06.05.1974
Efri deild: 117. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 93 frá 1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem fjallar um að setja á fót íbúðalánadeild við Byggðasjóð, sem er hjá Framkvæmdastofnuninni, eins og kunnugt er.

Borist hafa tvær umsagnir um þetta mál, frá Framkvæmdastofnun ríkisins og frá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Báðar umsagnir eru mjög meðmæltar frv. Umsögn Framkvæmdastofnunarinnar getur þess að vísu, að e.t.v. væri þessi deild betur staðsett að öllu hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Mér þykir í því sambandi rétt að geta þess, að um þetta var allmikið rætt hjá byggðanefnd, sem gengst fyrir flutningi þessa frv., og í frv. er raunar gert ráð fyrir því, að öll afgreiðsla á slíkum lánum verði hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Hins vegar var að vel athuguðu máli ekki talið rétt, að Húsnæðismálastofnunin sjálf hefði hjá sér slíka mismunun í lánsupphæð eftir búsetu. Var talið eðlilegra að hafa þetta hjá Byggðasjóði, enda hefur Framkvæmdastofnunin með byggðamál að gera, og ætti að vera best fær um að meta, hvar þörf er sérstök fyrir slík örvunarlán.

Í umsögn Húsnæðismálastofnunarinnar, þar sem einnig er mælt ákveðið með samþykkt frv., er lagt til, að gerð verði á því smávægileg breyt., þannig að við 2. gr. á eftir orðunum: „m.a. hámark lána og skiptinga á landssvæði“ komi: að höfðu samráði við húsnæðismálastjórn. Hefur félmn. gert þetta að sinni till.

N. mælir einróma með samþykkt frv., en tveir hv. þm., Auður Auðuns og Þorv. Garðar Kristjánsson, skrifa undir með fyrirvara.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta, ég mælti ítarlega fyrir þessu frv. við framsögu. Ég vil aðeins undirstrika það, að þetta frv. er flutt af byggðanefnd þeirri, sem starfað hefur upp á síðkastið að bæði einstökum málum, sem til jafnaðar geti orðið á milli landsbyggðarinnar og þéttbýlisins, og er þetta eitt af þeim málum. Sú n. starfar jafnframt að gerð almennrar stefnu í byggðamálum.