07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4233 í B-deild Alþingistíðinda. (3813)

430. mál, endurskoðun sveitarstjórnarlaga

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Í stefnuræðu sinni í okt. s.l. fórust hæstv. forsrh. svo orð m.a.:

„Hafin er endurskoðun sveitarstjórnarlaga í samræmi við það fyrirheit í málefnasamningi ríkisstj. að auka sjálfsforræði byggðarlaganna. Þess er vænst, að framangreind endurskoðun vinnist svo greiðlega, að frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga verði lagt fram áður en Alþ. lýkur.“

Þessi fsp., sem hér er á dagskrá, var lögð fram af mér fyrir hálfum mánuði. Í millitíðinni hafa mikil tíðindi gerst, en ljóst er af því, að ekki er líklegt, að Alþ. standi miklu lengur. En hvað sem því liður, þá er allavega kominn sá tími, sem gera mátti ráð fyrir, að Alþ. lyki senn störfum, en þrátt fyrir það hefur ekki enn þá séð dagsins ljós það frv., sem hæstv. forsrh. talaði um í fyrrnefndum ummælum. Ég hef því séð ástæðu til þess að spyrjast fyrir um þessa endurskoðun og geri mér vonir um að fá yfirlit yfir þá endurskoðun, að hverju hún beinist, á hvaða grundvelli er starfað og í hvaða tilfellum á að auka sjálfsforræði sveitarfélaga o.s.frv.

Það, sem hvatti mig sérstaklega til þess að spyrjast fyrir um þetta, var afgreiðsla á grunnskólafrv. fyrir nokkrum vikum. Þar bar endurskoðun sveitarstjórnarlaganna mjög á góma, og vildu sumir halda því fram, að afgreiðsla þess máls ætti að haldast í hendur við endurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Af þessum ástæðum er rétt og skylt að fá upplýsingar um, hvað þessari endurskoðun líður.