08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4328 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

9. mál, grunnskóli

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Raunar gæti ég látið nægja að vísa til þess, sem ég sagði áðan, þegar ég gerði grein fyrir atkv. mínu um það mál, sem þá var á dagskrá. Þá skýrði ég frá því, að við nánari athugun á þeirri brtt., sem ég stend að ásamt fleiri hv. þm. á þskj. 863 og fjallar um skólaskyldu, kom í ljós, að sú breyting, sem þar er gert ráð fyrir, gæti komið í veg fyrir, að þetta frv. fengist samþ. á þessu þingi, en það tel ég höfuðnauðsyn.

Ég stend því að annarri brtt. á þskj. 880. Þá till. flytja ásamt mér hv. þm. Ragnar Arnalds og Ásgeir Bjarnason. Sú brtt. gerir ráð fyrir ákvæði til bráðabirgða þess efnis, að menntmrh. skuli gera Alþ. grein fyrir framkvæmd l. og þá einkum undirbúningi að 9 ára skólaskyldu, þannig að Alþ. gefist kostur á að álykta á ný um það ákvæði, og skuli gera þetta að 4 árum liðnum. En eins og hv. þm. mun vera kunnugt, er ekki gert ráð fyrir því, að ákvæði um 9 ára skólaskyldu komi til framkvæmda fyrr en að 6 árum liðnum frá gildistöku laganna. Um þetta hefur orðið samkomulag við ýmsa þá aðila, sem töldu sig ekki geta staðið að þeirri brtt., sem fram kom á þskj. 863. Hins vegar lítum við flm. brtt. á þskj. 880 svo á, að hún fullnægi allsæmilega þeim sjónarmiðum, sem við höfum hreyft með fyrri brtt.

Með tilvísun til þessa féll ég frá stuðningi við brtt, á þskj. 863.

Ég vil jafnframt geta þess, að í viðræðum við hv. sjálfstæðismenn um þetta mál hefur komið í ljós, að þeir eru mjög andsnúnir þeirri brtt., sem samþ. var í nótt og er á þskj. 864, þar sem veitt er heimild til þess að skipta kaupstöðum með 10 þús. íbúa eða fleiri í hverfi. Ég verð að segja, að þetta kom mér mjög á óvart. Þarna er aðeins um heimild að ræða, og ég taldi, þegar ég beitti mér fyrir því, að upphaflegri till. um þetta efni, sem flutt var í Nd., væri breytt þannig, að þetta yrði aðeins heimild, en ekki skylda, að um það gæti orðið samkomulag. Ég veit ekki satt að segja, hvers vegna hv. sjálfstæðismenn eru þessu svo andsnúnir, nema þeir óttist að missa meiri hl. hér í Reykjavíkurborg og þeir, sem taki við, breyti þessu þá. En það ætti þá vitanlega að vera þeim frjálst. Einnig hefur verið sagt, að kröfur kunni að koma fram um þetta úr ýmsum hverfum. Ef það yrði svo, væri vitanlega sjálfsagt að verða við þeim og hafa þessa heimild.

Ég vil hins vegar enn ganga til samkomulags, til þess að frv. nái fram að ganga.

Ég harma það málþóf, sem hefur orðið í morgun, og ég vil taka það fram, að ég skildi satt að segja svo niðurstöður í nótt, þegar fallist var á að fresta 3, umr., að um það yrði samkomulag að ljúka þessari umr, fyrir hádegi. En það hefur ekki orðið. Ég geri það því treglega að fallast á, að þessi brtt. verði brott numin, en mér skilst, að fram muni koma brtt. um það efni.