06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3795)

Umræður utan dagskrár

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs og óskað þess, að fundur væri haldinn í Sþ. vegna atburða síðustu daga og dagsins í dag.

Hæstv. forsrh. hélt framsöguræðu fyrir frv. til l. um efnahagsmál fyrir nokkrum dögum og sagði þá orðrétt:

„Sá ráðh., sem vill firra sig ábyrgð á flutningi þess (þ.e.a.s. frv. um efnahagsmál), hefur þrátt fyrir orðsendingu og bókanir á elleftu stundu aðeins eitt úrræði.“

Fréttaskýrendur sögðu þá þegar, að þetta eina úrræði væri að áliti forsrh. að biðjast lausnar. (BGuðn: Það er rétt mælt.) Er það hæstiréttur, sem talar? Eða er það kannske rödd úr eyðimörkinni?

Þessi ummæli hæstv. forsrh. leiddu til þess, að sá ráðh., sem skeytið var sent og látið berast honum á sjúkrasæng í útvarpi, án þess að hæstv. forsrh. hefði svo mikið við að snerta símatækið eða tala við viðkomandi ráðh. sinn persónulega, hv. 3. landsk. breytir því ekki í gamanleik, svo mikið er víst, — afleiðingin varð sú, að Björn Jónsson félm.- og samgrh. sendi forsrh. svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 4. maí 1974.

Hr.forsrh., Ólafur Jóhannesson, Reykjavík. Sökum þess að þér hafið nú lagt fram á Alþ. sem stjfrv. frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu og aðrar ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum, þrátt fyrir það að ég hef ekki viljað eiga aðild að flutningi frv., bæði vegna ágreinings um mikilvæg efnisatriði og málsmeðferð, sé ég mig knúinn til að æskja þess, að þér, herra forsrh., hlutist til um án tafar, að mér verði veitt lausn sem ráðherra samgöngu- og félagsmála í ráðuneyti yðar.

Þá bárust mér í gærkvöld í útvarpi fréttir af ummælum, sem þér viðhöfðuð í framsöguræðu fyrir framangreindu frv., en þau verða á engan annan hátt skilin en að það sé ósk eða tilmæli yðar, að ég biðjist lausnar úr rn. Styðja þessi ummæli yðar lausnarbeiðni mína og gera hana í raun óhjákvæmilega.

Virðingarfyllst,

Björn Jónsson.“

Þegar þetta hafði gerst sem afleiðing af ummælum forsrh., sem ég hygg einstök í stjórnmálasögunni, blasti það við, að það var vitanlega óþolandi ástand til lengdar, að annar ráðh. SF væri utan ríkisstj. og hinn innan hennar, og tók því flokkur SF málið til meðferðar, hélt framkvæmdastjórnarfund og fund þingmálanefndar og ræddi um þessi mál, en þingflokkurinn tók síðan málið til afgreiðslu. Sá fundur var haldinn í dag, og þar var tekin þessi ákvörðun, með leyfi hæstv. forseta, — það er bréf til hæstv. forsrh., það er afhent honum persónulega í dag kl. 11.15, og var sannarlega ætlun mín, að það yrði næst tilkynnt Alþingi Íslendinga, en ekki útvarpi og sjónvarpi, og það er gert án minnar vitundar og míns vilja, enda siðleysi. Bréfið til forsrh. er svo hljóðandi:

„Reykjavík, 6. maí 1974.

Svo hljóðandi samþykkt var gerð á þingflokksfundi SF í dag:

Þar sem Björn Jónsson samg.- og félmrh. hefur séð sig tilneyddan að segja af sér sem ráðh. sökum ágreinings um efni og flutning frv. um efnahagsmál og auk þess vegna ummæla forsrh. á Alþ., lýsir þingflokkur SF því yfir, að hann staðfestir lausnarbeiðni Björns Jónssonar, getur ekki lengur átt aðild að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og afturkallar hér með tilnefningu ráðherra sinna: Enn fremur lýsir þingflokkurinn því yfir, að hann ber ekki lengur traust til ríkisstj. ólafs Jóhannessonar og skorar því á hann að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt “

Ályktun mín og míns þingflokks af þessu er svo aðeins sú, að grundvöllur þeirrar þriggja flokka ríkisstj., sem Ólafur Jóhannesson stofnaði til 14. júlí 1971, sé brostinn.