi sínum við frv.

Síðan heldur áfram í grg., að lýst er ástandinu. Umskiptin í hagsveiflunni hafa orðið miklu sneggri og hastarlegri en gert var ráð fyrir, og síðan segir á bls. 10 í grg. frv., að þjóðarútgjöldin fari að öllu óbreyttu langt fram úr því, sem þjóðartekjur og eðlilegur innflutningur fjármagns leyfir. Við blasir háskaleg verðbólguþróun, sem stefnir atvinnuöryggi, lánstrausti þjóðarinnar erlendis og hagvexti í framtíðinni í hættu. Rækilegar og kirfilegar er í rauninni ekki unnt að undirstrika og staðfesta það, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram að undanförnu, í hvert óefni stefndi með efnahagsmál þjóðarinnar.

Þegar lengra kemur fram í grg., er þetta svo allt sundurliðað miklu nánar. Þar segir, að við blasi stórfelldur hallarekstur frystiiðnaðarins og gæti tapið numið 1100–1200 millj. á ársgrundvelli miðað við rekstrarskilyrði í apríl–maí. Varðandi þorskveiðarnar er gert ráð fyrir nokkur hundruð millj. kr. halla á rekstri þorskveiðibátaflotans. Það segir síðan um sjávarútveginn í heild, að hann standi frammí fyrir stórkostlegum rekstrarerfiðleikum.

Varðandi útflutningsiðnaðinn segir, að rekstrargrundvöllur hans sé í þann veginn að bresta. Síðan er haldið áfram með ýmis önnur mikilvæg atriði, svo sem viðskiptajöfnuðinn gagnvart útlöndum, og þar segir, að viðskiptahallinn á árinu 1974 stefni í 7800–8300 millj. kr., sem bera má saman við viðskiptahalla árið 1973, sem varð 2600 millj. Þessi væntanlegi halli er milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í spá við upphaf ársins. Það er auðvitað svo alvarlegt mál, að allir ábyrgir menn hljóta að staldra við, ef hallinn á innflutningi og útflutningi á árinu á að verða um 8 milljarðar — 8000 millj. — á árinu.

Síðan er rætt um ný erlend lán, sem eigi að að nokkru leyti að vega á móti þessum viðskiptahalla. Þrátt fyrir viðleitni í þá átt að taka sem mest af erlendum lánum er ekki gert ráð fyrir, að hægt sé að taka meira en 5500 millj. kr. lán erlend á árinu, m.ö.o. að greiðsluhallinn í heild verði verulegur og það svo, að gjaldeyrisforði landsins, eins og hann var í ársbyrjun, muni helmingast, og er það vafalaust nokkuð varlegt. Hætt er við, að eftir verði í árslok, ef svo fer sem nú horfir, töluvert minna en helmingur þess forða, sem til var í byrjun ársins.

En varðandi hinar erlendu lántökur segir enn fremur í grg., að heildarskuldir við útlönd muni væntanlega aukast um 5500 millj. Hér er um að ræða mestu skuldaaukningu, sem átt hefur sér stað á einu ári til þessa, og munu skuldir þjóðarbúsins til langs tíma vaxa á árinu um nálægt 27%. Síðan segir í þessari grg., sem samin er af hagrannsóknadeild og Seðlabanka Íslands, tveim hlutlausum aðilum, sem á hafa að skipa hlutlausum sérfræðingum og hinum færustu mönnum á þessu sviði, — síðan segir orðrétt:

„Allt ber þetta að sama brunni. Þjóðarútgjöldin stefna langt fram úr framleiðslugetu á þessu ári. Rekstrarhalli og fjárvöntun kemur fram hjá mörgum opinberum fyrirtækjum og verðhækkunartilefni hrannast upp í rekstri þeirra, sem vafalaust er ekki að fullu tekið tillit til í vísitöluspám hér að framan. Mikil fjárvöntun er hjá fjárfestingarlánasjóðum að óbreyttum útlánaáformum.

Í rauninni þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð né rekja nánar það, sem segir í grg, frv. Að nokkru leyti hefur hæstv. forsrh. gert það í framsöguræðu sinni, og að nokkru leyti hefur þetta komið fram í fjölmiðlum. En í sambandi við þetta útlit, sem vissulega er ákaflega dökkt, er rétt að minnast á þá málsvörn, sem stundum er höfð uppi og þá alveg sérstaklega af talsmönnum Alþb., og það er þetta, að íslenska þjóðin lifir við allsnægtir, Íslendingum hafi aldrei liðið betur, haft meira milli handanna, en kaupmáttur tekna sé meiri en nokkru sinni áður. En í sambandi við kaupmáttinn er rétt aðeins að minnast á það, sem þessir sérfróðu menn segja á bls. 12 í grg., orðrétt:

„Sú aukning heildarkaupmáttar hlýtur að teljast óraunhæf með öllu og fær ekki staðist til frambúðar. Forsenda varanlegra kjarabóta er stöðug aukning þjóðarframleiðslu og þjóðartekna. Verðbólguþróunin, sem fram undan er, teflir þessum forsendum batnandi lífskjara í tvísýnu.“

Hér komum við að ákaflega mikilvægu atriði. Það endurtekur sig sama sagan nú og í fyrri vinstri stjórninni, að þá þreyttust málsvarar Alþb. ekki á að halda því fram, að aldrei hefði almenningur haft betri kjör, haft meiri kaupmátt, lifað við meiri allsnægtir en í tíð þeirrar stjórnar. En menn verða að gera sér grein fyrir, að bæði þá og nú er um falskan kaupmátt að ræða. Það er kaupmáttur, sem að vísu er til aðeins í bili, vegna þess að hann byggist á stórfelldum hallarekstri og lántökum þjóðarinnar út á við. Slíkt getur auðvitað aldrei staðist nema stutta stund. Það er alveg eins og þegar einstaklingur lifir hátt á lánum langt umfram tekjur. Hann telst hafa góð lífskjör, meðan hann er að eyða þessu og sóa, en sú stund rennur upp, að allt hrynur þetta eins og spilaborg. Og hér sannast sem oftar það, sem í fjallræðunni segir um hyggna manninn, sem byggði hús sitt á bjargi, og hinn óhyggna, sem reisti það á sandi.

Og steypiregn kom ofan og lækir uxu og stormar beljuðu og buldu á því húsi, og það féll, því að það var byggt á sandi, og fall þess varð mikið.

Nú er þetta e.t.v. þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að hér hefur verið einstætt góðæri það tímabil, sem núv. ríkisstj. hefur verið við völd. Er sama, hvort litið er á árferðið og árgæsku innan lands eða verð á erlendum afurðum okkar, sem aldrei hefur verið jafnhátt og aldrei vaxið jafnört og einmitt á þessum tíma. En það hefur sannast hér sem oftar, að það þarf sterk bein til að þola góða daga, og hæstv. núv. ríkisstj. hefur sýnt það og nú sannað það sjálf með flutningi þessa frv. og grg. þess, að hún hefur ekki þolað þessa góðu daga, hún hefur því miður sýnt algert andvaraleysi í því að gera nauðsynlegar ráðstafanir, til þess að ekki færi allt úr skorðum.

Nú má spyrja um orsakir þessa ástands, þessarar gífurlegu verðbólgu, sem nú er orðin staðreynd. Stundum er því haldið fram, að orsakanna sé að leita erlendis, það séu hinar miklu verðhækkanir á erlendum varningi, í flestum löndum öðrum sé dýrtíð og verðbólga og verðhækkanir. Það er rétt, að erlendar vörur hafa mjög hækkað og mörg lönd glíma við þessi sömu vandamál. En þegar málið er skoðað, þá sést, að þetta er ekki nema lítill hluti verðbólguvandans. Það sést og sannast m.a. af því, að hér hefur verðbólgan eða dýrtíðin aukist þrisvar til fjórum sinnum meira en er í helstu viðskipta- og nágrannalöndum okkar, svo að notað sé orðalag stjórnarsáttmálans. En það var stefna stjórnarinnar að reyna að sjá svo um, að verðbólga yrði hér ekki meiri en í þessum löndum.

Önnur ástæða, sem stundum hefur verið færð fram, er sú, að efnahagsörðugleikarnir stafi af verulegu leyti af gosinu í Heimaey og þeim hörmungum, sem því fylgdu. Það leit svo út fyrst, eftir að gosið byrjaði í Vestmannaeyjum, að mjög mundi draga úr fiskframleiðslu eyjaskeggja og þess bátaflota, sem þar hefur verið gerður út. En reynslan varð önnur því að fyrir frábæran dugnað Vestmanneyinga tókst að afla á Vestmannaeyjabáta verulegs hluta þess afla, sem áður hafði fengist. Þó að Vestmannaeyjagosið hafi vissulega haft sín áhrif, er hér ekki að finna neina af meginorsökum efnahagsvandans.

Ég held, að það sé fljótlegt að finna, hvar vandinn er. Aðalorsökin er einfaldlega sú, að undir forustu þessarar ríkisstj. hefur þjóðin lifað um efni fram, þjóðarútgjöldin farið langt fram úr þjóðartekjum. Meðal annars, sem hér hefur valdið um, er, að öll grundvallarlögmál efnahagslífsins um jafnvægi hafi verið brotin. Það er lögmál, sem ekki má rjúfa, að þegar atvinnulífið blómgast vel og þarf á miklu vinnuafli að halda, má hið opinbera ekki keppa við atvinnuvegina, reyna að draga frá þeim vinnuaflið, heldur verður þá að sjálfsögðu að láta atvinnuvegina ganga fyrir. Þess vegna er það lögmál, að á slíkum tímum verður að reyna að fresta einhverju af þeim opinberu framkvæmdum, sem ella mundu gerðar og eru æskilegar og nauðsynlegar.

Í grg., sem sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samdi hér á s.l. vetri, eftir að hún hafði kannað rækilega þessi mál, — og hæstv. sjútvrh. og iðnrh. röktu úr þessu áliti það, sem þeir töldu, að kæmi þeim vel, — en m.a. bentu þessir sérfræðingar á, að það væri brýn nauðsyn að fresta einhverjum af opinberum framkvæmdum, og komust svo að orði, að það hlyti að mega finna einhverjar framkvæmdir í hinum opinbera rekstri, sem hægt væri að fresta. En ein af orsökum þessa mikla vanda, þessarar miklu bólgu, sem sumir kalla óðaverðbólgu, en er ekki aðeins óð, heldur bandóð nú um þessar mundir, er sú, að þetta lögmál hefur verið brotið. Þess vegna hafa atvinnuvegirnir og ríkisvaldið keppt um vinnuaflið með þeim afleiðingum, sem alltaf koma í ljós, þegar svo stendur á, að kaupgjaldið spennist upp, bæði með launaskriði og með því að menn fá aukagreiðslur eða tekst með samningum að fá meiri. kauphækkanir en atvinnurekstur og þjóðfélagið í heild gætu borið, eins og glögglega kom fram í ræðu hæstv, forsrh., að hafi verið nú að undanförnu.

Það er ákaflega sorglegt, það er dapurleg staðreynd, þegar athugaður er ferill þessarar ríkisstj. í efnahagsmálum, hversu henni hefur aldrei auðnast að móta sér neina stefnu í þeim málum. Ýmist hefur verið algert stjórn- og stefnu leysi eða um hreinar bráðabirgðaaðgerðir að ræða. Eins og kunnugt er, hafði viðreisnarstjórnin fengið lögfesta verðstöðvun haustið 1970, sem átti svo að falla úr gildi haustið 1971. Þá var núv. ríkisstj. komin til valda, en hún framlengdi þá verðstöðvun, vegna þess að hún taldi sig þurfa að hafa ráðrúm, frá því að hún kom til valda 14. júlí og fram undir áramót til þess að móta stefnuna. Þegar svo áramótin komu, hafði engin stefna verið mótuð. Þá er verðstöðvuninni að sumu leyti aflétt, að sumu leyti urðu breytingar þar á, m.a. að dregið var úr niðurgreiðslum. Síðan líður fyrra missiri þess árs, 1972. En um það leyti sem ríkisstj. hélt upp á ársafmæli sitt, gaf hún út brbl. til þess að reyna að stöðva verðbólguna, brbl. frá 14. júlí 1972, um ýmsar aðgerðir í efnahagsmálum. Skýrt var frá því, að þær væru ákveðnar til bráðabirgða, meðan stjórnin væri að hugsa sitt ráð og skapa varanlega efnahagsstefnu. Og þannig hefur þetta gengið æ síðan, aldrei nein föst tök, aldrei nein heilleg eða skynsamleg stefna.

Hins vegar bar að sjálfsögðu að líta á það sem ljósglætu í þessu myrkviði, að nú fyrir nokkru, eða í marsmánuði, tók hæstv. forsrh. sig til og lét undirbúa tillögur og ítarlegar grg. um þetta efni, og nú hefur árangurinn af því litið dagsins ljós í þessu frv. Það er í fyrsta sinn, sem er þó alvarleg viðleitni til þess að reyna að hemla eitthvað á móti verðbólgunni. Nú kemur það fram, að ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir, hækki framfærsluvísitalan — og gerði það um síðustu mánaðamót — um 17%. Hins vegar hækkar kaupgreiðsluvísitalan nokkru minna 1. júní, þó að hún byggist á þessum 17%, — hækkar nokkru minna vegna þess, að sum atriði, eins og t.d. hækkun söluskattsins um 4% nú nýlega, koma ekki inn í kaupgreiðsluvísitöluna og fleiri atriði, sem ég skal ekki rekja.

Nú er það einkennilegt, að þegar fyrri vinstri stjórnin fór frá, þá voru það 17 stig, sem urðu henni svona óþægileg. Það voru 17 stig þar, sem þáv. forsrh. sagði, að væru að skella yfir og þar með geigvænleg verðbólga, sem mundi verða óviðráðanleg, ef ekki yrði að gert. Þessu lýsti hann yfir á Alþ. í byrjun des. 1958. Nú er það að vísu öllu meira, það eru ekki 17 stig, heldur 17%.

Þegar fyrri vinstri stjórnin var lögst á sína banasæng og lærðir menn voru að þjónusta hana, komst einn áhrifamaður í ríkisstj. svo að orði, að því er sagt er: Er þá ekkert til nema gömlu íhaldsúrræðin? Vissulega rifjast þetta upp nú aftur. En það, sem átt er við með þessum gömlu „íhaldsúrræðum“, er auðvitað það, að vinstri stefnan, ef stefnu á að kalla, hafði beðið skipbrot, og með þessum íhaldsúrræðum var átt við skynsamlega fjármála- og efnahagsstefnu. Nú eru víðast hvar í löndum, þar sem menn vilja stefna að jafnvægi í efnahagsmálum, nokkur lögmál, sem eru í rauninni algild og alls staðar eru notuð, og þessi úrræði miða auðvitað fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir, að slíkt ástand geti skapast eins og nú er hér á landi.

Þegar menn nú tala um verðbólguna hér, er því haldið fram til varnar, m.a. í gærkvöld af sumum málsvörum ríkisstj., að hér hafi alltaf verið verðbólga, þessi sé ekkert verri en hver önnur, heldur sé hún, eins og hæstv. iðnrh. komst að orði, velmegunarvandi og framkvæmdagleði. Því er haldið fram, að hér hafi alltaf verið í rauninni meira og minna óviðráðanleg verðbólga. Þetta er ekki rétt. Íslendingar hafa sýnt það á stundum, að þeir hafa getað stöðvað verðbólguna og komið á jafnvægi í búskap sínum inn á við og út á við, og gleggsta dæmið um það er tímabilið, sem hófst snemma árs 1960 með hinum víðtæku aðgerðum viðreisnarstjórnarinnar og þáv. þingmeirihluta. Þá var tekið á málunum þannig, að allir meginþættir atvinnu- og efnahagslífsins voru skoðaðir, rannsakaðir og gerðir í þeim ákveðnar tillögur og aðgerðir. Þetta bar þann árangur, að í a.m.k. 3 ár: 1960, 1961 og 1962, var hér á jafnvægi í efnahagsmálum. Þá tókst að koma jöfnuði á viðskipti okkar við útlönd. Við fengum hagstæðan greiðslujöfnuð, fórum í fyrsta sinn um langan aldur að safna gjaldeyrisforða. Verslunin var gefin frjáls, og full atvinna var í landi. Allar hrakspár reyndust rangar hjá stjórnarandstæðingum þá um, að þessi stefna mundi leiða til atvinnuleysis. Ég nefni þetta hér m.a. vegna þess, að þegar þarf að ráða fram úr þeim vanda, sem nú er og að ýmsu leyti svipar til þess vanda, sem fyrri vinstri stjórnin skildi eftir sig, þá er vissulega nauðsynlegt að hafa í huga, hvernig hinar ýmsu aðgerðir frá 1960 reyndust. Ég skal ekki halda því fram, að þær hafi allar reynst vel, en í meginatriðum reyndust þær svo, að hér var sæmilegt jafnvægi á í efnahagsmálum í nokkur ár.

Það frv., sem hér hefur verið lagt fyrir, er allítarlega rakið í grg. frv., bæði hinum almennu aths. og aths. við einstakar gr., og hæstv. forsrh. hefur einnig rakið meginatriði þess í framsöguræðu sinni. Ég vil minnast á nokkur þessara atriða, og er þá fyrst að nefna 1. gr. frv., sem fjallar um verðstöðvun, eins og sumir kalla, en hæstv. forsrh. hefur af ásettu ráði ekki notað það orð, heldur verðhemlun, af þeirri einföldu ástæðu, að það er útilokað, að hægt sé að stöðva allar verðhækkanir nú á næstunni. Til þess liggja margar ástæður. Bæði er það, að verðhækkanir eru á erlendum vörum, nauðsynjavörum og hráefnum og því, sem atvinnuvegirnir þurfa á að halda, og verð innanlands verður auðvitað að hækka í samræmi við hækkun erlendis. Ýmsar aðrar ástæður geta þar komið til greina, þannig að hér er viðurkennt, að geti ekki orðið um algera verðstöðvun að ræða, en hins vegar hemlun, til þess að leyfa þær hækkanir, sem telja má óhjákvæmilegar.

Nú er að vísu þess að geta um 1. gr. frv., að í rauninni eru allar þær heimildir, sem hún hefur í sér fólgnar, fyrir hendi í gildandi lögum. Í rauninni eru allar vörur og öll þjónusta hér á landi háð verðlagseftirliti, annaðhvort hinum almennu lögum um verðlagsákvæði, sem heyra undir verðlagsnefnd, eða þá heyrir undir einstök rn., þannig að efnislega eru raunar allar þessar heimildir í gildandi lögum. En í sambandi við þessi verðlagsmál vil ég taka það fram, að það hefur komið fyrir áður, að beitt hafi verið slíkri verðstöðvun eða verðhemlun um tíma. En slíkt má eingöngu gera um stuttan tíma, meðan verið er að undirbúa varanlegri aðgerðir, vegna þess að slíkar ráðstafanir leiða alltaf til þess, ef þær standa nema stuttan tíma, að verða fjötur um fót atvinnurekstrinum og eðlilegri þróun hans. Hins vegar vil ég í þessu sambandi nefna það, og það er óhjákvæmilegt að gera, að núgildandi skipulag verðlagsmála og verðlagsákvarðanir er gersamlega úrelt, og flestar, ef ekki allar nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu afnumið slíkt. Þessi verðlagsákvæði eru ekki aðeins úrelt, heldur eru þessar reglur að ýmsu leyti skaðlegar. Það meginsjónarmið t.d. að miða álagningu vöru við ákveðna prósenttölu verður til þess og hefur oft orðið til þess sannanlega, að ekki hafa verið notuð eins og skyldi hin hagkvæmustu innkaup á réttum tímum erlendis. Þetta víta allir, sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum. Eitt af því, sem þarf áður en langt um líður, að taka til gagngerrar endurskoðunar, er allt þetta verðlagsskipulag, og ég held, að þar getum við bæði haft hliðsjón af okkar eigin reynslu og reynslu ýmissa annarra þjóða, sem hafa lagt inn á aðrar brautir til þess að reyna að hafa hemil á verðlagi. Þar er í stórum dráttum sú stefna yfirleitt í okkar nágrannalöndum, að verðlagning sé frjáls, það sé meginstefnan, en að ríkisvaldið hafi eftirlit, fylgist með og hafi heimild til þess að gripa í taumana, ef upplýsist, að þetta frelsi er misnotað. Þetta skipulag hefur, að ég ætla, reynst í öðrum löndum miklu betur en það skipulag, sem við eigum við að búa. Hins vegar má segja, að þetta sé framtíðarmál, og ég geri ráð fyrir því, að þegar nú þarf að gera bráðabirgðaráðstafanir til þess að hamla gegn verðbólgunni og því risastökki, sem kaupgreiðsluvísitalan mun taka 1. júní, sé verðstöðvun nú eins og áður eitt af því, sem kemur til greina, en ég vil undirstrika: aðeins um stuttan tíma.

Í 2. gr. frv. er fjallað um niðurgreiðslur, og þar er skýrt frá því, eins og stjórnarandstaðan henti á í umr. um fjárl., að í fjárl. vantaði um 600 millj. til þess að halda áfram þeim niðurgreiðslum, sem þá voru. Því var hins vegar haldið fram af stjórnarflokkunum, að það ætti að draga úr niðurgreiðslum, sem þýddi það, að ýmsar nauðsynjavörur mundu hækka. Ef þetta hefði verið framkvæmt, að minnka niðurgreiðslurnar sem þessu svaraði, hefði kaupgreiðsluvísitalan hækkað væntanlega um tvö stig. Nú er það athyglisvert, að í grg. þessa frv. segir, að úr þessu verði að bæta. Það á að halda niðurgreiðslum óbreyttum, og ríkissjóður á að verja þessum 600 millj., sem stjórnin taldi ekki ástæðu til að taka inn í fjárl. fyrir áramótin. Það verður að halda þessu áfram, því að annað kæmi harðast niður á hinum tekjulægri. Nú hafa stjórnarherrarnir uppgötvað, að sú lækkun á niðurgreiðslum, sem þeir höfðu ákveðið fyrir jól, komi harðast niður á hinum tekjulægri.

Nú er ætlunin samkv. 2. og 3. gr. frv. að auka niðurgreiðslur. Vissulega eru auknar niðurgreiðslur alltaf í sambandi við bráðabirgðaaðgerðir til að afstýra miklum efnahagsvanda eitt af því, sem kemur til greina. En vitanlega er það mjög varhugavert, sumpart vegna þess, að miklar niðurgreiðslur skekkja verðlagsgrundvöllinn, verðlagið í landinu, oft og tíðum óeðlilega og eru þá ekki framleiðendum t.d. í landbúnaðarvörum, alltaf í hag. Annað er það, að niðurgreiðslur kalla á miklar skattaálögur. Þetta er hins vegar nú eins og áður eitt af þeim atriðum, sem til greina koma, þegar ráða þarf til bráðabirgða bót á miklum vanda.

Í 3. gr. er svo fjallað um fjölskyldubætur, og þar er um að ræða svipað atriði og um niðurgreiðslurnar, að þegar fjárl. voru afgreidd þá vantaði rúmar 200 millj. inn í fjárl. til þess að halda fjölskylduhótunum áfram óbreyttum eins og þær þá voru eða 15 þús. á barn. Fjárl. gerðu ráð fyrir, að þær yrðu lækkaðar í 12 þús. kr. Nú er stjórnin horfin frá þessu og leggur til að verja 209 millj. til viðbótar til fjölskyldubóta, það megi ekki, eins og ákveðið var af ríkisstj. í des., lækka fjölskyldubæturnar vegna þess, eins og segir í grg., að slík lækkun hefði íþyngt barnafjölskyldum sérstaklega. Nú hefur hæstv. ríkisstj. uppgötvað þetta, sem hún sá ekki í des., þegar fjárl. voru afgreidd.

Nú er það að vísu athugandi í sambandi víð fjölskyldubæturnar, að samkv. frv. og fjárl. mundu þær verða á þessu ári 1065 millj. Ég tel, að hér megi spara verulegt fé, vegna þess að það er með öllu óþarft að vera að greiða fjölskyldubætur til tekjuhárra manna. Það er fjöldi manna í þessu þjóðfélagi, sem fær fjölskyldubætur úr ríkissjóði án þess að hafa nokkra þörf fyrir þær af efnahagsástæðum. Hér er eitt af því, sem þarf að breyta, og má spara hér verulegt fé fyrir ríkissjóð. Um leið og ég legg áherslu á það, að fjölskyldubætur eiga að halda áfram, e.t.v. aukast til þeirra, sem mest hafa þörfina, til hinna tekjulægri og til þeirra, sem eiga mörg börn, tel ég á sama hátt óeðlilegt að greiða fjölskyldubætur til þeirra, sem ekki þurfa á þeim að halda.

Þá er komið að einni aðalgr. frv., sem er 4. gr., um festingu verðlagsuppbótarinnar. Þar kemur fram, að tilgangurinn er að stöðva sjálfkrafa víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags.

Í þessu sambandi er rétt að staldra aðeins við það, sem gerðist 1960. Eitt af atriðunum í viðreisnaráformum þáv. stjórnar, sem var lögfest snemma á árinu 1960, var það að bannað var með lögum, að kaupgjald skyldi fylgja sjálfkrafa verðlags- eða kaupgjaldsvísitölu. Þetta var gert vegna þess, að það vita í rauninni allir, að það er óhugsandi að halda jafnvægi í efnahagslífinu, sem er grundvöllur undir frjálsu athafnalífi, ef þessi skrúfugangur á að eiga sér stað. Ef þetta sjálfvirka kerfi er í einhverju landi, er alveg vonlaust að koma þar á jafnvægi. Fyrr eða síðar springur þetta, og það hefur að sjálfsögðu gerst hér nú.

Nú er það svo, að þeir, sem mest börðust og með mestum stóryrðum mæltu gegn þessu frv. og þessum ákvæðum viðreisnarstjórnarinnar um að taka vísitöluna þannig úr sambandi við kaupgjaldið, bera nú sjálfir fram þetta stjfrv. og telja það grundvallaratriði til þess að stöðva verðbólguna eða draga úr hraða hennar og bjarga efnahagslífinu að taka þetta með lögum úr sambandi. Samræmi er hér ekki ýkjamikið á milli, en það er ekkert einsdæmi í þessu efni.

Varðandi þetta atriði um að banna með lögum að greiða hærri verðlagsuppbót en væri skv. vísitölunni 1. mars vil ég taka það fram, að í grg. frv. á bls. 24–25 eru mjög skynsamlegar athuganir um þetta mál, þar sem gerð er grein fyrir því, að launþegar hafi visst gagn af því, að vísitalan sé stöðvuð, beint eða óbeint. M.a. er bent á þá hækkun búvöruverðs, sem mundi þannig komið í veg fyrir, en mundi ekki fara inn í kaupgreiðsluvísitöluna, og enn fremur, að launþegar þurfi jafnan að bíða eftir verðlagsuppbótum vegna verðhækkana, sem verða milli vísitöludaga. Er það mat sérfræðinganna samkv. grg. þeirra á bls. 25, að þessi atriði gildi til samans milli 5 og 6% launþegum í hag, þ.e.a.s. ef vísitalan yrði stöðvuð, þá hefðu þeir þennan hag, sem mundi verða þeirra tap eða tjón ella. Þetta atriði er auðvitað sjálfsagt að hafa í huga, bæði fyrir launþega og fyrir löggjafarvaldið. Hins vegar verður að leiða hugann að því í sambandi við þetta ákvæði, hvað gerst hefur, frá því að samið var um hinar almennu kauphækkanir í febrúarlok. Það gerðist nefnilega, eftir að launþegar fengu samkv. hinum almenna rammasamningi í kringum 20% kauphækkun, að þá urðu svo miklar verðhækkanir á næstu dögum og vikum á mörgum helstu nauðsynjavörum manna, að í rauninni var á stuttum tíma tekið til baka allt, sem fólkið hafði fengið í kauphækkanir. T.d. bar þetta á góma við hv. 8. þm. Reykv., formann Dagsbrúnar, í sjónvarpsviðtali 1. maí, þar sem hann tók fram, að launþegar, sem hefðu fengið þessar 18–20% kauphækkanir, stæðu nú í sömu sporum og áður hvað sjálft kaupgjaldið snertir. Þess vegna er viðbúið, fyrst mál hafa snúist svo, að þá verði enn viðkvæmara en ella, ef þær uppbætur, sem eiga að koma til að bæta upp þessar miklu verðhækkanir í marsmánuði og eiga að koma 1. júní, verða með öllu af þeim teknar án bóta. Þetta er vissulega atriði, sem þarf líka að skoða vegna þess, hve þetta mál er allt saman óvenjulegt í mörgum greinum.

Hins vegar verður auðvitað að hafa í huga, að fyrir launafólk er verðbólgan stórhættuleg, ekki aðeins á þann veg, sem gerð er svo glögg grein fyrir í grg., sem ég var að lesa upp áðan, heldur á margan annan veg. Þess vegna held ég, að launþegar séu yfirleitt sammála um það, að verðbólgan sé óvinur þeirra. M.a. gera launþegar sér auðvitað grein fyrir því, að þegar verðbólga er komin á ákveðið stig, þá er hætt við, að hún framkalli atvinnuleysi. Sú er reynslan alls staðar. Eins og mál horfa hér nú, þegar grundvallaratvinnuvegir okkar eru þegar reknir með halla og verða reknir með vaxandi halla, ef ekki er að gert á þessu ári, þá er auðvitað augljóst, að þegar líður á árið, þá hljóta mörg atvinnufyrirtæki að draga saman seglin og hefja uppsagnir starfsmanna. Verðbólga komin á ákveðið stig framkallar atvinnuleysi. Þá er spurningin, þegar sú hætta er fyrir hendi, eins og hún er tvímælalaust nú, til hverra aðgerða sé best að grípa, einnig og ekki síst með hagsmuni hinna fjölmennu launþega í landinu fyrir augum. Sú leiðin, sem hér er bent á, er að láta hækkun kaupgreiðsluvísitölunnar um 13–15 stig ekki koma til framkvæmda 1. júní. Önnur leið, sem áður hefur verið reynd í slíkum tilvikum, er upphótakerfið, að leggja nýja skatta á almenning og nota féð til að greiða uppbætur á útflutningsvörurnar. Slíkt uppbótakerfi hefur verið reynt hér áður, en flestir voru búnir að sjá slíka regingalla á því, að frá því var horfið, enda var svo komið, þegar uppbótakerfið var í algleymingi, að í rauninni vissi enginn, hvað gengi voru mörg, þau voru einhvers staðar á milli 10 og 20, vegna þess hve mismunandi uppbætur voru greiddar á ýmsar tegundir útflutningsvara. En gagnvart almenningi snýr þetta mál einnig þannig við, að þessi leið þýðir auðvitað auknar álögur á ríkissjóðinn.

Önnur leið, sem farin hefur verið stundum, er að fella gengið, til þess að atvinnuvegirnir geti rétt hlut sinn á þann veg og geti farið aftur að bera sig.

Allar þessar leiðir og öll þessi sjónarmið verður auðvitað að skoða vandlega, áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Það er því enginn vafi á því, að vitanlega skynja launþegar það vel. að einhverjar ráðstafanir þarf að gera, þegar slíkt ástand er eins og nú er og atvinnuvegirnir og afkoma þeirra í hættu og verulegur háski á því, að til atvinnuleysis geti dregið, þegar líður á árið.

Í þessari sömu gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þetta bann við kaupgreiðsluvísitölu skuli þó ekki ná til þeirra tekna, sem eru 36 þús. kr. eða lægri, og er þá gert ráð fyrir, að ríkisstj. hafi ákvörðunarvald um það. Nú er það sjálfsagt, að í sambandi við slíkar ráðstafanir sé gætt sérstaklega hagsmuna hinna lægst launuðu. Hitt er mjög athugandi, hvort á að veita ríkisstj. svo mikið og vandasamt vald eins og hér er gert ráð fyrir. Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að greiða skuli hærri verðlagsuppbót en segir í 1. mgr. á grunnlaun, sem lægri eru en 36 þús. kr. á mánuði. Slík verðlagsuppbót yrði ákveðin sem föst krónutala, en ekki sem hlutfall af launum. Ég er ekki viss um, að það væri neinni ríkisstj. keppikefli eða æskilegt fyrir hana að fá slíkt vald í hendur, eins og hér er gert ráð fyrir.

Í 7. gr. frv. er svo það ákvæði að ógilda eða fresta ákvæðum kjarasamninga, þar sem aðilar hafa fengið yfir 20% kauphækkun frá síðustu áramótum. Nú er auðvitað rétt, að mjög illa hefur til tekist í síðustu kaupgjaldssamningum að því leyti, að hinir lægst launuðu hafa orðið verst úti. Þetta er þeim mun undarlegra, þar sem það hefur verið yfirlýst stefna, bæði heildarsamtaka verkalýðsins og ríkisstj., að jafna meira en verið hefur og að hinir lægst launuðu fengju mest. Hins vegar hefur niðurstaðan orðið sú, sem nú er viðurkennt af öllum, að launakerfið hefur orðið ranglátara við þá samninga en var. M.a. komst hæstv. menntmrh. nýlega svo að orði, að meiri ójöfnuður ríkti nú á launamarkaði en áður. Á sama tíma sem þetta gerist, að meiri ójöfnuður er á kominn í launagreiðslum í landinu heldur en áður, þá heldur hæstv. iðnrh. áfram að stagast á því, hæði hér á Alþ. og í fjölmiðlum, að það, sem einkenni þessa ríkisstj., sé félagshyggjan og jöfnuðurinn, sem hún berjist fyrir, launajafnaðarstefnan og félagshyggjan, — gagnstætt þeirri stefnu, sem fyrrv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, hafði haft. Menn kunna að spyrja: Hvernig stendur á því, að allt hefur gengið svo úr skorðum? Skýringin er ákaflega einföld. Skýringin er fyrst og fremst þenslan í atvinnulífinu, og raunar kemur það glöggt fram í grg. frv., að þetta sé ein af meginástæðunum fyrir því, að svo hefur til tekist. Það, sem hefur raunverulega gerst, er, að vegna aðgerðaleysis ríkisstj. í því að reyna að koma á jafnvægi á vinnumarkaðinum, vegna þess að eftirspurnin hefur verið allt of mikil og kapphlaupið um vinnuaflið, hefur sumum stéttum, þar sem vantar vinnuafl og þar sem slegist er um hvern starfsmann, tekist einmitt vegna þessarar þenslu, vegna þessa efnahagsástands að fá miklu meiri kjarabætur en verkamenn og ófaglærðir menn almennt eða opinberir starfsmenn. M.ö.o.: þegar leitað er að skýringu, þá er augljóst, að orsökin fyrir þessu aukna misrétti og aukna ójöfnuði er stjórnleysi ríkisstj. í efnahagsmálum. Þess vegna fer það heldur illa í munni hæstv. iðnrh., þegar hann annars vegar talar um félagshyggju sina og launajafnaðarstefnu, en ber sjálfur ábyrgð á því, að þetta hefur tekist svo óhöndulega, að ójöfnuður í þessum efnum hefur ekki, a.m.k. um mjög langan aldur, verið meiri en nú. Það misrétti, sá ójöfnuður er ekki síst á hans ábyrgð.

En varðandi þetta ákvæði um að ógilda þau samningsákvæði, þar sem stéttarfélög hafa fengið yfir 20% kauphækkanir, þá er varhugavert að ógilda samninga, sem þegar eru komnir í gildi að þessu leyti, þó að hitt beri að viðurkenna, sem hæstv. forsrh. benti rækilega á í ræðu sinni, að hér hefur tekist mjög illa til og hér hefur komið að ýmsu leyti ranglæti í stað réttlætis. M.a. hlýtur sú spurning að vakna: Er þetta framkvæmanlegt í okkar þjóðfélagi eins og ástandið er nú? Halda menn, þó að þetta lagaákvæði yrði samþ., að því yrði fylgt? Ég held ekki. Ég held, að meðan þenslan er eins og hún er nú, og því miður virðist þetta frv., þótt samþ. yrði, ekki draga nándar nærri nægilega úr ofþenslunni, — ég held, að meðan ástandið er eins og nú er, mundi þetta ekki verða framkvæmt, heldur mundu þeir, sem hafa fengið þessi hærri laun, krefjast þeirra eftir sem áður, hóta að fara úr vinnunni ella. Það, sem hér munaði, mundi verða greitt undir borði. Ég held, að í meginatriðum mundi þetta verða óframkvæmanlegt. Hver er þá árangurinn? Árangur inn yrði fyrst og fremst aukin skattsvik, vegna þess að þessar greiðslur, sem þannig væru orðnar ólöglegar, mundu auðvitað ekki verða taldar fram til skatts. Þetta mundi auk þess verða ákaflega vandasamt í framkvæmd, og tel ég, að hér sé í rauninni um varhugavert ákvæði að ræða.

Næsta atriðið, sem ég vildi nefna, er 8. gr. frv. Hún er um lækkun fjárveitinga úr ríkissjóði, þ.e.a.s. lækkun fjárl. um 1500 millj. kr. Þetta er ákaflega athyglisverð till. Hún er m.a. athyglisverð að því leyti, að hún er ein af mörgum viðurkenningum þess, að stjórnarandstaðan hafi haft rétt fyrir sér. Hvað eftir annað á stjórnarferli þessarar ríkisstj. höfðu sjálfstæðismenn lagt til, að heildarútgjöld fjárl. yrðu ekki eins há og þau eru nú orðin. Í rauninni er öllum ljóst, að hækkunin hefur verið úr öllu hófi, þar sem ríkisútgjöldin hafa nær þrefaldast á tæpum þremur árum, og m.a. fluttum við till. nýskeð á Alþ. um að lækka útgjöld ríkisins í ár um 1500 millj. kr. og ríkisstj. yrði falið það í samráði við fjvn., eins og skýrt var tekið fram í grg. frv. Þegar þessi till. lá hér fyrir, var af hálfu stjórnarsinna mælt eindregið á móti henni, talin óframkvæmanleg, út í hött, ábyrgðarleysi o.s.frv. Svo gerðust þau undur við atkvgr. hér, að hæstv. forsrh. ómerkti allt þetta hjal og greiddi atkv. með till. okkar sjálfstæðismanna. Og nú hefur verkið verið fullkomnað með því að taka þetta upp í sjálft stjfrv., sem er þó vist ekki stjfrv., eða a.m.k. greinir stjórnarliða á um það. Ég held, að ég verði að halda mig við það orðalag, sem hæstv. forsrh. notar, að telja þetta stjfrv.

Vitanlega er það framkvæmanlegt að draga úr ýmsum útgjöldum ríkisins, og ríkisstj. sjálf hefur staðfest þetta sjónarmið, ekki aðeins með þessu frv., heldur einnig með till. sínum um vegamál, nú nýskeð vegáætlun, þar sem hún sjálf leggur til og telur óhjákvæmilegt að lækka fyrirhugaðar vegaframkvæmdir um milli 40 og 50% á næsta ári. í rauninni er með þessu búið að viðurkenna allt, sem við sögðum hæði um þörfina á því að lækka útgjöld ríkissjóðs og að það væri framkvæmanlegt og hægt að gera það.

Þetta er atriði, sem að sjálfsögðu er virðingarvert, að snúa þannig við hlaðinu og þurfi í rauninni að vinna að því að lækka útgjöldin meira en hér er gert ráð fyrir.

Þá er í 10.–12. gr. frv. ákvæði um skyldusparnað, 4%. Vekur það nokkra athygli, að hér er talað um 4% skyldusparnað, þegar það er haft í huga, að hæstv. ríkisstj. lagði til og samdi um það á löngum fundum á Loftleiðum í vetur við verkalýðssamtökin að lækka hámark tekjuskattsins úr 44% niður í 40%. Nú virðist, að eigi að ná þessum 4% bakdyramegin með skyldusparnaði. En hvað sem um skyldusparnað almennt má segja, er athyglisvert, að þessi skyldusparnaður mundi annars vegar kosta mikla vinnu, kostnaðarsama vafalaust, en á þó ekki að skila á þessu ári í ríkissjóð nema 100–120 millj. kr. samkv. grg. frv., og sumir telja, að þetta mundi ekki skila meiru en um 100 millj. Það er mjög hæpið að leggja út í slíkt fyrirtæki, eins og þessi almenni skyldusparnaður er, þegar ekki er meira, sem hann á að skila, þessi upphæð.

Varðandi ákvæðin í 13.–16. gr. frv. um skyldu lífeyrissjóða og annarra til þess að kaupa opinber skuldabréf eða verðbréf fyrir 35% af ráðstöfunarfé sínu, þá held ég, að þar sé farið út á mjög varhugaverða braut. Það er auðvitað eðlilegt, að lífeyrissjóðirnir taki verulegan þátt í því að fjármagna ýmsar þarfir hins opinbera. Flestir lífeyrissjóðanna hafa þegar af fúsum vilja samið um 20% af sínu ráðstöfunarfé til slíkra kaupa. Ég held, að það sé rétt að vara mjög við því að ætla að fara að skipa þessum málum svo með lögum og skylda þá til að kaupa miklu meira en náðst hefur með frjálsum samningum. Ég hef ástæðu til að ætla, að a.m.k. stjórnir sumra lífeyrissjóðanna muni ekki láta sér það lynda, heldur láta á það reyna fyrir dómstólum, hvort slíkt væri heimilt samkv. stjórnarskrá landsins. En hvað sem því liður, þá eru aðilar lífeyrissjóðanna svo margir og binda svo miklar vonir við lífeyrissjóðina, að þetta er mjög hæpið. Ég tel, að hér þurfi fyrst og fremst að reyna samningaleið.

Varðandi 17. gr. frv. er gert ráð fyrir allsherjarendurskoðun af hálfu Seðlabanka Íslands, Framkvæmdastofnunar og ríkisstj. á vöxtum. Er auðvitað æskilegt og nauðsynlegt, að hér fari fram samræming á vöxtum og endurskoðun þeirra, þar sem þeir eru nú óraunhæfir.

Ég hef minnst á þessi atriði úr frv. og vil svo aðeins bæta því við, að það er margt, sem vantar í þetta frv., sem nauðsynlegt er til þess að reyna að vinna gegn þenslunni eða draga úr henni. Mér virðist t.d., að ekki séu gerðar nægar ráðstafanir til þess að draga úr þenslunni eins og vera þyrfti, og líka vafasamt, að þessar ráðstafanir, jafnvel þó að allar væru samþykktar, mundu nægja til þess, að atvinnureksturinn, okkar aðalatvinnurekstur, yrði rekinn hallalaust.

Ég skal svo að lokum aðeins minnast á nokkur atriði, sem nauðsynlegt er að hafa í huga og vinna að, bæði þegar við skoðum aðgerðir til bráðabirgða og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Auðvitað er eitt fyrsta atriðið, kannske meginatriðið, að tryggja öllum fulla atvinnu í landinu. Við þurfum að tryggja jöfnuð í viðskiptum okkar út á við, eins og viðreisnarstjórnin stefndi að og tókst þegar á fyrsta ári að gera. En þar horfir nú ákaflega óvænlega, þar sem spáð er eins stórkostlegum halla, bæði á vöruskiptajöfnuði og greiðslujöfnuðinum í heild, og nú er. Við þurfum að stefna að því að safna myndarlegum gjaldeyrisforða, sem er okkar varasjóður, ef illa gengur. Sá gjaldeyrisforði, sem við áttum í ársbyrjun, er lágmark, þyrfti að vera hærri. En nú horfir svo á þessu ári sem muni ganga mjög á hann og hann verði kannske, þegar árið er á enda, ekki nema helmingur eða þriðjungur af því, sem hann var í ársbyrjun. Myndarlegur gjaldeyrisforði er bæði nauðsynlegur til þess að mæta áföllum, aflabresti, verðfalli, ef til kemur, en ekki síst er hann nauðsynlegur til þess að skapa okkur lánstraust erlendis. Þá verður auðvitað á hverjum tíma að skrá gengi krónunnar rétt, og verður þá að sjálfsögðu að miða við rekstur og afkomu aðalútflutningsatvinnuvega okkar. Það er engum til góðs að skekkja gengi krónunnar. Við höfum haft reynslu af því, Íslendingar, hvað eftir annað, að gengið hefur verið skráð rangt, og reynt að fela það með ýmiss konar verðlagsuppbótum eða hallarekstri. slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, og verður að vera meginatriði í okkar efnahagsstefnu, að gengið sé á hverjum tíma skráð rétt. Við þurfum auðvitað að viðhalda og helst auka það frjálsræði í milliríkjaviðskiptum, sem viðreisnarstjórnin kom á á sínum tíma. Það þarf eins og ég gat um áðan að endurskoða allt verðlagskerfið og koma því á heilbrigðari grundvöll. Það þarf að lækka heildarskattbyrðina í landinu, sem er allt of þung nú, og hefur hlutfallstala hennar farið mjög vaxandi á síðustu árum. Það þarf að draga verulega úr beinum sköttum, og það þarf að koma hér á staðgreiðslu skatta, en það síðast nefnda, staðgreiðslan, er einmitt mjög þýðingarmikill liður í efnahagskerfinu og efnahagsráðstöfunum á ýmsum tímum. Sérstaklega gæti það verið mjög mikilvæg aðgerð, ein af mörgum, þegar verðbólga er og þensla í þjóðfélaginu, að hér væri komið á staðgreiðslukerfi skatta.

Vitanlega er nauðsynlegt, að atvinnureksturinn í landinu beri sig, og það er hin mesta óheillastefna að ætla með uppbótakerfi eða á annan óheilbrigðan hátt að reyna að halda honum gangandi. Það þarf að örva sparnað, þ.e.a.s. örva sparifjársöfnun fólksins sem mest má verða. því er spáð í grg. þessa frv., að muni draga mjög úr sparifjársöfnun, þegar líður á árið. Margvíslegar ráðstafanir eru hugsanlegar til að örva sparifjársöfnun. Það má bæði beita þar skattfríðindum og hvatningu til manna að ýmsum leiðum, og ekki síst er það verðtrygging sparifjár, sem hér kemur til greina. Þar vil ég taka mjög undir það, sem bæði hæstv. forsrh. kom inn á og rætt er í grg. frv., að verðtryggja þurfi öll stofnlán. En í sambandi við að örva sparifjársöfnun er auðvitað eitt grundvallarskilyrðið það, að jafnvægi sé í efnahagslífinu og festa, þannig að almenningur hafi trú á því að spariféð rýrni ekki. Ríkissjóður þarf að lækka útgjöld sín þegar í ár og færa niður, og varðandi undirbúning fjárl. fyrir næsta ár þyrfti að koma sér saman um ákveðið þak eða hámark fyrir ríkisútgjöldin, helst í einhverju skynsamlegu hlutfalli við væntanlega þjóðarframleiðslu á næsta ári. Það er enginn vafi á því, að útgjöld fjárl. eru nú í ár og hafa verið hin síðustu ár allt of stór hundraðshluti af þjóðarframleiðslunni, og kemur það vitanlega fram í því, að skattabyrðin í heild er allt of þung. Leiðin í þessu er vafalaust sú, að fyrir fram verði ákveðið af ríkisstj. og Alþ., að útgjöld ríkisins, útgjöld fjárl. á næsta ári megi ekki fara fram yfir einhverja ákveðna upphæð og í þann ramma verður svo fjmrn., hagsýslu- og fjárlagastofnun og fjvn. að fylla án þess að fara yfir þetta hámark.

Það er enn fremur brýn nauðsyn, að ríkissjóður hafi verulegan afgang í slíku góðæri eins og verið hefur. Það er ákaflega alvarlegt mál, ef það reynist rétt, sem spáð er í grg. frv., að ríkissjóður geti orðið með verulegan greiðsluhalla á þessu ári, milli 1 og 2 milljarða. Vísitölukerfið verður ekki aðeins að endurskoða, heldur verður skilyrðislaust að afnema það sjálfvirka kerfi, sem við eigum nú við að búa. Gerð kjarasamninga og öll vinnubrögð þar þarf að endurskoða Ég held, að öllum almenningi og ekki síst launþegasamtökunum hafi orðið það ljósara nú en áður eftir þau alvarlegu mistök, sem orðið hafa og hér hefur verið lýst rækilega. En allt miðar þetta auðvitað að því að tryggja fulla atvinnu, framfarir og hagvöxt í landinu. En grundvallarskilyrði þess, að svo megi verða, er auðvitað, að við völdin sé ríkisstj., sem hefur traust almennings, en ekki eins og nú er, að almenningur beri ekkert traust til hennar, og það vantraust er fyllilega réttmætt miðað við reynsluna undanfarin ár af aðgerðaleysi hennar í sambandi við verðbólguhættuna.

Varðandi þetta frv. í heild vil ég segja það, að vitanlega eru, eins og komið hefur fram í ræðu minni, ýmis atriði þar, sem eru mjög til athugunar, önnur, sem ekki er hægt að fallast á. En það er ljóst, að gagnslaust er að gera þær ákvarðanir og veita þær heimildir, sem í frv. felast, meðan núv. ríkisstj. situr að völdum.