06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4228 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Frv. ríkisstj. um efnahagsmálin er auðvitað tilefni þeirra stórviðburða í íslenskum stjórnmálum, sem nú eru að eiga sér stað. Þingflokkur Alþfl. hefur einróma ályktað að greiða atkv. gegn þessu frv. þegar við 1. umr., ekki vegna þess að okkur sé ekki jafnljóst og öllum öðrum ábyrgum og skynsömum íslendingum, að nú er nauðsyn gagngerðra efnahagsráðstafana, heldur vegna hins, að við höfum fyllsta vantraust á núv. ríkisstj. Afstaða okkar til frv. er ekki afstaða til þess, hvernig leysa skuli efnahagsvandamálin, heldur mótast hún eingöngu af afstöðunni til ríkisstj. sjálfrar. Við höfum undanfarið bent á, að hún sé óstarfhæf. Nú hefur ríkisstj. sjálf staðfest, að þessi skoðun okkar hefur verið rétt.

Af þessu er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að hæstv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, eigi nú samkv. venjulegum þingræðisreglum þegar í stað að segja af sér og að efna eigi til kosninga eins fljótt og eðlilegt og unnt er.