07.05.1974
Efri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að segja örfá orð um þetta frv., sem hér liggur fyrir um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég skal reyna að vera stuttorður, þótt ég vildi gjarnan geta rætt það mál nokkuð ítarlega.

Það er sannfæring mín nálægt eftir 21/2 árs setu í stjórn þeirrar stofnunar, að hún hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki í okkar landi, en það er jafnframt sannfæring mín, að eftir þennan tíma sé ástæða til þess að endurskoða lög um þá stofnun, endurskoða skipulag hennar, og það tel ég alls ekki óeðlilegt, því að með þessari stofnun var sannarlega farið inn á nokkuð nýjar brautir.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir allróttækri breytingu á þessari stofnun, þar sem gert er ráð fyrir því, að ein deild stofnunarinnar verði að sjálfstæðri stofnun. Ég hef gert mér grein fyrir því þann tíma, sem ég hef þarna verið, að þessi deild, hagrannsóknadeildin, hefur starfað í raun og veru sem utan við stofnunina væri. Hún hefur fyrst og fremst starfað til ráðuneytis við ríkisstj, og þá umfram aðra í nánu sambandi við forsrh. Og mér sýnist ljóst, að ríkisstj, þarf á hverjum tíma að hafa slíka sérfræðiráðgjafa sér við hlið og þá eðlilega án milligöngu. Að þessu leyti sýnist mér ekki óeðlilegt, að hagrannsóknadeildin sé gerð að nýrri stofnun og sett beint undir ráðh. Ég tel hins vegar, að samfara þessari breytingu hefði verið eðlilegra að líta á aðrar skipulagsbreytingar við Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég hef um það vissar hugmyndir, sem ég get ekki farið að lýsa hér í fáum orðum. Þó vil ég segja það, að ég er þeirrar skoðunar, að þessi stofnun eigi umfram annað að verða byggðastofnun, hún eigi sannarlega að hafa yfirumsjón með almennri áætlanagerð, en síðan ætti undir umsjón þeirrar stofnunar að vinna að hinum ýmsu áætlunum, bæði atvinnuvegaáætlunum byggðaáætlunum, eins og ræðst hverju sinni innan stofnunarinnar eða hjá einstökum rn, eða hjá landshlutasamtökum, sem ég tel að eigi að efla mjög í þessu skyni. En eins og ég sagði, fyrir utan þessa almennu áætlanagerð tel ég, að Framkvæmdastofnun ríkisins ætti umfram annað að breytast í eins konar byggðastofnun þessa lands og hafa það meginhlutverk að sinna því mikilvæga máli.

Þetta eru aðeins örfá orð til þess að lýsa þeirri skoðun minni, að þarna þurfi að verða gagnger breyting og það sé eðlilegt og sjálfsagt, að lært verði af þeirri 21/2 árs reynslu sem þarna er fengin, og ekkert óeðlilegt við það. Það er von mín, að í kjölfar þessa frv. fylgi nánari endurskoðun á skipulagi og starfsemi þessarar stofnunar, svo að við megum hafa af henni sem mest not í framtíðinni.