07.05.1974
Efri deild: 123. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3893)

9. mál, grunnskóli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns við þessa umr. tjá hv. menntmn. þakkir fyrir, hversu hún hefur orðið við tilmælum mínum að hraða eftir föngum athugun og meðferð þess máls, sem hér liggur fyrir. Ég tel, að hún hafi með starfi sínu enn einu sinni sýnt, að hv. d. rís fyllilega undir nafninu efri deild. Ég mun ekki fjölyrða um það, hve brýna þörf ég tel á, að Alþ. taki rögg á sig og afgr, þetta þýðingarmikla mál, sem nú er þar til meðferðar á þriðja þingi. Auk þeirra augljósu þarfa, sem ætlunin er að uppfylla með ákvæðum málsins, er með frv. um grunnskóla og skólakerfi lögð undirstaða að öllu skólakerfi í landinu, og endurskoðun og umbætur á framhaldsskólum ýmsum hljóta annaðhvort að dragast eða verða sundurlausari en ella, meðan Alþ. hefur ekki afgr. þessi mál.

Brtt. hv. menntmn. eru langflestar að mínu áliti leiðréttingar og lagfæringar til frekara samræmis á ákvæðum frv., og þeim, sem efnislegar eru og n. stendur öll að, get ég tjáð samþykki mitt.

Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum um einstök atriði í frv. um grunnskóla.

Hv. 1. þm. Vestf. spurði, hvern skilning bæri að leggja í 4. gr. um, að í strjálbýli geti starfað útibú frá grunnskóla, þar sem skilyrði séu fyrir hendi og ákvörðun sé um það tekin af réttu fræðsluyfirvaldi, og hver væri greinarmunur á þessum útibúum og skólum í sjálfstæðum fræðsluhverfum fyrir nemendur í sömu aldursflokkum, þ.e.a.s. hinum lægri aldursflokkum. Ég mun í stuttu máli reyna að gera þá grein, sem ég vona að fullnægi hv. þm., fyrir því, hvernig þessi ákvæði eru hugsuð. Hugsunin með heimildinni um stofnun útibúa frá grunnskóla er að greiða fyrir því, að tengsl geti skapast á milli grunnskóla, sem starfar fyrir stórt svæði og tekur við hinum eldri aldursflokkum, og skólastarfsins í dreifðum byggðarlögum, sem þessi grunnskóli þjónar, — að þarna geti kennslukraftar nýst sem best og starfið á skólasvæðinu verði sem samfelldast og markvissast. Þarna er síður en svo ætlunin að taka ráðin af skólahverfunum, að skylda þau til að gera sína skóla að útibúum frá grunnskóla, sem takmarkaðir séu við allra yngstu aldursflokkana, sem ekki geti náð hærra en upp í 10 ára aldur. Það eru þvert á móti fullar heimildir fyrir því og ráð fyrir því gert, að eftir því sem staðhættir og aðstæður krefjast á hverjum stað, geti verið starfandi grunnskólar fyrir tiltekna aldursflokka, þó að þeir nái ekki öllu grunnskólastiginu. Skólastarfið getur hvort heldur er farið fram í sjálfstæðum fræðsluhverfum eða í útibúum, sem tengd eru skipulagslega við ákveðna grunnskóla, sem ná yfir alla aldursflokka. Meginstefnan í þessu ákvæði eins og öðrum er, að ætið sé eftir fremsta megni að því stuðlað, að skólastarfið fari fram sem næst heimilum nemendanna, að ævinlega sé, þar sem unnt er að koma því við, viðhafður heimanakstur frekar en heimavistardvöl. En hér er verið að setja almennar reglur, sem verður síðan að sníða eftir staðháttum og aðstæðum á hverjum stað, og ég vil taka það fram, að nú þegar hefur menntmrn. heimild til þess að taka ákvarðanir um skólaskipun á einstökum stöðum. Þessari heimild hefur mér vitanlega aldrei verið beitt. Ætíð hefur verið unnið með það fyrir augum að ná viðunandi samkomulagi fyrir báða aðila, bæði þá, sem skólans njóta, og þá, sem kostnaðinn greiða, þannig, að tekið sé eðlilegt tillit til kostnaðarsjónarmiða annars vegar og hagræðissjónarmiða fyrir byggðarlögin hins vegar. Ég geri mér vonir um, að með því breytta skipulagi, — sem ég tel að reynast muni traustara skipulag, — sem komið verður á samkv. grunnskólafrv., verði enn hægara að haga vinnubrögðunum þannig framvegis heldur en það hefur þó verið hingað til. að hvergi þurfi að beita valdboði, heldur náist viðunandi samkomulag á hverjum stað.

Varðandi spurningu hv. 2. þm. Norðurl. e. um, hversu fari saman ákvæði grunnskólafrv. um afslátt frá kennsluskyldu fyrir kennara, sem náð hafa tilteknum aldri, og þau ákvæði, sem verið sé að ganga frá í kjarasamningum við kennarasamtökin, er því til að svara, að ákvæðin, sem eru í frv., hafa verið samin með fullri vitund fjmrh. og fjmrn., og ég get ekki ætlað annað en að í samningsgerð við þessa starfsmenn ríkisins sé farið eftir sömu sjónarmiðum og samningsaðilar fyrir ríkisins hönd hafa sett fram við undirbúning þessa máls.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni þær brtt., sem nokkrir menn úr hv. menntmn. bera fram á þskj. 863 og 866 við frv. um grunnskóla og skólakerfi og lúta að skólaskyldunni. Ég vil fyrir mitt leyti vara mjög við því, að breytt sé á þann hátt, sem lagt er til í nefndum till., skólaskylduákvæðum frv. og frumvarpanna. Þetta atriði var þaulrætt í Nd. og afgr. þar með atkvgr., og ég tel, að málinu væri teflt í tvísýnu, ef þessu atriði yrði nú breytt á þann hátt, sem til er lagt. Ég vil því beina því eindregið til tillögumanna, að þeir taki þessar tillögur til athugunar, taki þær helst aftur til 3. umr. og athugi, hvort ekki er unnt að opna fyrir frekari athugun á skólaskylduákvæðinu, án þess að málinu sé teflt í hættu.

Það er bjargföst skoðun mín, að ekki sé annað sæmandi virðingu Alþingis en að þessi mál hljóti loks afgreiðslu, eftir að þau hafa komið fyrir þrjú þing, verið rædd og athuguð, ekki aðeins hér í þingsölunum, heldur einnig meðal almennings op sérstaklega meðal skólamanna og sveitarstjórnarmanna. Ég veit, að víða um land er þess beðið með eftirvæntingu, að þessi mál nái fram að ganga og unnt sé að hefja störf að framkvæmdum í skólamálum í samræmi við ákvæði þeirra. Mér kemur ekki til hugar, að þrátt fyrir þá rækilegu meðferð, sem þessi hv. d. hefur látið málin sæta, og þá eru tímafrekari meðferð, sem átt hefur sér stað í hv. Nd., megi ekki finna galla eða hnökra á frv. Ég býst ekki við, að við gerum okkur þá hugmynd um það, alþm., hvorki við afgreiðslu þessa máls né annarra, að við séum að afgreiða hluti á þann hátt, að engir gallar megi á finnast. Þá mundum við máski aldrei afgreiða neitt mál í eilífri leit að einhverju, sem betur mætti fara. Hér verður að vinna undirbúningsstarf að löggjöf, eins og tími og aðstæður hrökkva til í hverju máli.

Ég tel, að því verði ekki móti mælt með neinum rökum, að sá heildartími, sem Alþ. hefur haft til að athuga þessi mál. sé einhver sá rýmsti, sem eigi sér stað, enda málið margbrotið og viðurhlutamikið, eins og margoft hefur verið tekið fram í þessum umr.