07.05.1974
Neðri deild: 122. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4261 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

309. mál, Iðnlánasjóður

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um Iðnlánasjóð er tengt öðru frv., sem hér er á dagskrá, þ.e. frv. til l. um breyt. á l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, og vil ég leyfa mér að gera grein fyrir þeim báðum í senn. Þau eru samtengd.

Frv. um breyt. á Iðnlánasjóði gerir ráð fyrir því, að lagmetisiðnaður greiði iðnlánasjóðsgjald og eigi þá rétt á lánveitingum úr Iðnlánasjóði til jafns við aðra aðila, sem í þann sjóð greiða. Hitt frv. um breyt. á l. um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins gerir hins vegar ráð fyrir því, að lagmetisiðnaðurinn þurfi ekki að greiða útflutningsgjöld til sjóða sjávarútvegsins, sem hann hefur orðið að greiða til þessa, en lagmetisiðnaðurinn hefur ekki fengið lánafyrirgreiðslu úr þeim sjóðum. Ætlunin með þessum frv. báðum er þannig að koma á þeirri skipan, að lagmetið sé skilgreint sem iðnaður og fái þá sömu fyrirgreiðslu og annar iðnaður, en þurfi ekki að greiða gjöld til sjóða, sem lagmetisiðnaðurinn hefur ekki fengið neina fyrirgreiðslu úr.

Þessi frv. bæði hafa verið til athugunar í Ed. og voru þar samþykkt einróma og enginn ágreiningur um efni þeirra. Ég vil mjög eindregið beina því til hv. iðnn., hvort hún gæti ekki hagað störfum sínum svo, að unnt væri að afgreiða þessi frv. sem lög frá þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr, og hv. iðnn.