08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (3903)

8. mál, skólakerfi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. við 1. umr. grunnskólafrv. í þessari hv. d. vakti ég athygli á því, að mér fyndist ekki gæta nægrar framsýni í þessu frv., enda þótt ég viðurkenni, að það hafi verið undirbúið af mörgum mestu mennta- og skólamönnum þessa lands. Ég leit svo á, að fleiri nýmæla mætti vænta í skólafrv., sem svo lengi hefur verið á döfinni. En skólamál, skólakerfi, námsskrá, eru að sjálfsögðu grundvöllurinn undir framtíðarmenntun landsmanna og þess vegna áríðandi, að framsýni og nútímaleg viðhorf séu viðhöfð, þegar verið er að undirbúa framtíðarlöggjöf, sem á að standa áratugum saman.

Að verulegu leyti er þetta frv. til orðið til að jafna aðstöðu nemenda í landinu. En ég held þó, að mismununin sé ekki mest þar, sem getið er um í þessu frv., að hún sé. Ég viðurkenni það og veit, að á vissum stöðum í dreifbýlinu er aðstaðan slæm. En tiltölulega auðvelt mun vera að bæta úr því og ekki vafi á því, að enda þótt gömlu fræðslulögin væru í gildi áfram, yrði að sjálfsögðu bætt úr þeirri mismunun, sem þar á sér stað. Aftur á móti hef ég þá trú, að mikil mismunun einstaklinga fari fram í heimahúsum á aldursskeiðinu 5–7 ára og þessi mismunun sé stórvaxandi á síðustu árum og eigi jafnvel fyrir sér að vaxa í náinni framtíð. Þetta hyggist á því, að þjóðfélagsbygging okkar er að breytast. Það byggist á því, að mæðurnar, sem lengst af hafa verið ötulastar við að þroska og efla þekkingu barna sinna á þessu aldursskeiði, hafa einfaldlega ekki lengur tíma til þess að sinna þeim verkefnum, vegna þess að þær eru farnar út að vinna, Því hafði ég haldið, að leiðin til þess að jafna aðstöðu þjóðfélagsþegnanna í dag væri ekki endilega sú leið, sem hér er farin, heldur að tryggja það, að börn á aldrinum 5–7 ára geti notið sem jafnastrar aðstöðu til menntunar og þroska.

Það er ekki vafi á því, að aldursskeiðið 5–7 ára er mjög aðgengilegt þroskastig, og á því skeiði er mikils um vert, að barnið njóti umönnunar og áhuga fyrir þroska þess. Mjög er hætt við, að þetta verði vanrækt á þeim heimilum, þar sem hvorugt foreldranna er heima allan liðlangan daginn, þar sem börnum er komið fyrir á dagheimilum, sem í mörgum tilfellum eru aðeins geymslustaðir, og í öðrum tilfellum hleypt út á guðsgræna jörðina án afskipta fullorðinna. Ég lít svo á, að þetta sé mikið vandamál í okkar þjóðfélagi nú í dag og sé vandi, sem fari vaxandi, og þarna þurfi skólakerfið að grípa inn i. Þess vegna er ég vonsvikinn yfir því, að hv. n. skyldi ekki taka þessi mál til yfirvegunar og athuga, hvort hér væri ekki ástæða til þess að bæta um.