08.11.1973
Efri deild: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

46. mál, jarðalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er tilgangur þessara laga, eins og kemur fram í 1. gr. frv., að tryggja nýtingu lands utan skipulagðra þéttbýlisstaða, sem sagt að nýting landsins sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Ég tel engan vafa leika á því, að mikil nauðsyn sé að setja löggjöf af þessu tagi, því að hér er um mikið vandamál að ræða.

Jarðir á Íslandi hafa ekki í seinni tíð verið á ýkjaháu verði miðað við önnur verðmæti í þjóðfélaginu, og stafar það af þjóðfélagsþróuninni. Straumur fólks og fjármagns hefur legið frá landbúnaðarhéruðunum, úr strjálbýlinu í þéttbýlið, og þessu hefur fylgt hlutfallsleg verðlækkun lands. Nú er þetta aftur á móti mjög að breytast og uppi er vaxandi áhugi þeirra, sem í þéttbýlinu búa, að eignast land í sveitum landsins, og það er þá einkum ýmiss konar veiði, lönd fyrir sumarbústaði og svo jafnvel eignabrask af ýmsu tagi, sem veldur því, að þessi áhugi er upp kominn.

Ég tel, að um sé að ræða mjög varasama þróun, ef mikil verðhækkun verður á landi, sem fram að þessu hefur verið notað til landbúnaðar, af þeim ástæðum, sem ég hef hér rakið. Það er enginn vafi á því, að ef þessi nýi áhugi manna fyrir löndum veldur því, að raunveruleg bændabyggð verður miklu gisnari en áður, þá er búskapur á stórum svæðum í verulegri hættu. Ég held þess vegna, að gera verði ráðstafanir til þess að vernda búnaðarhéruðin fyrir braski, sem fyrst og fremst stafar af því, að menn eru að vonast eftir miklum verðhækkunum.

Í frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að unnið verði gegn þessari þróun með stofnun svokallaðra byggðaráða. Ég verð að vísu að játa, að mér er ekki alveg ljóst enn, hvort er um ráð að ræða, sem dugi, og óneitanlega eru þessi byggðaráð nokkuð þunglamaleg, þegar þannig er komið, að í hvert skipti sem fyrirhuguð eru aðilaskipti að réttindum yfir fasteign, hvort heldur er með kaupum eða gjöf, við skipti eða nauðungarsölu, skuli ævinlega þurfa að leita til þessara b0yggðaráða og afla samþykkis þeirra. Ég skal ekki ræða nánar um þetta framkvæmdaratriði. Ég er hins vegar samþykkur því, að gerðar séu ráðstafanir í þá átt að hindra það, sem frv. er ætlað að hindra. Þær eru nauðsynlegar.

Við Alþb.menn höfum talið rétt, að þetta frv. verði flutt, en að sjálfsögðu áskiljum við okkur rétt il þess að skoða nánar framkvæmdaratriði eins og þetta. En þetta frv. er flutt með í huga landbúnaðarhéruðin utan skipulagðra þéttbýlisstaða. Ég vil nefna vandamál, sem er náskylt þessu,en er þó á mörkum þess að falla undir viðfangsefni þessa frv., en þó er þar um að ræða vandamál, sem er svo náskylt, að mér sýnist, að úrlausn þess eigi að nokkru leyti heima í þessari löggjöf. Þar á ég við vandamál, sem upp koma, þar sem mætist þéttbýli annars vegar og landbúnaðarsvæði hins vegar. Þegar þéttbýli nálgast landbúnaðarhérað, verður þar á mörkunum yfirleitt gífurleg verðhækkun á tiltölulega fáum árum, og þar verður um að ræða meira brask, meiri verðhækkanir á landi en nokkurs staðar annars staðar. Nýjasta dæmi þessa er það, sem gerðist nú fyrir skömmu á Selfossi, þar sem jörð skyldi seld sveitarfélagi fyrir 30 millj. kr. Þessi verðhækkun var, eins og oft vill vera, án nokkurra tengsla við aðgerðir eigenda þessarar jarðar. Það eina, sem þeir höfðu til unnið, var að eiga landið, sem átti fyrir að liggja e. t. v. einhvern tíma í framtíðinni að lenda undir þéttbýli, og var þó þar um að ræða óvissa framtíð.

Í öllum slíkum tilvikum eru fórnarlömbin, sem fyrir þessu verða, fólkið á mölinni, sem er að koma yfir sig húsnæði og verður að borga hundruð þúsunda, hver einasti húsbyggjandi, fyrir lóðirnar, og þetta fé lendir sem sagt ekki í höndum bænda, heldur í höndum eignabraskara. Ég tel, að það þurfi að koma í veg fyrir, að atburðir eins og þessir eigi sér stað, og ég tel, að eina leiðin til að hindra þetta sé að koma í veg fyrir hækkun mats á slíkum jörðum. Samkvæmt lögum um eignarnám er matsverð eigna miðað við söluverð þeirra eða líklegt markaðsverð. Nú það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt sjónarmið, því að yfirleitt er óhjákvæmilegt að hafa einhverja viðmiðun, og þá verður auðvitað viðmiðunin að vera sú, hvað menn vilja gefa fyrir viðkomandi eignir. En ég tel, að það eigi að gera undantekningu með lönd, sem vegna þróunar í búsetu lenda undir þéttbýli og er úthlutað í húsalóðir, eins og í því dæmi, sem ég hef hér nefnt. Ég tel, að eigi að stemma á að ósi með því að setja ákvæði um það, bæði í jarðalögin, sem hér liggja fyrir til umr., og þá einkum í kaflann, sem fjallar þar um forkaupsrétt sveitarfélaga, og í lögin um framkvæmd eignarnáms, að við mat á verði jarða skuli ekki taka tillit til þeirra verðhækkana, sem stafa af því, að skipulagt þéttbýlissvæði er að byggjast upp í næsta nágrenni.

Af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að flytja hér skriflega brtt. Ég vil fyrst leyfa mér að lesa upp 27. gr. Hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Sé söluverð eignar óeðlilega hátt, miðað við líklegt raunverð, að áliti byggðaráðs, getur forkaupsréttarhafi krafist mats dómkvaddra manna á eigninni, og gildir það þá sem söluverð.“

Ég leyfi mér að flytja skriflega brtt. um það, að aftan við 27. gr., þá gr., sem ég nú las, komi: „Við matið skal ekki taka tillit til verðhækkunar, sem stafar af því, að skipulegt þéttbýlissvæði, sbr. 4. gr. þessara l., er að byggjast upp í næsta nágrenni og veldur óeðlilegri eftirspurn eftir landi, heldur ber að miða við verðmæti hliðstæðra eigna fjarri skipulagsskyldum þéttbýlisstöðum“

Ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja þessa till. öllu frekar, en vona, að hv. landbn. taki till. til velviljaðrar athugunar. Ég tel, að atburðir eins og þeir, sem hafa verið að gerast víðs vegar um land og núna seinast á Selfossi, þar sem litlu munaði, að venjuleg jörð, illa húsuð, væri seld á 30 millj. kr., eigi ekki að líðast. Atburðir af þessu tagi eru stöðugt að gerast allt í kringum okkur. Ég get nefnt það sem dæmi, að mér er sagt, að jörðina Blikastaði hér í grennd við Reykjavíkurborg eigi að selja eða hafi þegar verið seld Reykjavíkurborg á 540 millj. kr. Þetta er að sjálfsögðu stórhneyksli, en þó aðeins eitt af mörgum. Ég tel, að Alþ. eigi að sjálfsögðu að stöðva tafarlaust allt brask af þessu tagi með því m. a. að samþykkja þá brtt., sem ég hef hér lagt fram, en til þess að hindra þetta með öllu, þá kann að vera að gera þurfi leiðréttingar og breyt. á fleiri lögum en þeim, sem hér eru til umr.