08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4335 í B-deild Alþingistíðinda. (3913)

9. mál, grunnskóli

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst mótmæla því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan, að við hefðum skuldbundið okkur til þess í Sjálfstfl. að ljúka umr. um þessi mál fyrir hádegi í dag, Ég tók einmitt skýrt fram í ræðu minni í nótt og hélt, að það hefði legið alveg ljóst fyrir við 2. umr. málsins, að ég mundi óska eftir því, að okkur gæfist kostur á því að athuga um brtt. á milli 2. og 3. umr. og okkur gæfist kostur og tök á því að hafa samband við menn um það, vegna þess að ég áleit, að það væri nauðsynlegt í þessu máli. Annars skal ég ekki ræða þetta mál frekar, nema hv. 1. þm. Vestf. gefi mér tilefni til þess á eftir, og þá skal ég ræða þessi mál nánar við hann. Það er þá undir honum komið, hvað þær umr. teygjast.

Ég ætla ekki að ítreka það, sem ég hef áður sagt um grunnskólafrv. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hef ég fallist á að greiða fyrir því, að þetta frv. fái afgreiðslu hér úr d. í dag, og mun haga mér í samræmi við það.

Ég er hér með 3 skrifl. brtt., sem ég taldi rétt að flytja, en vil þó segja í því sambandi, að ég hefði kosið að flytja brtt. um miklu fleiri efnisatriði málsins. En eins og vinnubrögðum er háttað í sambandi við afgreiðslu þess, þá veit ég, að slíkt mun þýðingarlaust.

Ég legg til. að við 2. mgr. 22. gr. bætist þessi orð: „nema þegar rædd eru málefni einstakra nemenda.“ Þá hljóðar sú mgr. þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Formaður nemendaráðs á rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs, svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti, nema þegar rætt er um málefni einstakra nemenda.“

Álít ég, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt, og hef áður gert grein fyrir því, hvers vegna það er. Það er einfaldlega til þess, að kennarar geti komið saman og rætt ásinum formlegu kennarafundum málefni einstakra nemenda, en það munu þeir að sjálfsögðu ekki geta, ef einn nemandi úr skólanum hefur málfrelsi og tillögurétt og, seturétt á slíkum fundum.

Í sambandi við 36. gr. geri ég þá brtt., að til þess að öðlast starfsafslátt skuli miðað við 15 ár, en ekki 20. Ég hef kynnt mér milli umr., að það er ekki samkomulag um þetta atriði milli kennarasamtakanna og ríkisstj. í þeim kjarasamningum, sem nú eru, og liggur ekkert fyrir um það þar, að miðað skuli við 20 ára kennsluferil eða 28. Það kom hins vegar fram við atkvgr. málsins við 2. umr., þar sem greidd voru sérstaklega atkv. um þessa mgr. 36. gr., að ekki var fylgi við að fella þessa mgr. niður og láta þetta vera eingöngu samningsatriði milli opinherra starfsmanna og ríkisstj., eins og gert er ráð fyrir í 35. gr. um vinnutíma og kjör starfsmanna grunnskóla, að þan atriði skuli fara eftir ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég hefði lagt til. að þetta atriði kæmi undir slíka samningsgerð, og bendi á það, að með beinni lagasetningu á Alþ. um slíka einstaka þætti í starfskjörum einstakra starfshópa er í rauninni verið að taka af opinberum starfsmönnum málskotsréttindi til kjaradóms, sem hlýtur að fara eftir landslögum hverju sinni. Þessi till. er að mínu viti mjög hógvær, og ég vona, að hv. þdm. geti á hana fallist.

Loks flyt ég við 45. gr. þá brtt., að við bætist ný mgr. Eins og málið var afgr. á fundi þessarar hv. d. í nótt, var því slegið föstu, að öll börn á grunnskólaaldri skyldu fá jólaleyfi frá 21. des. til 3. jan. Ég geri að till. minni, að við bætist þessi mgr.: „Þó er heimilt að ákveða, að jólaleyfi barna á aldrinum 7–10 ára skuli vera til og með 7. jan.“ Það, sem þessi till. mín byggist á, er, að ég álít, að yngstu börnin þurfi nokkra daga til þess að jafna sig eftir jólahaldið og áramótagleðina og þann mikla hamagang, sem fylgir þessari hátíð. Ég bendi enn fremur á, að það er svartasta skammdegið, sem þarna er um að ræða, og ég fæ ekki séð, að það námsefni, sem kæmist til skila til litlu barnanna á þessum fjórum dögum, sem þarna skakkar, sé neitt úrslitaatriði í þessu máli. Mér finnst það skemmtilegur siður að halda hátíð fyrir yngstu börnin á þrettándanum. Þau hlakka til þess, það er svolítil uppbót á jólin, og þessi till. er eingöngu flutt af mannlegum ástæðum, þar sem ég álít, að þetta trufli ekki skólahald, en hins vegar finnst mér rétt að hugleiða, hvort ekki muni rétt að haga þessu með þessum hætti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessi mál frekar, nema tilefni gefist til.