07.05.1974
Sameinað þing: 85. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4234 í B-deild Alþingistíðinda. (3815)

431. mál, réttarstaða tjónaþola

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 779 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál., er samþ. var á Alþ. 3. apríl 1973, um könnun á réttarstöðu tjónaþola vegna skaða af völdum flugumferðar í nágrenni flugvalla?“

Eins og fram kom í grg. með þáltill. fró 1973, hefur legið nærri, að stórslys yrði við Keflavíkurflugvöll. Um völlinn og reyndar um Reykjavíkurflugvöll einnig fara stórar flugvélar af ýmsum þjóðernum, og er að sjálfsögðu erfitt að gera sér grein fyrir því, hvort ábyrgðartryggingar flugvéla eða flugvalla séu jafnan fullnægjandi.

Í lok framsöguræðu minnar fyrir þáltill. tók ég fram fjögur atriði, sem æskilegt væri, að athuguð yrðu:

Í fyrsta lagi, hvort öruggt sé, að aðilar, sem verða fyrir eigna- eða heilsutjóni vegna flugslysa, fái fullar bætur, jafnvel þótt ábyrgðartryggingar viðkomandi flugvéla nægi ekki til greiðslu á bótum. Reynist svo við athugun, að þetta sé ekki öruggt, teljum við nauðsynlegt, að þeir, sem sjá um rekstur flugvallanna, gefi sveitarfélögum í nágrenninu ákveðnar yfirlýsingar um, að hið opinbera muni bæta það, sem á vantar, þegar greiðsluskyldu tryggingafélaga þrýtur.

Í öðru lagi er nauðsyn, að það liggi ljóst fyrir, hver ábyrgðina her, ef bótaskylda verður vegna mengunar af völdum flugumferðar, t.d. vegna olíu, er kynni að renna út af flugvöllum eða frá geymslutönkum, er geyma flugvélaolíu inn í nærliggjandi sveitarfélög.

Í þriðja lagi er vitað, að hávaði af völdum risaþota getur valdið varanlegri örorku. Fullkomin nauðsyn er á, að þetta atriði verði kannað til hlítar og rannsókn sérfræðinga komi þarna til.

Í fjórða lagi þarf að liggja fyrir nákvæm áætlun hjá sveitarfélögum, hvernig hjálpar- og björgunaraðgerðum verði hagað, ef flugvél dettur niður í byggð og fjöldi manna slasast. Þar er þörf skipulagðra og margháttaðra aðgerða, sem nauðsynlegt er, að sveitarfélögum séu kunnar, svo sem brunavarnir, slysahjálp og sjúkrahúsaðstaða, og er líklegt, að meta þurfi sjúkrahús Keflavikur með þetta í huga, hraða endurbótum og uppbyggingu, sem alllengi hefur verið á döfinni.

Þetta voru þau orð, er ég viðhafði um athugunarþörfina í fyrra. Síðan þessi till. kom fram, hafa orðið stórslys úti í löndum, þegar flugvélar hafa fallið niður í borgarhluta og valdið óhemjuskaða. Sömuleiðis hafa, síðan þessi till. kom fram, orðið nokkur skrif vegna hugsanlegrar olíumengunar á vatnsbólum Suðurnesja vegna flugvélaolíu frá Keflavíkurflugvelli. Ég hef því hug á að vita, hvaða athuganir hafa farið fram á þeim atriðum, er ég hef getið um, á því ári, sem liðið er, síðan till. var samþykkt.