08.11.1973
Neðri deild: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég stend hér upp fyrst og fremst til þess að beina þeim tilmælum til þeirrar n., sem þetta frv. fær til meðferðar og eftir till. hv. flm. verður félmn., að hún hafi samráð við dómsmrn. eða leiti umsagnar þess, áður en þetta mál verður afgreitt. Sú er ástæðan fyrir þeirri ósk, að þetta frv. lýtur öðrum þræði að þeim málefnum, sem lúta að dómsmálastjórn, þar sem gert er ráð fyrir því, að Seltjarnarneshreppur verði, jafnframt því sem hann verður gerður að kaupstað, sérstakt lögsagnarumdæmi. Er það í samræmi við þá almennu reglu, sem hér hefur gilt. En þegar um er að ræða stofnun lögsagnarumdæmis, leiðir af því, að þar verður að setja á stofn bæjarfógetaembætti, og því fylgir óneitanlega talsverður kostnaður. Ég hygg, að kostnaður við stofnsetningu bæjarfógetaembættis sé ekki fjarri lagi áætlaður um 10 millj., eins og nú er, og rekstrarkostnaður þeirra bæjarfógetaembætta, sem eru ódýrust, er, að ég ætla, um 4 millj. kr. Má þó vera, að það sé heldur vægt áætlað. Hér er því um talsvert kostnaðaratriði að ræða, og þess vegna finnst mér, að í sambandi við þetta mál og óskir, sem ég veit að eru fyrir hendi víðar að, jafnvel um sérstök kaupstaðarréttindi til handa vissum þéttbýlissvæðum, þurfi að athuga, hvort á alveg fortakslaust að halda fast við þá reglu, sem gilt hefur, að það skuli, jafnframt því að kaupstaður er settur á stofn, vera um að ræða sérstakt lögsagnarumdæmi.

Það má vel taka undir það, að það geti verið dálítið úrhendis fyrir íbúa Seltjarnarneshrepps, eftir að þeir væru orðnir kaupstaður, að sækja þjónustu eins og dómsmálameðferð, lögreglustjórn, tollheimtu o. fl. til Hafnarfjarðar. Hins vegar hygg ég, að það ætti ekki að vera örðugra fyrir þá heldur en er fyrir íbúa t. d. að taka í Árbæjarhverfi að sækja þessa þjónustu til embætta þeirra, sem hér í Rvík eru.

Þessu vildi ég aðeins skjóta fram til athugunar, vegna þess að mér sýnist, að það sé vert að athuga, hvort það geti ekki farið saman, að þarna verði um sjálfstæðan kaupstað að ræða, sem fari með stjórn sinna málefna með þeim hætti, sem kaupstaðir gera, en jafnframt hugsanlegt, að t. d. dómsmálameðferð, tollheimta, lögreglustjórn o. s. frv. lyti undir þau embætti, sem fara með þessi mál í Rvík. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að það mundi vera mikill sparnaður af því, í stað þess að setja þarna upp alveg nýtt embætti, nýja embættisstofnun. Ég er ekki að gera till. um þetta á þessu stigi, en vil aðeins orða þetta, og eins og ég sagði, aðallega mælast til þess við hv. n., sem málið fær til meðferðar, að hún hugi að því, að frv. hefur einnig að geyma þessa hlið á málinu, og hafi samráð við dómsmrn. og leiti till. þess um það, sem að þessum málum lýtur.