07.05.1974
Neðri deild: 122. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4258 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

291. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég fylgdi þessu frv. ekki úr hlaði, var sú, að ég gerði ráð fyrir því, að þm. hefðu kynnst því. Það hefur verið í meðförum Ed., og þar hefur ekki verið neinn ágreiningur um meginefni frv. Meginbreyt., sem í frv. felast, eru þær, að það er gert ráð fyrir nokkurri tilfærslu á tekjum og greiðslum almannatrygginga og ætlunin, að þar nái endar saman. Er ætlunin að skerða fjölskyldubætur á þann hátt, að þegar um er að ræða visst tekjustig, verði ekki greitt með fyrsta barni, en sú upphæð, sem þannig sparast, verði notuð til þess að rýmka nokkuð ákvæðin um tekjutryggingu, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur oft rætt um hér í Nd., að nauðsynlegt væri að rýmka að nokkru, og ég hef tekið undir það með henni, þannig að ég hygg, að ekki sé neinn ágreiningur á milli okkar um það atriði.

Einnig er ráðgert í þessu frv., að teknar verði inn tannlæknisaðgerðir. Fyrsta og annað skref eru ákveðin í frv. og meiningin, að að því verði stefnt, að tannlækningar verði hluti af sjúkratryggingunum, sem er ákaflega mikið stórmál. Þarna er um að ræða fyrsta áfanga þess. Ég hygg, að allir alþm. séu sammála um, að þarna sé rétt stefnt og áfram þurfi að halda á þeirri braut.

Þarna eru einnig ákvæði um breyt, á verðlagningu lyfja og röntgenmyndatöku, sem einnig eiga að vera almenningi í hag eða þeim, sem þurfa á slíkum athugunum að halda og lyfjakaupum utan sjúkrahúss.

Þetta eru meginefni þessa frv. Það kom fram í hv. Ed., að þar var um að ræða minni háttar ágreiningsefni, en ekki neinn ágreining um þessi meginatriði, og ég vona, að hin sama verði afstaða manna hér í hv. Nd. Ég tel það skipta ákaflega miklu máli, að þetta mál geti orðið að lögum á þessu þingi. Ég hygg, að það sé stutt eftir af þingtímanum, og vil leyfa mér að fara þess á leit við hv. heilbr.- og trn., sem ég legg til að fái frv. til afgreiðslu, að hún íhugi, hvort hún geti ekki hagað vinnubrögðum sínum þannig, að unnt sé að afgreiða málið.