03.05.1974
Neðri deild: 119. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4192 í B-deild Alþingistíðinda. (3767)

337. mál, jafnvægi í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla þegar í upphafi orða minna að gera grein fyrir afstöðu þingflokks Alþfl. til þessa frv. Við munum greiða atkv. gegn því þegar við 1. umr. Rök okkar fyrir þeirri afstöðu eru þessi:

Undirbúningur og flutningur þessa frv. er einsdæmi í þingsögunni. Það er kallað stjfrv. og fjallar um meginviðfangsefni ríkisstj., verðbólguna. En í grg. er tekið fram, að stjórnarflokkarnir hafi óbundnar hendur um einstök atriði þess, og í gærkvöld var frá því skýrt í útvarpsumr., að einn ráðh., Björn Jónsson félmrh., standi alls ekki að flutningi frv. Annað eins hefur aldrei gerst áður varðandi frv., sem þó er kallað stjfrv.

Allt þetta sýnir, að ríkisstj. getur ekki komið sér saman um úrræði í efnahagsmálum og ætti því auðvitað að vera búin að segja af sér. Hins vegar senda ráðherrarnir hver öðrum tóninn hér á Alþ. og í fjölmiðlum og bera jafnvel ósannindi hver á annan. slík ríkisstj. á auðvitað að fara frá.

Tregða ráðh. við að víkja fyrir starfhæfri ríkisstj. er með ólíkindum. Allir skynsamir og ábyrgir menn gera sér ljóst, að vegna dæmalausrar óstjórnar undanfarin ár er nú brýn þörf á víðtækum efnahagsráðstöfunum. En ráðstafanir þessa frv. eru hreinar bráðabirgðaráðstafanir. Þingflokkur Alþfl. telur það sérstaklega ámælisvert, að engin raunhæf samráð skuli hafa verið höfð við launþegasamtökin um efni frv. Undir þessum kringumstæðum telur þingflokkur Alþfl. afstöðuna til frv. í heild hljóta að mótast af afstöðunni til ríkisstj. Við tökum því á þessu stigi ekki afstöðu til einstakra efnisatriða málsins, en við höfum fyllsta vantraust á ríkisstj. Þess vegna munum við þegar í lok þessarar umr. greiða atkv. gegn frv. í heild.

Ég vil endurtaka, að ég tel það sérstaklega ámælisvert, að ríkisstj. skuli engin raunhæf samráð hafa haft við launþegasamtökin við undirbúning og samningu þessa frv. Það þykir kannske nánast spaugilegt að minna á málefnasamning ríkisstj. frá 14. júlí 1971 nú á miðju ári 1974. Hann er orðinn þess konar skjal, að menn ýmist brosa eða verða grafalvarlegir af undrun, þegar menn lesa samninginn. En í næstfyrsta kafla málefnasamningsins, sem fjallar um kjaramál, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að ná þessu marki,“ þ.e.a.s. markmiði ríkisstj. í efnahagsmálum, „vill stjórnin hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum.“

M.ö.o.: í sjálfum málefnasamningnum skuldbindur ríkisstj. sig til þess að hafa sem nánast samstarf við samtök launafólks og atvinnurekenda um ráðstafanir í efnahagsmálum. Svo þegar loksins kemur að því eftir þriggja ára óstjórn í efnahagsmálum, að ríkisstj. neyðist til þess að leggja fram víðtækt frv. um efnahagsmál, hefur hún þýðingarlaus og losaraleg samtöl við launþegasamtökin og að því er virðist engin við samtök atvinnurekenda. En það er öllum ljóst, það vita allir, sem vilja vita, að þau stuttu samtöl, sem fóru fram fyrir tveim dögum við fulltrúa frá Alþýðusambandinu og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, voru hrein málamyndasamtöl, sem í raun og veru voru móðgun við þessi stóru launþegasamtök. Það þarf því engan að undra, þó að félmrh., sem er sá ráðh., sem hefur með málefni launþegasamtakanna að gera í ríkisstj., uni ekki slíkri lítilsvirðingu á hinum fjölmennu launþegasamtökum landsins, þar sem eru tugþúsundir launþega, enda hefur hann látið vanþóknun sína á þessum vinnubrögðum í ljós með því að lýsa yfir, að hann styðji ekki frv. Ágreiningur hans við félaga hans í ríkisstj. og þá forsrh. fyrst og fremst skilst mér, að sé aðallega vegna þess, að hann unir því ekki, að launþegasamtökum landsins sé sýnd bein lítilsvirðing, bein ókurteisi við undirbúning máls eins og þessa og stjórnaryfirlýsingin í málefnasamningnum sé augljóslega þverhrotin á hinn óskammfeilnasta hátt. Ég er ekki hissa á því, að maður eins og Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands og einn reyndasti verkalýðsforingi Íslendinga, láti ekki bjóða sér slík vinnubrögð, að ég nú ekki tali um það, þegar hann þarf að una því, þar sem hann er nú staddur utan þings, að þurfa að hlusta á það í fjölmiðlum, að sjálfur forsrh. hafi í dag sent honum þá kveðju, að í raun og veru ætti hann það eitt að gera að segja af sér. Þá þekki ég Björn Jónsson illa, ef hann tekur þessu þegjandi, ef ekki kemur eitthvað í framhaldi af þessu. En þetta er auðvitað ein sönnun þess, að hæstv. forsrh. kann ekki að vera forsrh. Hann kann ekki að halda sínum mönnum saman, (Forsrh.: Það er þá einhver til vara, sem kann það.) Já, sem betur fer eru margir menn á Alþ., sem kunna það miklu betur en núv. forsrh., sem betur fer, enda væri þjóðin illa komin, ef hún ætti engan þm., sem gæti gert betur en núv. forsrh. En sem betur fer er það ekki. Þeir eru fjölmargir, sem gætu tekið það að sér.

Hér er, svo að ég tali aftur í alvöru, enn ein sönnun þess, að stjórnin er í raun og veru sprungin, hún er í raun og veru sundruð. Slíkar kveðjur, slíkar hnútur mundu ekki fara á milli forsrh. annars vegar og eins ráðh., sem enn er samráðh. hans, nema því aðeins að báðir viti, að stjórnin er í raun og veru sprungin.

Ástand íslenskra efnahagsmála er nú sannast sagt þannig, að engin stjórn á Íslandi hefur valdið öðru eins öngþveiti í efnahagsmálum og sú stjórn, sem við höfum orðið að búa við undanfarin þrjú ár. Þegar hún fer frá, og þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða, að hún neyðist til að fara frá, hversu þvert sem henni kann að vera það um geð, þá skilur hún eftir sig verra ástand, lélegra bú, meiri hættumerki á lofti, meiri voða í vændum en nokkur önnur ríkisstj. í íslenskri þingsögu. Og þetta er þeim mun furðulegra þar sem þessi ríkisstj. hefur að baki þrjú mestu góðæri í hagsögu Íslendinga á öldinni. Þrátt fyrir þessi þrjú góðu ár, sem hún á að baki, horfir þjóðin nú fram á meira öngþveiti en nokkru sinni fyrr, ef ekki verður að gert, ef ekki koma til aðrir menn, sem betur kunna til verka en þeir, sem nú sitja í stjórnarráðinu.

Ráðh. benda á það og leggja á það mikla áherslu, t.d. í útvarpsumr. í gær, að það sé ágætt ástand í dag í íslenskum efnahagsmálum. Það er rétt að því leyti, að það er full atvinna, allar vinnandi hendur hafa verk að vinna, sem betur fer, og þannig á það að vera, og atvinnutekjur eru miklar, þannig á það líka að vera. Það er alveg rétt, það er hverju orði sannara, að enn í dag er ástandið í íslenskum efnahagsmálum sem betur fer gott. En það er voði í vændum. Það er það, sem er að. Það er voði fram undan. Fyrir honum loka ráðh. augunum algerlega, sérstaklega þó ráðh. Alþb. Það má þó hæstv. forsrh. eiga, — ég skal sannarlega láta hann njóta þess sannmælis, sem hann á skilið, — það má hann þó eiga, að augu hans hafa opnast fyrir þeim vanda, sem fram undan er. En augu Alþb: ráðh. virðast vera fullkomlega lokuð fyrir því, að nokkuð sé að. Þeir keppast við að lýsa því, hve ástandið sé gott, það sé allt í besta lagi: Hafa ekki allir nóg að gera? Hafa ekki allir stólpatekjur. Því er þá verið að mála fjandann á vegginn? segja þeir hver um annan þveran.

En ríkisstj. ferst í raun og veru eins og manni, sem er að halda veislu í húsi sínu, hefur nokkra góða gesti í kringum sig, er glaður og reifur, etur og drekkur. En svo kemur upp eldur í kjallaranum. Þó að honum sé sagt, að það sé eldur í kjallaranum, og þeim, sem sitja með honum við borðið, þá hlustar hann ekki á það: Það er enginn eldur í kringum mig, það er allt í lagi hér uppi, fullt bor ð að borða og mikið að drekka. Hver sér eld hér? Og það er haldið áfram að eta og drekka og sagt: Haldið þið bara áfram að eta og drekka, þetta er allt í besta lagi. — Jafnvel þó að það fari að finnast brunalykt og jafnvel þó að það fari að sjást einhver reykur út um glugga, þá halda þeir áfram að eta og drekka og segja við alla.: Það er enginn eldur kominn upp á hæðina hjá mér. Við skulum bara láta okkur líða vel áfram og lifa í vellystingum praktuglega.

Svona menn eru orðnir sljóir, og það gæti farið þannig fyrir þeim, fyrir þessari fjölskyldu og vinum hennar, ef þeir héldu áfram að eta og drekka, meðan eldurinn er að æsast í kjallaranum, að húsið brynni yfir þeim. Við skulum vona, að þeir forði sér út, áður en húsið brennur alveg og ég vona, að stjórnin hafi vit á að koma sér út úr húsinu, áður en það brennur, þannig að aðrir geti komist inn til að slökkva eldinn. Það er það, sem er mergurinn málsins.

Þegar ríkisstj. lýsir því, hvernig ástandið er, þá er henni mjög gjarnt að leggja áherslu á, að hún hafi tekið við búi með mjög slæma afkomu. A.m.k. má hún ekki heyra það nefnt, ráðh. mega ekki heyra það nefnt, að þeir hafi tekið við blómlegu búi. Í hvert einasta skipti sem þeir heyra talað um blómlegt bú, þegar þeir hafa tekið við, halda þeir langa ræðu um það lifandis óskapa ástand, sem hafi verið, meðan fyrrv. ríkisstj. var við völd. Hversu oft eru þeir ekki búnir að segja hver um annan þveran, hæstv. ráðh., að á valdatímum fyrrv. ríkisstj. hafi verið atvinnuleysi og landflótti, fólk hafi streymt úr landi og ægilegt atvinnuleysi ríkjandi? (Gripið fram í: Það er satt.) Þetta eru einhverjar mestu blekkingar af mörgum blekkingum, sem hafðar hafa verið frammi í opinberum umr. í áratugi. Það hefur enginn borið á móti því, að hér hafi ekki verið atvinnuleysi og erfiðleikar og fólk hafi því miður orðið að flytja úr landi á árunum 1967 og 1968. Það eru mestu erfiðleikaár, sem yfir Ísland hafa dunið síðan í heimskreppunni miklu í kringum 1930. Á öldinni hafa komið tvö stórkostleg erfiðleikatímabil yfir íslenska þjóð: annars vegar heimskreppan á árunum 1930–1933 og hins vegar erfiðleikaár 1967–1968, þegar hvort tveggja gerðist í senn, að síldin hvarf af miðunum og meira verðfall varð á Bandaríkjamarkaði en nokkru sinni áður, og gjaldeyristekjur þjóðarinnar rýrnuðu um hvorki meira né minna en 45%. Það er rétt, það hefur enginn nokkurn tíma borið á móti því,,að á þessum árum hafi því miður orðið hér atvinnuleysi, nokkur hópur manna flutt úr landi, þjóðartekjurnar minnkað, lífskjörin versnað. Það hefur enginn borið á móti þessu. En að telja þetta ástand einkennandi fyrir þau 12 ár, sem síðasta ríkisstj. var við völd, það segi ég, að sé ein mesta blekking síðustu áratuga í umr. um efnahagsmál. Ég hef satt að segja oft verið að hugsa um að gera þessu efni dálítið rækileg skil, og það ætla ég að gera núna. Nú ætla ég einu sinni fyrir allt að hrekja þessa lygasögu, og kveða þessa ósannindamenn í kútinn, þannig að ég vona, að ef þeir eru heiðarlegir, endurtaki þeir ekki þessi ósannindi (Gripið fram í.) Ég skal segja þér dæmisögu í lokin. Ég hef satt að segja oft velt því fyrir mér, hvort ráðh. hafi í raun og veru ekki sett sig inn í það ástand, sem var í þjóðmálum, þegar þeir tóku við, því að ég á bágt með að trúa því, ef þeir hafa litið í kringum sig í atvinnulífinu, ef þeir hafa lesið þau skjöl og skýrslur, sem lágu á skrifborðinu hjá þeim, þegar þeir tóku við, hvernig í ósköpunum hafa þeir þá getað haldið því fram, eins og þeir hafa gert, að allt hafi verið hér í vandræðum, þegar þeir tóku við, nema þá þeir geri það með vondri samvisku nema þá þeir geri það gegn betri vitund. Ég skal láta það alveg ósagt, hvort andmælin gegn því, að þeir hafi tekið við góðu búi, hafi verið viðhöfð af því, að þeir hafi ekki sett sig inn í málin, þegar þeir tóku við, eða hvort hitt er satt, að þeir hafi talað og tala gegn betri vitund. Um það skal ég ekki dæma. En af því, sem ég mun segja nú á eftir, mun verða svo augljóst sem verða má, hversu fullkomlega rangar þær staðhæfingar hafa verið, að efnahagsástand hafi ekki verið gott, þegar þeir tóku við 1971. Ég mun sýna með ljósum rökum og tölum fram á að það var búið að vinna bug á efnahagserfiðleikunum frá árunum 1967–1968 á miðju ári 1971, þegar núv. stjórn tók við völdum. Ég skal fara yfir alla helstu þætti þjóðarbúskaparins og bera saman ástandið 2–3 ár áður en þeir tóku við, núv. stjórnarherrar, og ástandið í dag, eins og þeir lýsa því sjálfir. Allt, sem ég segi um málið, mun verða sótt í opinberar skýrslur hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, Hagstofunnar eða Seðlabankans, — hver einasta tala, hver einasta staðreynd, sem ég kem til með að nefna.

Ég skal byrja á þróun þjóðarteknanna.Í raun og veru sýnir það gleggsta mynd af því, hvernig þróun efnahagsmála er, hverjar þjóðartekjurnar eru á hverju ári og hvernig þær breytast ár frá ári. Á áratugnum 1960–1970, stjórnarárum fyrrv. ríkisstj., var vöxtur þjóðartekna á íslandi að meðaltali 4–5%, og er það í hærra lagi en það, sem gerðist í löndum Vestur-Evrópu og löndum heims yfirleitt. Hitt var rétt, eins og ég sagði áðan, að á árunum 1967 og 1968 minnkuðu þjóðartekjurnar. Þær minnkuðu 1967 um 7%. Þær minnkuðu 1968 um 8%. Þetta voru erfiðleikaárin, og það þarf enginn að verða hissa á því, að þjóðartekjur hafi minnkað, þegar síldin hvarf og verðlag féll jafnstórkostlega á Bandaríkjamarkaði og raun bar vitni um.

Fyrrv. ríkisstj. snerist gegn þessum erfiðleikum með réttum ráðum, með djörfum ráðum, róttækum ráðum og ekki síst af samheldni, sem mótaðist af kjarki og stefnufestu. Hún hafði heildarstefnu til þess að berjast við erfiðleikana, — og með hvaða árangri? Strax 1969 uxu þjóðartekjurnar um 4%, og 1970 — hvað haldið þið, að þær hafi vaxið um þá? Þær uxu um 9%. Það var raunar alger sigur á erfiðleikunum frá árunum 1967–1968. Árið 1971, því ári, þar sem ekki er hægt að þakka núv. ríkisstj. neitt, — hún tók við á miðju árinu, — uxu þjóðartekjurnar um 12%, sem er met, sem er hærra en nokkru sinni áður hafði átt sér stað. M.ö.o.: frá árinu 1967, þegar þær höfðu minnkað um 7%, er ástandið orðið svo breytt á því ári, sem stjórnin tekur við, að þjóðartekjurnar vaxa um 12%. Hvar er einfaldari, öruggari og ótvíræðari sönnun þess, að tekist hafi að vinna sigur á erfiðleikunum, að fyrrv. stjórn hafi tekist að vinna sigur á erfiðleikunum?

Nú er þessi stjórn búin að vera við völd í 3 ár, og hverju er spáð um vöxt þjóðarteknanna á þessu ári, á þjóðhátíðarárinu 1974, eftir þriggja ára valdaferil stjórnarinnar og þrjú mestu góðæri í sögunni? Nú vitna ég ekki í það, sem ég hef reiknað út sjálfur, ég vitna í opinbera skýrslu, þá skýrslu, sem fylgir frv., sem við erum að ræða. Því er spáð, að á þessu ári muni vöxtur þjóðarteknanna verða tæplega 2%. (Forsrh.: Það er ekki sama, hvernig með þær er farið.) Það eru nákvæmlega sambærilegar tölur, reiknaðar af sömu mönnum, sömu stofnuninni. M.ö.o.: á árinu í ár verður vöxtur þjóðartekna tæplega 1/6 af því, sem fyrrv. stjórn var búin að koma þeim upp f. Einfaldari og skýrari dóm er ekki hægt að fá um það stjórnleysi, sem hér hefur ríkt í undanförnum þremur góðærum.

Ég skal hverfa frá þjóðartekjunum. Sumum kynni að finnast þetta vera almennar tölur. Þetta eru tölur, sem lúta að þjóðarbúskapnum í heild og segja ekki sögu nema um einstakar atvinnugreinar. (Gripið fram í.) Já, já, þær eru á borðinu mínu, ég gæti svo sem sótt þær, ef á þyrfti að halda. Það er ósköp lítill vandi. Ég var búinn að nefna svo margar tölur, að mér fannst þetta vera alveg nóg, að bera saman þegar þið tókuð víð og hvernig þið skiljið við. Það er það, sem skiptir máli (Gripið fram í.) Ja, þetta er einhver sú mesta játning og svívirða, sem hægt er að hugsa sér. Hugsa sér, 9.5% í fyrra og tæplega 2% núna, á einu ári er hrunið úr 9.5% niður í tæplega 2%. (Gripið fram í.) Spáin er þetta, en a.m.k. er staðreyndin sú, — ég er óvanur því að vera beðinn um fleiri tölur en ég nefni satt að segja, — en ef ég læsi tölurnar, ef ég færi úr stólnum og næði í bókina, sem er þarna á borðinu, og læsi tölurnar fyrir 1971, 1972, 1973 og spána fyrir 1974, þá er töluröðin niður á við öll árin. Það er lækkandi vöxtur öll árin ofan í botninn á sjálfu þjóðhátíðarárinu, og það er stjórnarherrunum ekki til sóma að halda upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar í landinu með því að hafa lægstan vöxt þjóðartekna í áratugi.

Þetta eru kannske of almennar tölur. Menn segja: Það er ekki nóg að taka bara þjóðartekjurnar í heild. Við viljum vita eitthvað um einstaka atvinnuvegi. Við höfum líka heimild um það. Og nú skulum við athuga, hver var afkoma einstakra atvinnuvega, þegar ríkisstj. tók við, og hvernig hún segir sjálf, að afkoman sé í dag.

Í skýrslunni, sem við höfum fengið, segir ríkisstj., að ef ekkert verði að gert, muni frystiiðnaðurinn á þjóðhátíðarárinu tapa einhvers staðar á milli 2200 og 2400 millj. kr. Það er hvorki meira né minna en 20–22% af tekjunum. Nú skal ég sýna, hvað hann græddi, áður en þið tókuð við, áður en Lúðvík Jósepsson tók við. (Gripið fram í.) Má ég fá að tala í friði? Nú er spurningin sú, um það er engin deila, að á þessu ári verður, ef ekkert verður að gert, og jafnvel þó að það verði gert, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, verður halli á frystiiðnaðinum, sem er spáð í kringum 1000 millj., — en verði ekkert að gert, verður hann um 2200–2400 millj. En hvernig var ástandið í frystiiðnaðinum árin áður en núv. stjórn tók við? Ég hef hér tölur um afkomu frystiiðnaðarins 1969, 1970 og 1971, opinberar tölur úr opinberum skýrslum. 1969 græddi frystiiðnaðurinn 434 millj. kr. 1970 græddi hann um 407 millj. kr., heldur minna. 1971 græddi hann 604 millj. kr. Það hafði verið halli á honum 1967 og 1968, en þeim halla var búið að snúa í hagnað. Það var hagnaður öll árin 1969, 1970 og 1971, hálfur milljarður í hagnað 1971. Nú er ástandið þannig, að spáð er, ef ekkert er að gert, yfir 2000 millj. kr. halla. Eitt dæmið enn um árangurinn af stjórnarstefnunni.

Við stundum fleiri atvinnuvegi en fiskiðnað, t.d. saltfisk- og skreiðarframleiðslu. Í grg. segir, að það verði tap í ár af saltfisk- og skreiðarframleiðslunni. Það er að vísu ekki eins mikið og í frystihúsunum, og það er ekki nefnd nein sérstök tala, það er ekki áætlað, hvert tapið muni vera. Það er sagt, ríkisstj. segir sjálf: Það verður tap á saltfisk- og skreiðarframleiðslunni á þjóðhátíðarárinu. — En hvernig var árið áður en stjórnin tók við. Ég hef tölur, opinberar tölur um. afkomuna 1969, 1970 og 1971. 1969 var gróði saltfisk- og skreiðarframleiðslunnar 131 millj., 1970 var hann 174 millj. og 1971 184 millj., vaxandi gróði öll þrjú árin, áður en blessuð núv. ríkisstj. tók við, og nú er orðið tap á þessum atvinnuvegi.

Hvernig er með bátaflotann? Ríkisstj. segir okkur og segir þjóðinni, að í ár sé væntanlegt á bátaflotanum tap um 700 millj. kr. Hvernig var afkoma bátaflotans árið áður en ríkisstj. tók við? Enn hef ég opinberar tölur um þetta. 1969 græddi bátaflotinn 272 millj., allt að frádregnum afskriftum og sköttum, — græddi nettó 272 millj. kr., 1970 430 millj. kr., 1971 606 millj. kr., og nú á hann að tapa kringum 700 millj. kr. á þjóðhátíðarárinu.

Hvað er um togarana? Stjórnin segir okkur, að væntanlega muni verða tap á rekstri togaranna í ár einhvers staðar í kringum einn milljarð, 1000 millj. kr. En hvernig var áður en stjórnin tók við. 1969 var gróði togaranna að vísu ekki mikill. hann var 35 millj. kr. Það var of litið. Það var þó gróði en ekki tap. 1970 var gróðinn 38 millj., enn of lítið. 1971 því miður enn minni, hann var 21 millj., auðvitað of litið, en þó gróði. Það er þó skárra að hafa 21 millj. kr. gróða á heilli atvinnugrein heldur en væntanlegt 1000 millj. kr. tap.

Hér hef ég rætt um útflutningsatvinnuvegina, og í þessu sambandi má geta þess, að það var fyrrv. ríkisstj., sem kom upp Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins með skynsamlegustu ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í íslenskum efnahagsmálum um langt skeið. Þrátt fyrir þessa afkomu þeirra útflutningsatvinnugreina, sem ég hef nefnt, eða samfara henni greiddu þessar greinar góðfúslega í Verðjöfnunarsjóðinn: 1970 390 millj. og 1971 685 millj. kr. Þetta lýtur að s jávarútveginum.

Við stundum líka iðnað. Í grg. frv. eru því miður engar tölur um afkomu iðnaðarins. Er kannske ekki við því að búast, eins og allri skýrslugerð um athugun á högum iðnaðarins er háttað? Það er fullyrt, að í ár muni verða tap á íslenskum iðnaði, bæði einkaiðnaði og samvinnuiðnaði, bæði þeim iðnaði, sem flytur út, og þeim iðnaði, sem framleiðir fyrir heimamarkað. Þetta er ábyggilega rétt. Það verður í ár tap á íslenskum iðnaði yfir höfuð að tala. En ætli hann hafi verið rekinn með tapi, áður en stjórnin tók við? Hvað skyldu opinberar skýrslur segja um það? Þær skýrslur, sem eru til núna, vegna þess að sá tími er liðinn, að hægt hefur verið að gera þá fortíð nákvæmlega upp, — þær segja um iðnaðinn á árinu 1969, að þá hafi hann grætt 147 millj. kr., auðvitað að frádregnum afskriftum og sköttum. 1970 óx gróðinn, hagur iðnaðarins batnaði. Það var búið að sigrast á efnahagserfiðleikunum, og gróði iðnaðarins var þá 292 millj. kr. Enn kom efnahagsbatinn skýrt í ljós í því, að 1971 jókst hagnaður iðnaðarins upp í 422 millj. kr. Á þremur árum, áður en stjórnin tók við, óx hagnaður iðnaðarins úr tæpum 150 millj. upp í rúmar 400 millj. kr. Hvernig er komið nú eftir þriggja ára óstjórn, eftir þriggja ára stjórnleysi? Nú verður iðnaðurinn, önnur mikilvægasta atvinnugrein landsmanna, rekinn með tapi.

Um landbúnaðinn er því miður ekki til hliðstæðar upplýsingar þessum, hvorki um væntanlegar horfur í ár né heldur um afkomu fram í tímann, og ber í sjálfu sér að harma það. Þess vegna get ég engar hliðstæðar tölur birt um land búnaðinn.

Þessi vitnisburður er alveg ótvíræður og hrekkur eins greinilega og hrakið verður, hvílík regin firra það er, að ríkisstj. hafi ekki á sínum tíma tekið við blómlegu búi. Það var um að ræða stórkostlegan vöxt þjóðartekna. Það var búið að sigrast á erfiðleikunum, og það var um að ræða stórkostlegan vöxt þjóðartekna og batnandi hag í öllum meginatvinnuvegum landsmanna, eins og þessar opinberu skýrslur tvímælalaust sýna fram á. En sá bati, sem kominn var árið 1971, sá hagnaður, sem atvinnuvegir þá voru farnir að búa við, er horfinn. Öllu er snúið í tap, allt er að fara á hausinn. Þetta er árangurinn af stjórnarstefnunni.

Nú þarf að huga að fleiru en bara almennum þjóðartekjum og afkomu atvinnuveganna. Það skiptir auðvitað meginmáli, hver er raunveruleg afkoma fólksins í landinu. Það er eitt af uppáhaldsdeiluefni stjórnmálamanna og blaðamanna, hvernig eigi að mæla kjarabreytingar, sem verða frá ári til árs, og bera saman raunveruleg kjör einstakra stétta. Ég ætla ekki að ræða það mál almennt, heldur bara láta mér duga að segja, að líklega megi segja, að einfaldasti og ólygnasti mælikvarðinn á kjarabreytingu frá einu ári til annars sé að bera saman svokallaðan kaupmátt ráðstöfunartekna. Um þetta hugtak, ráðstöfunartekjur, eru til opinberar skýrslur mjög mörg ár aftur í tímann. Með ráðstöfunartekjum er átt við atvinnutekjur launþega, að frádregnum sköttum. Það er í fyrsta lagi bókstaflega ekkert vit í því að bera saman taxta og taxtabreytingar. Menn lifa ekki á töxtum, menn lifa á raunverulegum tekjum. Menn lifa á atvinnutekjunum. Það eru þær, sem eru mælikvarðinn á það, hvort kjör eru að versna eða batna. Frá atvinnutekjunum verður auðvitað að draga skattana, því að menn nota ekki í eigin þágu það, sem þeir borga til ríkis eða sveitarfélags. Og ef tekjur manns eru óbreyttar frá ári til árs, en skattarnir hækka, þá versna kjörin. Þess vegna hafa opinberar hagstofnanir reiknað út hugtakið ráðstöfunartekjur, sem eru atvinnutekjur að frádregnum sköttum. Það eru til tölur nokkuð langt aftur í tímann um kaupmátt ráðstöfunarteknanna. Talið er, að í fyrra hafi ráðstöfunartekjur aukist um 3% miðað við árið áður. En hvernig skyldi þetta hafa verið 3 árin áður en ríkisstj. tók við völdum?

Ég skal láta þess getið, — ég hef enga tilraun gert til þess að draga neitt undan og skal engan slíkan höggstað gefa á mér eftir á, — að á erfiðleikaárunum 1968 og 1969, sem sigldu í kjölfar síldarleysis- og verðfallsáranna, lækkuðu ráðstöfunartekjur, — það kom fram á tekjum fólksins 1968 og 1969, — þær lækkuðu 1968 um 7.4% og 1969 um 7.3%. Þetta voru afleiðingar síldarleysisins og aflabrestsins, sem enginn hefur nokkurn tíma borið á móti, að raunverulega hafi átt sér stað. En eins og ég sagði áðan, líka í þessum efnum tókst að snúa hjólinu við, snúa þróuninni við. Í kjölfar batans í atvinnuvegunum, í kjölfar aukningarinnar á almennum þjóðartekjum kom á sínum tíma aukning á kaupmætti ráðstöfunartekna. 1970 var batinn farinn að bera fullan árangur, þá jukust ráðstöfunartekjur um 14.5% og á árinu 1971 um meira en 15.5%. Þær hafa aldrei aukist á einu ári um jafnmikið og á árinu 1971, um 15.5%.

Nú vill svo vel til, að ég hef töluna, sem menntmrh. var að biðja um hér áðan, fyrir 1972 og 1973. Mikið er hann heppinn — eða óheppinn, þegar hann heyrir tölurnar. 1971 var vöxtur ráðstöfunartekna kominn upp í 15.5%, 1972 var hann bara 12.5%. Ég hef ekki töluna 1973, ég hef einungis töluna í spánni um þjóðartekjurnar á mann 1974, sem er, eins og ég sagði áðan, tæplega 3%. Mig vantar hér á blaðið vöxt þjóðarteknanna, svo mikið hafa þær ekki lækkað. Ég get bætt því við seinna, ef ég kynni að tala aftur. Þá skal ég koma með réttu töluna um árið 1973, í fyrra. En það skiptir raunverulega ekki máli. Það, sem mestu máli skiptir, er, hvernig horfurnar eru í ár. Ég var búinn að nefna áðan, að í ár er gert ráð fyrir aukningu þjóðartekna á mann um aðeins 2%. M.ö.o.: það hefur aldrei sigið meira á ógæfuhlið en væntanlega gerir í ár, ef ekki tekst að koma stjórnartaumunum í hendur einhverra skynsamari og ábyrgari manna en haldið hafa á málum undanfarin þrjú ár.

Þetta var um kaupmátt ráðstöfunartekna. Það er sama sagan. Hann var í stórkostlegri aukningu tvö síðustu árin, áður en stjórnin tók við, en vöxtur kaupmáttar ráðstöfunarteknanna hefur minnkað ár frá ári á þessum þremur árum og er núna í lágmarki þess, sem hefur verið undanfarin a.m.k. 20 ár.

Enn skal ég nefna eina stærð, sem er mikilvæg fyrir matið á efnahagsástandinu, og það er staða gjaldeyrisvarasjóðsins. Hæstv. viðskrh. gumaði af því í útvarpsumr. í gærkvöld, að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri yfir 7 milljarða og hefði aldrei verið hærri. Auðvitað sagði maðurinn ósatt, eins og hann er vanur að gera, þegar hann fer með tölur um efnahagsmál. Hann var í febr. 1974 7045 millj., það var satt. Hitt er ósatt, að hann hafi aldrei verið hærri, því að í árslok 1973 var hann 8406 millj., og ég vona, að ráðh. sé mér sammála um, að 8406 sé hærri tala en 7045. En hvernig er samanburðurinn á vexti gjaldeyrisvarasjóðsins undanfarin ár og árin áður en núv. stjórn kom til valda? í árslok 1968 var gjaldeyrisvarasjóðurinn 2512 millj. Í árslok 1971 var hann 6034 millj. Hann hafði m.ö.o. vaxið á árunum 1968–1971 um 3522 millj. Á þremur árunum 1968–1971 óx gjaldeyrisvarasjóðurinn í verðgildi þeirrar krónu um 3522 millj. kr. Frá árslokum 1971 til febrúarloka 1974, — það er síðasta talan, sem ég hef náð til, — hefur hann vaxið um 1011 millj. kr. Hann hefur vaxið, það er rétt, ef tímabilið er tekið í heild, en ekki nema um 1011 millj. kr., þriðjung þess, sem hann óx um 3 ár áður en núv. ríkisstj. tók við völdum. Hann hefur minnkað frá því í árslok 1973 úr 8406 millj. í 7045 millj., eins og hann var í febrúarlok 1974.

Eitt skal ég nefna enn og skal vera það næstsíðasta, sem ég nefni, og það eru erlend lán, sem skipta miklu máli fyrir mat á afkomu þjóðarbúsins. Í árslok 1973 voru erlend lán þjóðarinnar 20 milljarðar og 977 þús. kr., tæpur 21 milljarður. Í árslok 1970, áramótin áður en stjórnin tók við völdum, eru erlendar skuldir 11095 millj., rúmir 11 milljarðar. Aukning erlendra skulda frá 1970 til 1973 hefur m.ö.o. verið 9882 millj. eða 89%. Hvað jukust erlendar skuldir mikið á þremur árum, áður en stjórnin tók við völdum? 1967 voru erlendar skuldir í árslok 6576, í árslok 1970, eins og ég sagði áðan, 11095, þær höfðu aukist um 4519 millj. kr. eða 68%. Þær jukust um 68% á þremur árum, áður en stjórnin tók við völdum, en á þrem árum, eftir að hún kom til valda, jukust erlendar skuldir um 89%.

Þessari upptalningu skal ég svo ljúka með því að minna á fjárl., þegar ég horfi framan í hæstv. fjmrh., sem skrifar þetta hjá sér. Ég veit, að það þarf ekki langa ræðu til þess að minna hann á, að hann hefur afrekað það að þrefalda fjárl. á þeim þremur árum, sem hann hefur setið við völd. Það er met, algert met. Það hefur enginn fjmrh., a.m.k. í Vestur-Evrópu, — það finnst kannske einhver í Suður-Ameríku eða Afríku, sem hefur gert annað eins, — en í Vestur-Evrópu er áreiðanlega enginn fjmrh., sem hefur afrekað það að þrefalda útgjöld fjárl. á þremur áratugum, sem hann hefur verið við völd, — nei, á þrem árum, fyrirgefið þið. — Guði sé lof, að maður þarf ekki að segja, að hann hafi völd í þrjá áratugi, þá mætti þjóðin biðja fyrir sér. Manni getur orðið mismæli, þegar farið er með aðrar eins fjarstæðutölur og þessa. Sannleikurinn er sá, að saga fjmrh. er ekki öll sögð með því að benda á, að hann hafi þrefaldað útgjöld fjárl. Ef hann gæti nú sagt þrátt fyrir þreföldun fjárl., að hagur ríkissjóðs stæði með blóma, þá yrði dómurinn kannske eitthvað ofurlítið öðruvísi. En þegar þarf að bæta því við, að það er stórkostlegur greiðsluhalli á ríkissjóði í ár, stórkostlegur greiðsluhalli, þá sést, hversu dökk myndin í raun og veru er. Ríkissjóður er botnlaus, botninn einhvers staðar í Borgarfirðinum, í kjördæmi hæstv. fjmrh.

Niðurstaðan af þessum staðreyndum, þetta eru allt staðreyndir — (Gripið fram í.) Já, ég hefði gaman af því. Ósköp eru ráðherrarnir órólegir. Hafa þeir virkilega ekki vitað þetta? Eru þeir að láta mig nú eftir 3 ár kenna þeim það, sem þeir áttu að vera búnir að lesa í 3 ár (Gripið fram í: Það er ljóta kennslan.) Ja, ég hef nú satt að segja ekki gert annað en lesa upp tölur úr bókum, sem ráðh. sjálfir hafa gefið út. Ef maður má ekki trúa því, sem þeir gefa út, láta prenta, þá er ekki von, að maður trúi því, sem þeir segja. Ég endurtek: Hver einasta tala, sem ég hef nefnt, er úr opinberum skýrslum, sem gefnar hafa verið út á vegum opinberra stofnana, á vegum ríkisvaldsins: Það er alveg þýðingarlaust fyrir ráðh. að þræta fyrir þetta. Það sýnir bara taugaveiklun og ekkert annað. Þessi frammíköll bera í raun og veru vott um eitt, og það er það, að tekist hefur að koma ofurlitið við samviskuna í þeim. Annars held ég að þeir mundu þegja.

Það er varla hægt að hafa meiri ósannindi í frammi um efnahagsmál en halda því fram, að núv. ríkisstj. hafi tekið við íslenskum efnahagsmálum í erfiðu ástandi og rekja megi vandann í dag til þess. Sannleikurinn er þvert á móti sá, að hún hefur eyðilagt gott ástand með óstjórn og hún hefur eyðilagt það í mesta góðæri, sem yfir íslenska þjóð hefur gengið. Ástæðan til þess, hversu illa hæstv. ríkisstj. hefur tekist til, er auðvitað fyrst og fremst sú, að hún er ósamlynd og hefur verið ósamhent. Hún hefur verið forustulaus. Því miður hefur hæstv. forsrh. skort þá forustudjörfung, sem forsrh. þarf að hafa, ekki síst þegar hann hefur baldið lið til að stjórna. Þeim mun meiri nauðsyn er á festu og forustu, það hefur því miður skort. En ég vil ekki leggja meginábyrgðina á því, sem illa hefur farið, á hæstv. forsrh. Meginábyrgðina vil ég leggja á ábyrgðarlausa samstarfsmenn hans, á ábyrgðarlausa samstarfsflokka hans.

Forustuleysi forsrh. og ábyrgðarleysi samstarfsmanna hans hefur orðið þess valdandi, að það hefur engin heildarstefna verið mótuð í efnahagsmálum. Það hefur í raun og veru ekki verið til ríkisstj. á sviði efnahagsmála, heldur hafa verið til 7 ráðherrar, sem hver hefur gert það, sem þeim hefur sýnst, stefnt hver í sína átt. Þess vegna hefur heildarstefnan engin orðið. Þetta er því miður sannleikurinn í málinu. Þetta er því miður skýringin á því, hversu illa hefur til tekist, fyrir íslenska þjóð.

Það er ekki bara stefnan í efnahagsmálum, sem hefur misheppnast Stjórninni hefur misheppnast bókstaflega allt, sem hún hefur tekið sér fyrir hendur og nokkru verulegu máli skiptir. Það lá við, að henni mistækist stefnan í mesta og mikilvægasta máli þjóðarinnar, landhelgismálinu. Það, að landhelgismálið er þó komið í þá höfn, sem það er komið, eigum við framtakssemi hæstv. forsrh. að þakka. Þess, sem hann gerir vel, þess, sem hann gerir rétt, skal hann sannarlega fá að njóta, a.m.k. af minni hálfu. Hæstv. forsrh. mun verða minnst um alla framtíð fyrir framtak hans og forustu í landhelgismálinu. (Gripið fram í: Þetta er mismæli.) Nei, nei, þetta var ekki mismæli. Ég skal endurtaka það, ef ráðh. vill. (Gripið fram í.) Já, já, mikið er maðurinn hégómlegur. En ég skal gjarnan gera hæstv. ráðh. þá ánægju að segja, að sú stjórnarathöfn hans, sem hans mun lengst verða minnst fyrir og hann á þakkir alþjóðar skilið í nútíð og framtíð, var það, að hann skyldi taka forustu landhelgismálsins í sínar hendur úr þeim óheillahöndum, sem málið var í, og á ég þar fyrst og fremst við hæstv. sjútvrh. (Gripið fram í.) Þetta vita allir, og þarf ekki að endurtaka það. Þetta þarf ekki að segja, því að þetta er þegar orðið alkunnugt. Það vita allir, hvað gerðist. Málið var komið í algera sjálfheldu, og þá gerði hæstv. forsrh. það, sem slíkur maður í slíkri stöðu á að gera. Hann tók málið í sínar hendur og leysti málið. Hann hlaut stuðning stjórnarandstöðunnar yfirleitt. En hlaut hann stuðning sinna eigin manna? Ónei, hann hlaut ekki stuðning Alþb. Þingflokkur þess gerði einróma, að því er manni skilst, samþykkt gegn sínum eigin forsrh. Ef hann hefði þá látið undan, væri landhelgismálíð enn í sjálfheldu. Þá væri sigurinn ekki unninn, sá sigur, sem við sem betur fer nú þegar höfum unnið. Sá sigur er að þakka því eina skipti, sem forsrh. tók á sig rögg. Hann hefði betur gert það oftar gagnvart samstarfsmönnum sínum. En þarna gerði hann það, þarna vann hann sigur, og af því naut þjóðin góðs. Hún naut góðs af því, að stefna Alþb. fékk ekki að ráða í málinu. Að vísu kom í ljós, að ráðh. þess hafa býsna vítt kok og kyngdu fyrri yfirlýsingum. Ég þakka þeim það ekki nokkurn skapaðan hlut, því að þeir voru búnir að sýna hug sinn í málinu áður.

Þó að ég þakki forsrh. fyrir dugnað hans, þá þakka ég ráðh. Alþb, ekki fyrir að kyngja rangri stefnu.

Ég skal víkja nokkrum orðum að varnarmálunum. Stefnan í þeim og aðgerðirnar eða aðgerðarleysið réttara sagt er alveg nákvæmlega sama markinu brennt. Munið þið ekki eftir yfirlýsingunum fyrstu mánuðina eftir að ríkisstj. kom að völdum, hvað ætti að gera í varnarmálunum. Það átti að reka herinn úr landi á kjörtímabilinu og sem allra fyrst. Örugglega átti hann að vera farinn úr landi á kjörtímabilinu. Nú eru liðin 3 ár, og hvað hefur skeð á þessum þremur árum? Það er nýbúið að leggja fram fyrstu till. íslensku ríkisstj. við Bandaríkjamenn? Það liðu næstum þrjú ár, — þetta skal ég endurtaka, — það liðu næstum 3 ár, og það er nýbúið að leggja fram fyrstu till. íslensku ríkisstj. um endurskoðun varnarsamningsins, sem var eitt af aðalatriðunum í málefnasamningi ríkisstj. Og Bandaríkjamönnum hefur verið gefinn svo langur frestur til þess að svara, að öllum er ljóst, að það verður enginn nýr samningur gerður og samningnum auðvitað ekki sagt upp, áður en kosningar fara fram, því að við erum allir sammála um það, að því er virðist, að þær eigi að fara fram í síðasta lagi í haust. Hverjum dettur í hug í alvöru, — ég spyr: hverjum dettur í hug í alvöru, að þessi stjórn, þó að henni takist að lifa, sem henni auðvitað tekst ekki, — en þó að henni tækist að lifa, hvernig ætti hún að geta verið búin að gera nýjan samning við Bandaríkin eða segja samningnum upp fyrir kosningar í haust? M.ö.o.: í þessu aðalmáli ríkisstj. hefur ríkt deyfð og slen, alger aumingjaskapur, sem er auðvitað þeim til mestrar háðungar, sem mest tóku upp í sig í sambandi við þetta mál, og það voru ráðh. Alþb. Þeir tóku mest upp í sig í sambandi við það, og þeir hafa í reynd orðið að kyngja öllum stóru orðunum. Þegar þeir innan skamms hrekjast frá völdum, hefur ekkert skeð í því, sem þeir kalla herstöðvamál, bókstaflega ekki neitt, nema lagt hefur verið fram eitt plagg í Washington, sem enginn tekur alvarlega, ekki einu sinni starfsmenn þeirra.

Þetta er þátturinn um varnarmálin. Hitt er rétt, sem meginefni ræðu minnar hefur fjallað um, að verstar eru framkvæmdir ríkisstj. í efnahagsmálum. Um þær er sá einfaldi sannleikur augljós, að engin ríkisstj. á Íslandi hefur haft aðra eins möguleika í efnahagsmálum og núv. ríkisstj., því að engin ríkisstj. hefur verið við völd í jafnmiklu góðæri, en engin ríkisstj. hefur nýtt möguleikana jafnilla og þessi ríkisstj. Þess vegna er það, þegar hún kveður, sem væntanlega verður innan skamms, hefur engin ríkisstj. skilið verr við en sú, sem nú er væntanlega að kveðja á næstunni.

Síðustu orð mín skulu vera þau að minnast endaloka stjórnar Hermanns Jónassonar, sem ég átti sæti í á sínum tíma. Hún gafst upp fyrir efnahagsvanda eftir 2 ár. Nú eru liðin rúmlega 21/2 ár, frá því að þessi stjórn tók við völdum. Ég man vel þá daga og vikur og mánuði, sem voru undanfari þess, að sú stjórn sagði af sér. Ég man vel aðdraganda þess, að Hermann Jónasson viðurkenndi staðreyndir, viðurkenndi þær staðreyndir, að stjórnin gæti ekki leyst efnahagsvandann, það væri ekki samstaða um nein úrræði til að leysa efnahagsvandann. Hermann Jónasson var kjarkmikill og dugmikill stjórnmálamaður, og hann var drenglyndur stjórnmálamaður. Mikið hefur ýmsum farið aftur, síðan hann var og hét.

Nú er hangið og hangið. Það er hangið í ráðleysi og vandræðum, það er hangið í ósamkomulagi og jafnvel gagnkvæmri óvild, en hangið samt. Hvers vegna? Þjóðin hlýtur að spyrja: Hvers vegna? Hvers vegna situr enn stjórn, sem allir vita, að er í raun og veru sprungin? Er það þrákelkni? Er það bara þrái? Eða er það almennur sljóleiki? Eða er það hégómaskapur, eins og bar hér ósjálfrátt á góma áðan? Eða kynni það að vera valdafíkn? Ekki veit ég, hvað það er. Sagnfræðingar seinni tíma munu eflaust reyna að finna það út. En það er sannarlega mál, að valdatíma þessarar stjórnar ljúki. Ríkisstj. er sundurlynd, hún er úrræðalaus, hún er óstarfhæf, hún á að fara. Það er þess vegna, sem við þm. Alþfl. munum greiða atkv. gegn þessu frv. þegar við 1. umr. þess.