06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3798)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í deilur, árásir og orðaskipti fyrrv. samherja og stuðningsmanna núv. stjórnar. Sundrung, missætti og óheilindi innan núv. ríkisstj. hafa oft komið í ljós, og það er ekki vonum fyrr, að til stjórnarslita hefur komið. Þjóðarinnar vegna hefði þessi atburður gjarnan mátt eiga sér stað miklu fyrr.

Af þeim upplýsingum, sem þingheimur hefur heyrt, er ljóst, að núv. ríkisstj. hefur ekki meiri hl. Alþingis að baki sér, er ekki þingræðisstjórn, og getur því ekki lengur komist hjá því að segja af sér.

Þegar hæstv. forsrh. flutti stefnuræðu sína á s.l. hausti, lýsti einn stuðningsmaður ríkisstj., Bjarni Guðnason, því yfir, að hann treysti ekki núv. ríkisstj., og var þá strax ljóst, að ríkisstj. gat ekki með þingfylgi sínu komið lagafrv. fram á Alþ. Þegar litið er til þess, að ríkisstj. hefur ekki sýnt neina forustu eða stjórnsemi í efnahagsmálum fremur en öðrum málum á nær þriggja ára valdaferli sínum, þá var ljóst, að öll von var úti um bætt vinnubrögð á þessum vetri við slík skilyrði. Vissulega hefði því ríkisstj. þegar átt að segja af sér s.l. haust. Meðan hún hefur setið, hefur Alþ. ekki getað sinnt sem skyldi aðkallandi vandamálum. Því er nú svo komið, að ný holskefla óðaverðbólgu skellur nú yfir 1. júní n.k. að sögn ráðh, sjálfra. Dýrmætur tími til þess að snúast við vandamálum, hvað þá heldur að koma í veg fyrir þau, hefur því farið til spillis.

Nú verður ekki lengur dregið í efa, að ríkisstj. ber að fara frá, og munu sjálfstæðismenn í kjölfar gefinna yfirlýsinga hér í dag gangast fyrir, að flutt verði till. um vantraust á núv. ríkisstj.

Sjálfstfl. mun ekki nú fremur en fyrr skorast undan að taka á sig ábyrgð, sem nauðsynleg er til þess að leysa aðkallandi vandamál. En sjálfstæðismenn eru þeirrar skoðunar, að efna beri til kosninga svo fljótt sem allar aðstæður leyfa, svo að landsmönnum öllum verði gefinn kostur á að kveða upp dóm yfir ferli núv, ríkisstj. og að veita þeim, sem landsmenn treysta, nýtt óskorað umboð til að takast á við vandamálin, svo að byggja megi nýjan, traustan grundvöll að framfarasókn íslensku þjóðarinnar og tryggja öryggi hennar í framtíðinni.