06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3800)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um í upphafi máls míns að vekja athygli hv. þm, og þeirra, sem hlýða á þessar umr., á því, að hér var að fara úr ræðustól einn af hæstv. forsetum Alþingis. Það þurfti þó vegna óskammfeilni í orðbragði að vita þennan hv. þm. þrisvar úr forsetastól (BGuðn: Almenningur vill heyra sannleikann.) — þennan hv. þm., 3. landsk., sem allt til þessa og sjálfsagt enn hefur talið sig einn af menntuðustu þm. hér á hv. Alþ. og ætti því að gefa gott fordæmi um framkomu og alla mannasiði.

Þessi hv. þm. fór víða, en niðurstaða mín af máli hans er sú, að það eru greinileg sárindi inni fyrir hjá honum vegna þeirra atburða, sem nú hafa gerst. Frá honum hefur verið stolið senunni, eins og menn segja, hann er ekki lengur, eins og hann taldi sig vera, í sviðsljósi í pólitíkinni. Hann er enn frekar en hann nokkurn tíma áður hefur verið einn á hinni pólitísku eyðimerkurgöngu.

Það er ekki langt síðan fram fór í sjónvarpi umræðuþáttur um stjórnmál. Þessi hv. þm, gaf þá þær yfirlýsingar frammi fyrir alþjóð í sjónvarpi, að hann styddi engin þau úrræði, hver sem þau væru, hvort sem þau væru góð eða vond, sem fram kæmu frá núv. hæstv. ríkisstj., og eins og hann orðaði það, hann ætlaði ekki að hysja buxurnar upp um ríkisstj., ekki heldur hæstv. forsrh., sem hann var þó hér að biðla hvað mest til áðan.

Það er greinilegt og raunar öllum ljóst fyrir löngu, að þessi hv. þm. hefur það eitt að gera í pólitík að bíða þess, að hinn endanlegi dómur verði upp kveðinn, og það er einnig greinilegt á framkomu hans, að hann kvíðir mjög.

Ég tel nauðsynlegt vegna þeirra ummæla, sem hæstv. forsrh. viðhafði hér áðan í sínu máli, að fara nokkrum orðum um gang þess máls, sem hefur orðið til þess, að þeir atburðir hafa nú gerst, sem hér hefur verið lýst. Hæstv. forsrh. vildi láta líta svo út og fyllyrti reyndar og undirstrikaði, að nú hefðu þeir atburðir gerst, að SF hefði slitið þessu stjórnarsamstarfi, sem til var stofnað sumarið 1971. Hann sagði: Það er ekkert vafamál, hver það er, sem þessu samstarfi hefur slitið. — Ég held, að það sé nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir, að farið sé huldu höfði með yfirlýsingar eins og hæstv. forsrh. gaf hér, að upplýsa þetta mál öllu nánar og þá láta koma fram í dagsljósið það, sem rétt er og satt.

Það er vitað og kunnara en frá þurfi að segja, að allur ágreiningur SF við hæstv. forsrh. um það mál, sem hér um ræðir, var í meginatriðum um þær greinar frv. um viðnám gegn verðbólgu, sem snerta samningagerð hinna frjálsu samningsaðila á vinnumarkaðnum. Við höfðum ásamt hinum stjórnarflokknum, Alþb., lagt fram um það óskir og till., sem lagðar voru fram af okkar hálfu hinn 18. apríl s.l., og forsrh. fékk þá þegar eindregnar óskir um það, að þessar tilteknu og umdeildu greinar yrðu út úr frv. teknar og síðan yrði það, sem eftir væri og líklegt væri talið að ná samstöðu um í þinginu lagt fram í frumvarpsformi, en að þessu gerðu yrðu teknar upp viðræður og samráð við verkalýðshreyfinguna um þau meginmál, þ.e.a.s. þau grundvallaratriði verkalýðshreyfingarinnar, samningsréttinn. Þessu neitaði hæstv. forsrh. í þrjár vikur samstarfsflokkum í ríkisstj. Það eina, sem hann vildi fá fram, var stimpill á það frv., sem fram hefur verið lagt í þinginu, og sá stimpill var stimpill Framsfl.

En hið merkilegasta gerist, þrátt fyrir þessi vinnubrögð hæstv. forsrh. við samstarfsflokka í ríkisstj., að við 1. umr. málsins í Nd. Alþ., í framsöguræðu forsrh., býðst hann til þess að draga út úr frv. eina af þeim greinum, sem ollu hvað mestum ágreiningi innan stjórnarflokkanna. Hann hýðst til þess í framsöguræðu fyrir frv. að draga þessa gr. til baka, taka hana út, ef það geti orðið til samkomulags um málið. Þetta gerir hann um leið og málið er komið inn í Alþ., býður upp á það stjórnarandstöðunni, að ég hygg. Ég veit ekki, hvort samstarfsflokkarnir áttu neinn kost að óska þess fremur, að þetta væri gert, eftir að búið var að neita samstarfsflokkum í ríkisstj. um langan tíma að gera neinar þær breytingar, sem þeir óskuðu eftir.

Þetta kórónar svo hæstv. forsrh. með þeirri framkomu, sem ég hygg vera einsdæmi í sögu Alþ., þegar hann viðhefur þau orð, sem hér var vitnað til í upphafi, án þess að gera svo mikið sem tilraun til þess að ræða við viðkomandi ráðh. og tjá honum sjónarmið sín varðandi málið. ?:g tel ekki ástæðu til þess að lesa þetta hér frekar. það var gert áðan. En ég tel, að þau ummæli og framkoma hæstv. forsrh. við samráðh. sinn í ríkisstj., við samstarfsflokk í ríkisstj. og við verkalýðshreyfinguna, séu freklegt brot, með öllu óskiljanleg og með öllu ósæmandi manni í þessari stöðu. Ég lít ekki á þessi ummæli, sem til þess hafa orðið að hrekja annan ráðh. SF úr ríkisstj., að þeim sé eingöngu hefnt gegn einstaklingnum Birni Jónssyni. Þeim er ekki siður beint gegn SF í heild og þeim er ekki síst beint gegn verkalýðshreyfingunni í heild, þegar á það er litið, að sá ráðh., sem fyrir þessu varð, fyrir þessari kveðju hæstv. forsrh., er kjörinn í æðsta sess íslenskrar verkalýðshreyfingar sem forseti Alþýðusambands Íslands. Og því óskiljanlegri eru þessi vinnubrögð hæstv. forsrh. með tilliti til þess að viðhafa slík vinnubrögð við þann einstakling, sem til kemur að ráða ferðinni, móta afstöðu verkalýðshreyfingarinnar í þeim viðræðum, sem væntanlegar eru eða hafnar við ríkisstj. um vandamál efnahagslífsins. Dettur nokkrum heilvita manni í hug eftir slíka aðför að þessum einstaklingi, forseta Alþýðusambandsins, að það verði greiðari aðgangur fyrir hæstv. núv. forsrh. að ná samkomulagi um þessi þó mjög svo vandmeðförnu mál við verkalýðshreyfinguna? Ég held, að öllum, sem skoða þetta mál ofan í kjölinn, hljóti að vera ljóst, að hér hefur frá upphafi við meðferð þessa máls, eins og að því hefur verið staðið, verið að því stefnt að koma til leiðar þeim endalokum, sem hér hafa orðið.

Það er því hæstv. forsrh. og hann einn með vinnubrögðum í meðferð málsins í ríkisstj, og stjórnarflokkum, sem hann kórónaði síðan með ummælum sínum hér á hv. Alþ., hann er sá einn, sem ábyrgð ber á því, að komið er nú eins og menn vita. Ég lýsi allri ábyrgð á hendur hæstv. forsrh., hvernig komið er, því að hann einn með mótun og meðferð málsins í ríkisstj. og hjá þeim aðilum, sem með það hafa farið, hann einn hefur ráðið ferðinni. Það hefur á engu stigi verið tekið tillit til þess, sem samstarfsflokkar í ríkisstj., verkalýðsflokkar, hljóta að krefjast af vinveittri ríkisstj. verkalýðshreyfingunni, að full samráð séu við hana höfð. Og menn skulu minnast þess, að í stjórnarsáttmálanum, sem er staðfestur af öllum þm. stjórnarflokkanna, er einmitt eitt atriðið undirstrikað, þ.e. samráð við verkalýðshreyfinguna um lausn efnahagsmála.

Ég endurtek því. Hæstv. forsrh., — hann og hann einn ber á því ábyrgð, hvernig málum er nú komið. Það þýðir ekki fyrir hann né neinn annan, sem það vildi gera, sem ég hef ekki heyrt enn, að lýsa ábyrgð á hendur öðrum en þeim, sem hana réttilega bera.