06.05.1974
Sameinað þing: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

Umræður utan dagskrár

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Magnús T. Ólafsson tók það fram áðan, að hann teldi stjórnmál frekar snúast um málefni heldur en um menn. Þetta má rétt vera. En þó verður varla hjá því komist, að stjórnmál snúist hæði um menn og málefni, ég held, að það verði ekki aðgreint, og hér er mál, sem vissulega snertir hvort tveggja og ekki síst drengskaparatriði við mann, sem hafði orðið fyrir aðkasti úr ólíklegustu átt.

Ég veit, að það er satt, sem Magnús T. Ólafsson segir, að hann hafi unnið heils hugar að framgangi frv. um efnahagsmál. En það hafa fleiri gert og það gerðum við í mínum flokki allir saman. En þó var ágreiningurinn ekki meiri en það, að málið var flutt með fyrirvara af öllum þeim, sem að því stóðu, og einn ráðh. úr ríkisstj. studdi það ekki, stóð ekki að flutningi þess. Þannig virðist mér, að það sé hreint og klárt uppnefni að kalla slíkt frv. stjfrv. En þó virði ég það sjónarmið Magnúsar T. Ólafssonar, að hann vilji gera hlé á störfum í þingflokki okkar, þar til hann hefur séð fyrir endann á málefnalegri afgreiðslu Alþingis á þessu ágreiningsmáli. En allt hlakk andstæðinga okkar um það, að Magnús T. Ólafsson hafi slitið veru sinni í SF og í okkar þingflokki, eru hugarórar einir.

Hér er sagt: Nú er ljóst, hverjir bera ábyrgð á því, að stjórnarsamstarfinu er slitið. — Já, sér er nú hver ábyrgðin. Það var vitað af allri þjóðinni, að þessi ríkisstj. var dauð eða því sem næst dauð, hún var í dauðateygjum, og það er ekki nema vel, að við bindum enda á helstríð hennar.

Það er fjarri mér á þeim þremur mínútum, sem ég hef hér til umráða, — og ég tel það sanngjarnt af hæstv. forseta að skammta ræðutíma, — að ég vilji eyða orðum í pex við hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnason. Hann líkti mér við Þýskalandskeisara, Vilhjálm II, og ætti ég kannske að færa honum þakkarávarp fyrir að líkja mér við stórmenni sögunnar. En eitthvað hefur tilgangurinn með því sjálfsagt veríð blendinn, svo að ég læt þakkarávarp niður falla. En hitt er alrangt hjá honum, að sameiningardraumurinn, þó að ég setji það mál mjög ofarlega á málaskrá mína sem aldraðs stjórnmálamanns, hafi ráðið afstöðu okkar í þessu máli. Það var eingöngu þróun málsins sjálfs, sem réð þeim ályktunum og niðurstöðum, sem urðu í dag í þessu máli, og þar styðjumst við við fyllstu rök.

Svar til þessa hv. þm. að öðru leyti er fullkomlega gefið af æðsta manni Alþingis Íslendinga, hæstv. forseta, með því að hann áminnti hann þrisvar eða fjórum sinnum í ræðu sinni um málfar, sem ekki hlýði hér. Ég vona, að í framtíðinni lærist hæstv. prófessor að haga orðum sínum betur í samræmi við þingsköp Alþingis.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér væri um það að ræða, að nú mundi hann gera hlé á fundum Alþ. í dag til þess að hugleiða mál, leggjast undir feld, og ég virði það við hann, það er viturlegt, hugsa málið til þess að velja á milli leiða, hvort ríkisstj. segði nú af sér, þegar við blasti og hann vissi, að hann hafði ekki lengur fyrir stjórn sína meiri hl. Alþingis. Í fræðiriti, sem hæstv. forsrh. hefur samið, mikilli bók og vandaðri, stendur, að ef ríkisstj. viti, að hún hafi ekki lengur meiri hl. Alþ. að baki sér, þá beri henni — að gera hvað? Að biðjast lausnar. Þetta hefur fræðimaðurinn prófessor Ólafur Jóhannesson sagt. Ég vænti, að stjórnmálamaðurinn Ólafur Jóhannesson taki undir það. Það er ekki um tvennt að ræða, þingrof eða að biðjast lausnar. Það er einungis um það að ræða að biðjast lausnar, þegar ríkisstj. veit, að hún hefur ekki lengur meiri hl. á Alþ. Það hefur fræðimaðurinn sagt. Það að rjúfa Alþingi er að senda Alþingi heim frá störfum. Minni hl. getur ekki skipað meiri hl. Alþ. að hverfa frá störfum og hypja sig heim. Það er brot á 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sem segir, að þingræði skuli ríkja á Íslandi. Það þýðir, að meiri hl. Alþ. skuli á sérhverri stundu ráða. Það er því alger fjarstæða að taka það í mál, að sá möguleiki sé uppi, að minni hl. Alþ., sem nú blasir við og er skjalfastur, geti skipað meiri hl. Alþ. að hypja sig heim og að þing verði rofið. Það er því ekki um valkosti að ræða. Það er um það að ræða, það er skjalfest, það er vitað og það á að nægja, að núv. ríkisstj, hefur ekki meiri hl. á Alþingi Íslendinga.

Ég veit ekki, hvort ég er búinn að syndga upp á náðina, en ef svo er, þá ætla ég ekki að syndga meira í þetta sinn.