06.05.1974
Neðri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

253. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í áliti landbn. á þskj. 785, hefur n. orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, en þó hafa einstakir nm. skrifað undir álitið með fyrirvara um að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, og áskilja sér einnig rétt til að flytja sjálfir brtt. Við þrír nm. höfum lagt fram brtt. við 2. brtt. n. um það, að tillgr. orðist eins og segir á þskj. 810. Auk mín flytja þessa brtt. hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, og hv. 2. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson. Þessi till. við brtt. n. felur í sér, að framlög til íbúðarhúsa í sveitum og til gróðurhúsa skuli hér eftir sem hingað til greidd út af Landnámi ríkisins eftir lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45 frá 1971, en ekki flytjast til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Búnaðarfélags Íslands, eins og gert er ráð fyrir í þeim stjfrv., sem hér liggja fyrir.

Það kom fram í ræðu hv. frsm. n., Stefáns Valgeirssonar, að meiri hl. n. hefur lagt fram till. um, að Landnám ríkisins skuli starfa áfram. Þessu er ég fyllilega sammála. En það hlýtur að fylgja þeirri afstöðu, að Landnám ríkisins hafi í sínum höndum þau verkefni, sem það hefur í dag og vel hefur gefist, að það fari með. Ef það er einhver meining í því hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og þeim, sem nú hafa snúið frá þeirri villu að leggja Landnám ríkisins niður, þá hlýtur það að fylgja, að Landnám ríkisins skuli áfram hafa einhver verkefni með höndum. Meðal þeirra verkefna eru þau, sem hér er um rætt, að Landnám ríkisins greiði áfram út framlög til íbúðarhúsa og til gróðurhúsa. Landnám ríkisins fjallar um þessi efni. Landnámsstjórn tekur ákvörðun um, hvaða íbúðarhús í sveitum séu styrkhæf, það samþykkir stofnun nýrra býla og það samþykkir stofnun nýrra garðyrkjubýla, svo að þessi mál koma hvort eð er til landnámsstjórnar, og er því um að ræða aukna vafninga og flækju í meðferð þessara mála, ef þessi framlög verða fengin öðrum aðilum í hendur.

Ég sé ekki ástæðu til þess, vegna þess að hér er um einfalt og lítið málefni að ræða, að fara um þetta mörgum orðum. Till. okkar þremenninga felur það í sér, eins og áður sagði, að framlögin greiðist samkv. 61. gr. landnámslaga, eins og gerst hefur, en við bætist ákvæði um vísitölutryggingu þessara framlaga með nákvæmlega sama hætti og gert yrði með samþykkt till., sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, mælti hér fyrir áðan. Breytingin er einungis í því fólgin, að við leggjum til. að þessi framlög verði áfram í höndum l.andnáms ríkisins og verði vísitölutryggð, en ekki færð í hendur annarra aðila.