06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3796)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Á þingflokksfundi SF í morgun, eftir að atkv. höfðu gengið um bréf það, sem hv. 3. þm. Vestf. hefur lesið hér, og það hafði verið samþ. með 3 atkv. gegn atkv. mínu, óskaði ég eftir, að gerð yrði svolátandi bókun, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnmál snúast að minni hyggju um málefni frekar en menn. Ákvörðun Björns Jónssonar að biðjast lausnar úr ráðherraembætti er skiljanleg frá mannlegu sjónarmiði. En undirrót lausnarbeiðninnar er pólitísk afstaða, sem ég er ekki samþykkur og get ekki gert að minni með því að fallast á, að lausnarbeiðninni sé af hálfu SF fylgt eftir með því að slíta núverandi stjórnarsamstarfi. Við undirbúning frv. um viðnám gegn verðbólgu hef ég leitast við að fylgja fram þeirri stefnu, sem mörkuð var í samþykkt um efnahagsmál á síðasta flokksstjórnarfundi SF. Ég hef unnið heils hugar að undirbúningi þess máls og verð að láta hollustu við stjórnmálaafstöðu, sem þannig er mótuð, ganga fyrir persónulegu tilliti til samflokksmanna. Ég get ekki hvikað frá fylgi við meginstefnu í stórmáli, sem miklu getur varðað um heill og hag þjóðarinnar og komið er til kasta Alþingis, heldur hlýt að standa við þá afstöðu, sem ég tjáði fyrir fáum dögum í áheyrn alþjóðar við útvarpsumr. frá Alþingi.“

Eins og hv. alþm. heyra, felst í þessari bókun, að ég get ekki talið mig bundinn af þeirri samþykkt, sem á undan henni er gengin, og skýrði því þingflokknum frá því, að ég sæi mig tilknúinn, eins og mál nú standa, til að fella niður störf í þingflokknum.

Það má vera, að þunglega horfi nú um stundir fyrir núv. ríkisstj. En frá mínum bæjardyrum séð er málefnagrundvöllur hennar ekki brostinn. Ég hef ekki geð í mér til að hlaupa fyrir borð í brimróðrinum, þótt aðrir þreytist á róðrinum og sleppi árinni.