07.05.1974
Efri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4255 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst kominn mikill dugur í þingið núna. Þeir standa hér upp stjórnarsinnar hver af öðrum til þess að deila um það mál, sem hér liggur fyrir. Ég gat ekki heyrt betur á hv. síðasta ræðumanni en að hann væri að flytja hér almennar hugleiðingar eða hugsjónaræðu um þetta afkvæmi Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem á sínum tíma var mikið hitamál hér í þinginu. Nú hefur komið í ljós m.a. í þessum tillöguflutningi, að það, sem við sjálfstæðismenn m.a. bentum á í sambandi við uppbyggingu stofnunarinnar, hefur reynst rétt. Ég vil annars segja það, að ég skil ekki þennan voðalega asa, sem er hér á öllu. Mér hefur skilist á því, sem hæstv. forsrh. segir, bæði hér í þinginu og eins í sjónvarpi og svona víða annars staðar, þar sem hann hefur kvatt sér hljóðs, að það sé rétt, að við tökum okkur eðlilegan tíma. Og ég hef orðið var við það, eins og ég sagði, að hv. stjórnarandstæðingar virðast taka sér eðlilegan tíma og eru ekkert að flýta sér núna á þessu kvöldi.

Ég álít, að það, sem fyrst og fremst liggur fyrir að tala um hér í þinginu nú, það sé það, sem hæstv. forsrh. talaði um við 1. umr. frv. um viðnám gegn verðbólgu, að það væri skylda Alþ., að menn skiptust á skoðunum um þetta mál, og það væri þingmanna nú að taka ákvörðun um, hvaða ráðstafanir ætti að gera til að hefta þá holskeflu óðaverðbólgu, sem nú er að skella yfir. En þetta frv. hæstv, forsrh, er til 1. umr, nú í Nd., og maður skyldi ætla, að það væru haldnir kvöldfundir í hinni háu Nd. til þess að halda áfram að ræða þetta mál ekki síður en hér í Ed. En það er ekki gert. Það er ekki boðaður neinn fundur. Það virðist m.ö.o. sem hæstv. ríkisstj. hafi allt í einu misst áhugann á því að ræða efnahagsmálin í heild hér í hinu háa Alþingi. Ég vildi koma þessu hér á framfæri, og má vera, að ég sjái ástæðu til að tala nánar um það síðar í kvöld, ef tilefni gefst til.

Það var, eins og fram kom í sjónvarpi í kvöld, margt athyglisvert, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., m.a. ummæli hans um það, að þetta frv., sem liggur fyrir Nd, og má ekki ræða lengur, sé ekki nægilegt til þess að hefta þá verðbólguskriðu, sem nú er yfirvofandi, heldur þurfi einnig að láta gengið siga ofurlítið til viðbótar.

Ég vil svo aðeins staðfesta það, sem hv. 4. þm. Vestf, sagði hér áðan, að við sjálfstæðismenn erum samþykkir þessu máli, sem hér er til umr., og munum fylgja því.