06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (3802)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum forseta og lengja ekki þennan fund með mörgum orðum, enda er það rétt hjá honum, að ekki er til þess ætlast, að hér fari fram almennar stjórnmálaumr. En á þessum fundi hafa komið fram býsna athyglisverðar yfirlýsingar. Það liggur ljóst fyrir, að einn af stjórnarflokkunum hefur brugðist, hefur raunar klofnað í tvo parta til viðbótar því, sem áður hafði gerst, og meiri hl. hefur ákveðið að ganga gegn núv. ríkisstj.

Þessi ríkisstj. hefur senn verið við völd í 3 ár, og það eru augljóslega komin þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Ég tek undir með hæstv. menntmrh., að málefnagrundvöllur þessarar ríkisstj. er ekki brostinn. Meginkjarni stjórnarinnar stendur áfram saman og er reiðubúinn að leysa aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum með markvissum aðgerðum, og í þeim tilgangi hefur ríkisstj. lagt fram frv., sem átti að vísu eftir að fá venjulega meðferð hér á Alþ. og við Alþb.menn höfðum gert ákveðna fyrirvara við í vissum atriðum, en engin ástæða var til að ætla, að ekki gæti náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu þessa máls. Á það hafði ekki enn reynt.

Hitt var alls ekki ljóst, hvort ríkisstj. hefði þingstyrk hér á Alþ. til að koma málinu fram. Nú virðist hins vegar endanlega sýnt, að svo er ekki. Raunar er fátt, sem bendir til þess, að hér á Alþ. sé nokkur meiri hl. fyrir hendi í báðum d. þingsins til stuðnings við ákveðnar aðgerðir í efnahagsmálum. Við Alþb.- menn teljum því einsýnt, þegar svo er komið, að þjóðin verði að fá tækifæri til að dæma í almennum kosningum, hvort hér hefur starfað stjórn, sem er henni að skapi eða ekki. Úrslít kosninganna 1971 voru augljóslega krafa um myndun vinstri stjórnar, og það er því augljóst réttlætismál, að þegar einn aðilinn að núv. ríkisstj. hefur brugðist, þá beri að skjóta málinu til þjóðarinnar. Af þessari ástæðu teljum við Alþb.-menn sjálfsagt, að þing verði nú þegar rofið og efnt verði til nýrra kosninga, en núv. ríkisstj. sitji að völdum sem minnihlutastjórn, þar til dómur þjóðarinnar hefur verið felldur.